Jólablað knattspyrnudeildar Gróttu er komið út í tólfta sinn

Fyrir jólin árið 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2022 myndi tólfta blaðið koma út!

Jórunn María Þorsteinsdóttir Bachmann ritstýrði jólablaðinu í ár. Í blaðinu má finna skemmtileg viðtöl, ýmsar fréttir og fróðleik. Í blaðinu er m.a. að finna viðtöl við Jón Jónsson, Emelíu Óskarsdóttur, Kjartan Kára Halldórsson, Magnús Örn Helgason og Huldu Mýrdal. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið en Eyjólfur Garðarsson á heiðurinn af þeim. Elsa Nielsen sá um uppsetningu blaðsins sem er hið glæsilegasta.

Dreifing hefur gengið vel þökk sé sjálfboðaliðum og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í öll hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins má finna hér: https://issuu.com/nielsenslf/docs/grottublad-2022-web

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Gróttufólki gleðilegra jóla og þakkar kærlega fyrir stuðninginn á liðnu ári 💙

Tilnefndar sem íþróttakona æskunnar

Íþróttamaður og kona Grótta fyrir árið 2022 verða kjörin við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 11. janúar kl. 17:30 í hátíðarsal Gróttu.

Auk þess verður kjörin íþróttakona æskunnar, tilnefndar eru frá fimleikadeild: Lilja Hugrún Pétursdóttir og Lovísa Anna Jóhannsdóttir. Frá handknattleiksdeild: Katrín Scheving Thorsteinsson og Lilja Hrund Stefánsdóttir. Frá knattspyrnudeild:

Sara Björk Arnarsdóttir og Jóna Guðrún Gylfadóttir

Jóna Guðrún Gylfadóttir
Katrín Scheving Thorsteinsson
Lilja Hugrún Pétursdóttir
Lilja Hrund Stefánsdóttir
Lovísa Anna Jóhannsdóttir
Sara Björk Arnarsdóttir

Tilnefndir sem íþróttamaður æskunnar

Íþróttamaður og kona Grótta fyrir árið 2022 verða kjörin við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 11. janúar kl. 17:30 í hátíðarsal Gróttu.

Auk þess verður kjörin íþróttamaður æskunnar, tilnefndir eru

frá handknattleiksdeild: Antoine Óskar Pantano og Gísli Örn Alfreðsson og frá knattspyrnudeild: Hannes Ísberg Gunnarsson og Tómas Johannessen.

Antoine Óskar Pantano
Gísli Örn Alfreðsson
Hannes Ísberg Gunnarsson
Tómas Johannessen

Íþróttamaður & kona Grótta verða krýnd í næstu viku

Íþróttamaður og kona Grótta fyrir árið 2022 verða kjörnir við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 11. janúar kl. 17:30 í hátíðarsal Gróttu. 

Auk þess verða krýnd íþróttafólk æskunnar, þjálfari ársins og sjálfboðaliðar ársins auk þess verða afhent verðlaun fyrir fyrstu landsleiki á síðasta ári.  

Við hvetjum allt Gróttufólk til að mæta og heiðra okkar flotta íþróttafólk.

Viltu gerast sjálfboðaliði í Gróttu?

Viltu gerast sjálfboðaliði í Gróttu ?  Viltu taka þátt í gefandi og skemmtilegum verkefnum sem tengjast íþróttaleikjum
eða öðrum verkefnum.  Viltu kynnast nýju fólki og nýjum viðfangsefnum?  Ertu hætt(ur) að vinna og vantar áhugaverð
og fjölbreytt verkefni til að verja tíma þínum í?  Vantar þig áhugamál?

Sjálfboðaliðastarf er hornsteinn og grundvöllur alls íþróttastarfs á Íslandi.  Íþróttafélagið Grótta treystir á óeigingjarnt vinnuframlag einstaklinga sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að byggja upp íþróttastarf fyrir unga sem aldna og halda því gangandi með dugnaði, eljusemi og ástríðu.

Hafir þú áhuga á að gerast sjálfboðaliði þá hvetjum við þig til að hafa samband við okkur með því að senda póst á grotta@grotta.is 

Ekki hika við að hafa samband.  Þér verður tekið fagnandi!

Kjartan Kári til Haugasund

Kjartan Kári Halldórsson og knattspyrnudeild Gróttu hafa gert samkomulag við norska úrvalsdeildarfélagið FK Haugesund um að Kjartan gangi til liðs við félagið. Haugesund endaði í 10. sæti norsku deildarinnar á liðnu tímabili en félagið hefur leikið í úrvalsdeildinni, Eliteserien, frá árinu 2010 og best náð þriðja sæti. 

Kjartan Kári, sem er 19 ára gamall, er fæddur og uppalinn Seltirningur og hefur leikið með Gróttu frá 5 ára aldri. Eftir að hafa farið í gegnum allt yngri flokka starf félagsins spilaði Kjartan sína fyrstu keppnisleiki með meistaraflokki sumarið 2020, þegar Grótta lék í úrvalsdeild, en var svo lykilleikmaður í liðinu ári síðar. Í sumar sprakk Kjartan út í Gróttuliðinu og varð markakóngur Lengjudeildarinnar með 17 mörk ásamt því að vera kosinn efnilegasti leikmaðurinn. 

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kjartan spilað 48 leiki í deild og bikar fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 29 mörk. Hann á einnig að baki 13 leiki fyrir yngri landslið Íslands og æfði á dögunum í fyrsta sinn með U21 árs landsliðinu. 

Grótta óskar Kjartani Kára og fjölskyldu hans innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans í Noregi

Grótta er fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Íþróttafélagið Grótta fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á fundi aðalstjórnar í vallarhúsi Gróttu miðvikudaginn 2. nóvember síðastliðinn.

Það var Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sem afhenti viðurkenningarnar til fulltrúa aðalstjórnar og allra deilda félagsins, þ.e. knattspyrnu-, handknattleiks- og fimleikadeildar. Félagið hlaut fyrst viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ árið 2005.

Á hópmyndinni eru frá vinstri, Andri Stefánsson, Guðjón Rúnarsson formaður fimleikadeildar, Arnkell Bergmann Arnkelsson formaður handknattleiksdeildar, Þröstur Þór Guðmundsson formaður Íþróttafélagsins Gróttu, Þorsteinn Ingason formaður knattspyrnudeildar og Gunnlaugur Jónsson íþróttastjóri félagsins.
Eyjólfur Garðarsson tók myndir við þetta tilefni.

„Við hjá Íþróttafélaginu Gróttu erum stolt og þakklát fyrir að fá viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélag. Það er afar mikilvægt fyrir félagið að ná þessu markmiði enda keppist Grótta við að vera til fyrirmyndar á öllum sviðum“, sagði Þröstur Þór formaður félagsins af þessu tilefni.

Kjartan Kári valinn í hóp U21 ára landsliðsins

Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari U21 karla, hefur valið hóp sem tekur þátt í æfingum dagana 3. og 4. nóvember. Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er í hópnum. Æfingarnar fara fram á Víkingsvelli og eru liður í undirbúningi liðsins fyrir vináttuleik gegn Skotlandi 17. nóvember ytra. Á æfingunum verða aðeins leikmenn sem leika á Íslandi, en lokahópur fyrir leikinn gegn Skotlandi verður tilkynntur síðar. Til hamingju Kjartan!