Æfingarnar í 9.flokki hafa slegið í gegn frá því að þær hófust í haust. Skráning er enn í gangi fyrir vorönnina og fer hún fram í gegnum Sportabler. Vorönnin kostar 24.900 kr. Fyrsti dagur eftir áramót er laugardagurinn 9.janúar og sá síðasti laugardaginn 30.apríl. Æfingarnar er kl. 09:40-10:30 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu.
Í 9.flokki er áhersla lögð á grunnatriði handknattleiksdeild með skemmtilegum leikjum í bland við fjölbreytta hreyfingu með bolta.
Þjálfarar eru Arndís María Erlingsdóttir og Hulda Björk Halldórsdóttir.
8 leikmenn frá okkur voru valin í unglingalandslið HSÍ núna fyrir helgi. Strákarnir Alex Kári Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano og Hannes Pétur Hauksson voru valdir í U16 ára landsliðið. Stelpurnar Arndís Áslaug Grímsdóttir, Dóra Elísabet Gylfadóttir, Elísabet Ása Einarsdóttir, Helga Sif Bragadóttir og Margrét Lára Jónsdóttir voru valdar í U15 ára landsliðið.
Við óskum þessum iðkendum okkar hjartanlega til hamingju með valið. Landsliðin æfa á höfuðborgarsvæðinu í byrjun janúar auk þess sem haldið verður áfram með fyrirlestraröðina Afreksmaður framtíðarinnar. Þar fá yngri landsliðið fræðslu sem nýtist þeim jafnt innan vallar sem utan.
U-18 ára landslið kvenna lék í Belgrad í Serbíu 22 – 25.nóvember síðastliðinn á umspilsmóti um sæti í A-keppni Evrópumóts kvenna í þessum aldurshópi á næsta ári. Katrín Anna Ásmundsdóttir leikmaður meistara- og 3.flokks var okkar fulltrúi í landsliðinu.
Stelpurnar unnu Slóveníu 24-21 í fyrsta leik og síðan Slóvakíu í öðrum leik 29-26. Því miður tapaðist úrslitaleikurinn við Serba stórt, 31-20. Okkar leikmaður Katrín Anna Ásmundsdóttir stóð sig vel á mótinu.
Katrín Anna hefur verið fastamaður í þessu landsliði undanfarin ár. Gríðarleg reynsla og tækifæri sem Katrín Anna fær í landsliðinu sem vonandi nýtist Gróttu næstu misseri.
Handknattleiksdeild Gróttu verður með jólahandboltanámskeið milli jóla og nýárs. Námskeiðið er opið öllum hvort sem viðkomandi er að æfa handbolta eða ekki. Leikmenn meistaraflokka félagsins munu þjálfa á námskeiðinu. Þátttakendur hafa því möguleika á að læra af þeim bestu í Gróttu. Námskeiðið fer fram 27. – 30.desember og er tvískipt:
7. og 8.flokkur (f. 2012-2015) 5. og 6.flokkur (f. 2008-2011)
Um helgina spilaði eldra árið á sínu öðru móti í vetur. Mótið fór fram í Fjölnishöllinni í Grafarvogi. Strákarnir léku í 3. deild og voru staðráðnir í að fara beint aftur upp um deild.
Strákarnir byrjuðu á að spila við Val 2 og var leikurinn í járnum í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur var flottur og leikurinn endaði 22-17 fyrir okkar drengjum. Annar leikur liðsins var við ÍR 1 og unnu strákarnir frábæran sigur eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik. Leikur þrjú var gegn Fram 2 og spiluðu strákarnir ekki nægilega vel en náðu samt sem áður að kreista út sigur með sigurmarki á lokasekúndunum frá Kolbeini. Síðan var komið að úrslitaleiknum og aftur spiluðu strákarnir við Val 2. Leikurinn var jafn í þrjátíu mínútur en endaði að lokum með sigri Gróttu 17-16.
Frábær helgi að baki hjá strákunum í 5.flokki. Þjálfarar flokksins eru Andri Þór Helgason og Hannes Grimm.
Eldra árið í 5.flokki kvenna tefldi fram tveimur liðum um helgina þegar þær tóku þátt á sínu öðru Íslandsmóti. Mótið fór fram hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ.
Lið 2 spilaði á laugardeginum í 4.deildinni. Þær léku gegn Stjörnunni í fyrsta leik þar sem þær unnu 16-11, flottur sigur hjá þeim. Næstu tveir leikir voru gegn Haukum og svo Fram. Báðir leikirnir enduðu með jafntefli, 13-13 gegn Haukum og 7-7 gegn Fram. Flott frammistaða hjá Gróttustúlkur. Síðasti leikur liðsins var síðan aftur gegn Haukum þar sem þær unnu 10-9 eftir jafnan og spennandi leik. Lið 2 vann því deildina og munu því spila í 3.deildinni á næsta móti. Flott frammistaða og miklar framfarir hjá stúlkunum okkar.
