Fyrsti heimaleikur í Olísdeildinni

Fyrsta umferð Olísdeildar karla fer fram í kvöld en þá mæta okkar menn ÍR í Hertz-höllinni á Nesinu. Leikurinn hefst kl. 19:30. Við hvetjum Seltirninga og annað Gróttufólk að mæta og styðja liðið frá upphafi.

Áfram Grótta !

Minningarleikur Ása er í kvöld

Í kvöld fer fram minningarleikur Ása en þá mætast Grótta og U18 ára landslið kvenna. Leikurinn hefst kl. 19:30 og fer fram í Íþróttahúsi Gróttu, Hertz-höllinni.

Allir handboltaunnendur og aðrir sem vilja minnast Ása eru hvattir til að mæta.

Aðangaseyrir er 1000 kr eða frjáls framlög.
Sjoppusala verður á staðnum og mun öll sjoppusala og aðgangseyrir renna í styrktarsjóð barna hans:
512-26-204040, kt. 700371-0779.

Ásmundur Einarsson var formaður Handknattleiksdeildar Gróttu. Hann vann mikið og gott starf allan sinn tíma í félaginu, fyrst í barna- og unglingaráði og síðan heimaleikjaráði og formennsku Handknattleiksdeildar. Ási var bráðkvaddur 24.júlí sl. langt fyrir aldur fram.

Minningarleikur Ása

Miðvikudaginn 7.september fer fram minningarleikur Ása en þá mætast Grótta og U18 ára landslið kvenna. Leikurinn hefst kl. 19:30 og fer fram í Íþróttahúsi Gróttu, Hertz-höllinni.

Allir handboltaunnendur og aðrir sem vilja minnast Ása eru hvattir til að mæta.

Aðangaseyrir er 1000 kr eða frjáls framlög. Sjoppusala verður á staðnum og mun öll sjoppusala og aðgangseyrir renna í styrktarsjóð barna hans: 512-26-204040, kt. 700371-0779.

Ásmundur Einarsson var formaður Handknattleiksdeildar Gróttu. Hann vann mikið og gott starf allan sinn tíma í félaginu, fyrst í barna- og unglingaráði og síðan heimaleikjaráði og formennsku Handknattleiksdeildar. Ási var bráðkvaddur 24.júlí sl. langt fyrir aldur fram.

Æfingar hefjast í handboltanum

Á mánudaginn, 22.ágúst, hefjast handboltaæfingar hjá öllum flokkum í Gróttu. Við hvetjum alla krakka til að koma á æfingar strax frá upphafi. Við vonumst til að sjá alla iðkendurna frá því í fyrra og þeir krakkar sem vilja koma og prófa eru sérstaklega boðin velkomin. Frítt er að prófa handboltaæfingar í ágúst. Þjálfarar taka vel á móti krökkunum.

Æfingatöfluna má sjá hér fyrir neðan en einnig eru allar æfingar komnar inn í Sportabler. Búið er að opna fyrir skráningar í Sportabler. Allir iðkendur fá nýjan keppnisbúning frá Craft núna í haust en sérstakur mátunardagur verður auglýstur síðar.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Maksim yfirþjálfara á netfangið maksim@grotta.is

Áfram Grótta !

Æfingar hjá 9.flokki hefjast aftur

Æfingarnar í 9.flokki sem slógu í gegn í fyrra hefjast aftur í byrjun september. Æfingarnar verða kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfar verða þær Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu.

Skráning fyrir haustönnina er hafin og fer fram í gegnum Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Minningarorð – Ásmundur Einarsson

Fallinn er frá einstakur Gróttumaður í blóma lífsins, Ásmundur Einarsson. Ási eins og hann var jafnan kallaður, var ákveðinn, glaðlyndur og heilsteyptur maður sem sinnti föðurhlutverkinu af stakri prýði.  Það var því sjálfgefið hjá Ása að leggja Gróttu lið þegar yngsta dóttir hans kom til félagsins frá KR.  Frá þeim degi átti félagið því láni að fagna að njóta starfskrafta hans. Alla tíð vildi hann veg félagsins sem mestan og lagði sitt að mörkum til þess. Fyrst með störfum í barna- og unglingaráði handknattleiksdeildar Gróttu, síðan sem fulltrúi í heimaleikjaráði meistaraflokks og nú síðustu misseri sem formaður handknattleiksdeildar Gróttu. Ási tók að sér þau störf sem þörf var fyrir hverju sinni og sinnti þeim af stakri samviskusemi og vandvirkni. Ekkert verkefni var of lítið eða of stórt fyrir Ása sem hoppaði í öll verk með bros á vör. Fyrir þessi óeigingjörn störf í þágu félagsins var Ási sæmdur bronsmerki Gróttu árið 2021.

Grótta saknar vinar í stað og harmar einstakan liðsmann. Mestur er þó missir fjölskyldu hans. Stjórn Gróttu færir þeim einlægar samúðarkveðjur, ekki síst Katrínu Önnu dóttur hans sem leikur með meistaraflokki félagsins, með djúpri þökk fyrir ómetanlegt starf Ása á liðnum árum.

Handbolta- og Afreksskóli Gróttu – síðasta námskeið er í næstu viku.

Síðasta námskeið í handboltaskóla Gróttu er í næstu viku.  
Skólinn er kl. 09:00-12:00 en boðið er upp á ókeypis gæslu frá kl. 08:00 og til kl. 13:00.

Handboltaskólinn er fyrir krakka f. 2016 – 2011 og verður vel tekið á móti öllum byrjendum. Þátttakendum verður skipt upp eftir aldri.

Afreksskóli Gróttu
Lokanámskeið Afreksskóla Gróttu er einnig í næstu viku. 

Afreksskólinn er fyrir krakka fædda 2007 – 2010 eða þá iðkendur sem munu verða í 5. og 4.flokki á næsta tímabili.
Afreksskólinn er kl. 12:30-14:00 á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum og fer fram Íþróttahúsi Gróttu. Líkt og undanfarin ár starfa frábærir þjálfarar við skólann. Í Afreksskólanum er farið dýpra í handboltafræðin en í Handboltaskóla Gróttu.

Verð:
Handboltaskóli Gróttu (2011-2016) > Vika 3 (15 – 19.ágúst) – 7000 kr
Afreksskóli Gróttu (2007-2010) > Vika 3 (15-18 ágúst) –  5500 kr. 

Skráning í Handboltaskóla og Afrkesskóla Gróttu fer fram hérna:

www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Katrín Anna og U18 ára landsliðið í 8.sæti á HM

Undanfarna daga og vikur hefur U18 ára landsliðs kvenna staðið í ströngu á HM í Norður-Makedóníu. Katrín Anna Ásmundsdóttir úr Gróttu lék á mótinu og stóð sig frábærlega líkt og liðið í heild sinni. Í riðlakeppninni vann Ísland tvo leiki gegn Svíum og Alsíringum og gerði jafntefli við Svartfjallaland. Í milliriðlum vann liðið báða sína leiki gegn heimasætunum í Norður-Makedóníu og Íran.

Með þeim úrslitum var liðið komið í 8 liða úrslit og lék háspennuleik gegn Hollendingum. Því miður tapaðist sá leikur með minnsta mun og liðið lék því um 5. – 8.sæti. Þar voru Frakkar sterkari í fyrri leiknum en í leiknum um 7.sætið þurfti vítakeppni að skera út um sigurvegara. Ísland beið lægri hluti og 8.sætið staðreynd sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á HM.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju stelpur og þjálfarar!

Myndir: HSÍ og IHF

CRAFT er nýr búningastyrktaraðili Gróttu

Íþróttafélagið Grótta hefur samið við New Wave Iceland um að félagið noti CRAFT íþróttafatnað næstu fjögur árin.  Félagið fór í stórt útboð síðastliðinn vetur og niðurstaðan var að semja við New Wave Iceland en strax frá upphafi sýndi fyrirtækið mikinn áhuga að semja við okkur. Með tilkomu samningsins verður New Wave Iceland einn af aðal styrktaraðilum Íþróttafélagsins Gróttu.

Íþróttafélagið Grótta þakkar Errrea á Íslandi fyrir frábært samstarf undanfarin 14 ár en Grótta hefur spilað í Errea fatnaði frá haustinu 2008. 

Haraldur Jens Guðmundsson, framkvæmdastjóri New Wave Iceland er hæstánægður með nýja samninginn: „Við hjá New Wave Iceland erum afar ánægð að hafa náð saman við Gróttu um samstarf næstu fjögur árin þar sem Grótta æfir og keppir í fatnaði frá Craft.  Grótta er öflugt félag sem við erum stolt af að geta stutt við bakið á næstu árin og hlökkum við mikið til samstarfsins.”

Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Gróttu hafði þetta að segja eftir undirritun samningsins: „Um leið og við þökkum Errea fyrir áralangt farsælt samstarf hlökkum við mikið til samstarfsins við Craft. Samningurinn er einn stærsti heildarsamningur sem félagið hefur gert frá upphafi. Vöruúrval Craft er mikið og spennandi tímar framundan í samvinnu Gróttu og Craft.”

Craft er alþjóðlegt íþróttavörumerki sem hóf starfsemi 1977 og framleiðir í dag hágæða fatnað fyrir flestar íþróttir sem hafa notið mikilla vinsælda um langt skeið.  Craft er í eigu New Wave Group sem er móðurfélag dreifingaraðila Craft á Íslandi, New Wave Iceland.  Á síðustu árum hefur Craft haslað sér völl á liðamarkaðnum með frábærum árangri þar sem má telja fjölda landsliða og félagsliða sem hafa kosið að leika í Craft sbr. sænsku knattspyrnuliðin Hammarby IF og IFK Gautaborg, sænska handboltalandsliðið og sænska landsliðið í fimleikum. 

Andlát – Ásmundur Einarsson

Það voru miklar sorgarfregnir sem bárust okkur Gróttufólki sunnudaginn 24. júlí síðastliðinn að Ásmundur Einarsson hafi verið bráðkvaddur langt fyrir aldur fram. Ásmundur eða Ási eins og hann var jafnan kallaður vann fyrir handknattleiksdeild Gróttu um árabil bæði í barna- og unglingaráði og nú síðast sem formaður handknattleiksdeildar félagsins. Ási hefur einnig verið lykilmaður í undirbúningi og umgjörð nánast allra heimaleikja Gróttu undanfarin ár. Ása verður sárt saknað í starfi félagsins.

Íþróttafélagið Grótta vottar fjölskyldu, ættingjum og vinum samúð sína og minnir um leið á styrktarsjóð barna hans: 0370-13-011901, kt. 180282-4839.