Lið 1 spilaði á sunnudeginum í 2.deildinni. Fyrsti leikur var gegn Víkingi og unnu þær góðan sigur 12-8 eftir hafa verið yfir allan leikinn. Næsti leikur var gegn Fram og unnu þær 16-13 eftir spennandi leik. Þriðji leikurinn var gegn ÍBV og var hann jafn og spennandi. Leikurinn endaði með flottum sigri Gróttu 19-17. Síðasti leikurinn var síðan gegn Fram og voru þær með yfirhöndina allan leikinn og unnu góðan sigur 15-11. Lið 1 vann því 2.deildina og munu því spila í 1.deildinni á næsta móti.Flott frammistaða hjá stelpunum og má greinilega sjá framfarir hjá báðum liðum.
Það verður áfram spennandi að fylgjast með þeim í vetur. Þjálfarar stelpnanna eru þeir Davíð Örn Hlöðversson og Patrekur Pétursson Sanko.
Fimm stelpur frá Gróttu/KR hafa verið valdar í U14 ára landsliðið sem æfir dagana 26. – 28. nóvember næstkomandi. Það eru þær; Arndís Áslaug Grímsdóttir, Dóra Elísabet Gylfadóttir, Elísabet Ása Einarsdóttir, Helga Sif Bragadóttir og Magrét Lára Jónasdóttir.
Þetta er í annað sinn í vetur sem þessar fimm stúlkur hafa verið valdar í hópinn. Við óskum þeim til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum. Vonandi halda þær áfram að standa sig vel !
Þjálfarar U14 ára landsliðs kvenna eru þau Díana Guðjónsdóttir og Jón Brynjar Björnsson.
Um helgina fór fram Hæfileikamótun HSÍ. Um er að ræða fyrstu skrefin í unglingalandaliðum HSÍ. Þar gefst krökkum tækifæri til að kynnast umgjörð HSÍ og æfa meðal bestu leikmanna landsins. Yfirmaður Hæfileikamótunar HSÍ, Jón Gunnlaugur Viggósson valdi flotta fulltrúa frá okkur.
Það voru þau: Arnar Magnús Andrason Helgi Skírnir Magnússon Kári Kristjánsson Kolbeinn Thors
Helgina 8. – 10. október fór eldra árið í 5.flokki kvenna og karla til Vestmannaeyja og spiluðu á sínu fyrsta Íslandsmóti. Strákarnir tefldu fram einu liði en stelpurnar tveimur liðum. Ferðin heppnaðist vel bæði handboltalega séð og félagslega séð.
Stelpurnar mættu ferskar og spenntar í fyrstu leikina á föstudeginum. Lið 1 lék gegn HK en því miður tapaðist sá leikur. Lið 2 spiluðu gegn Fram og náðu í jafntefli eftir að hafa verið undir meirihluta leiksins. Á laugardeginum spiluðu bæði lið tvo leiki. Lið 1 gerði jafntefli gegn Fram og unnu síðan Stjörnuna. Lið 2 áttu fyrsta leik gegn Haukum sem voru mun sterkari og tapaðist sá leikur. Seinni leikurinn var gegn FH og unnu þær flottan sigur. Á sunnudeginum átti lið 1 erfiðan leik fyrir höndum gegn Val og unnu þær okkur stúlkur sem börðust hins vegar allt til loka leiks. Lið 2 spilaði sinn síðasta leik gegn sterku liði Selfoss og tapaðist sá leikur eftir mikla baráttu hjá okkar stúlkum.
Strákarnir spiluðu tvo leiki á föstudeginum. Fyrri leikurinn var við Aftureldingu og byrjuðu strákarnir af miklum krafti og voru þremur mörkum yfir í lok fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikur gekk brösulega og fóru Afturelding með sigur úr leiknum. Seinni leikurinn var við Selfoss þar sem leikurinn var hnífjafn en endaði með sigri Selfyssinga. Á laugardeginum mættu strákarnir Fram í fyrsta leik og voru strákarnir greinilega ekki tilbúnir í þá baráttu. Seinni leikurinn var við ÍBV og sá leikur hnífjafn frá fyrstu mínutu, strákarnir spiluðu feikilega vel sóknarlega og endaði leikurinn með þriggja marka sigri Gróttu.
Á laugardagskvöldinu fór fram kvöldvaka og hluti af henni var leikur landsliðsins gegn pressuliðinu og áttum við einn strák í pressuliðinu; Arnar Magnús Andrason og tvær stúlkur; Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir. Okkar fulltrúar stóðu sig feikivel í leikjunum.
Þessi ferð á Eyjablikksmótið skildi eftir sig góðar minningar og vonandi halda krakkarnir áfram að bæta sig í handboltanum eins og þeir hafa gert hingað til.
Þjálfarar strákanna eru Andri Þór Helgason og Hannes Grimm. Þjálfarar stelpnanna eru Davíð Örn Hlöðversson og Patrekur Pétursson Sanko.
Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir