Fyrsti A-landsleikur Hákons

Hákon Rafn Valdimarsson lék sinn fyrsta A-landsleik í gær þegar hann kom inn á í hálfleik í vináttulandsleik gegn Úganda. Staðan var 1-1 þegar Hákoni var skipt inn á og urðu það lokatölur leiksins.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með þetta skref á ferlinum en hann er fyrsti Gróttumaðurinn til að spila A-landsleik 💙👏🏼

Kjartan Kári framlengir hjá Gróttu

Hinn 18 ára gamli Kjartan Kári Halldórsson framlengdi nú á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Hinn ungi og efnilegi Kjartan Kári á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.
Samningurinn við Kjartan Kára er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn þess og hlökkum við til að fylgjast með Kjartani á komandi tímabili.

Lilja Lív og Lilja Scheving á úrtaksæfingum U17 ára landsliðsins

 Gróttukonurnar Lilja Lív Margrétardóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving eru í hóp U17 ára landsliðsins sem æfir saman dagana 10.-12. janúar. Knattspyrnudeild Gróttu er stolt af því að eiga glæsilega fulltrúa félagsins í þessum hóp. 
Næsta verkefni U17 kvenna eru milliriðlar undankeppni EM 2022. Ísland er þar í riðli með Írlandi, Finnlandi og Slóvakíu og verður leikið á Írlandi 23.-29. mars. 

Fimm leikmenn skrifa undir

Það er mikið gleðiefni að segja frá því að þær Signý Ylfa Sigurðardóttir, Edda Björg Eiríksdóttir, Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lovísa Davíðsdóttir Scheving og Lilja Lív Margrétardóttir hafa endurnýjuað samninga sína við Gróttu.
Samningarnir við stúlkurnar eru mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn Gróttu, enda er um að ræða efnilegar og öflugar knattspyrnukonur sem verða Gróttuliðinu mikilvægar á komandi tímabili.

Pétur Rögnvaldsson, þjálfari Gróttu, fagnar tíðindunum og segir þau gott veganesti inn í nýtt ár:
„Það býr mikið í öllum þessum stelpum. Allar áttu þær góða spretti síðasta sumar en komandi tímabil getur verið tækifæri fyrir þær til að springa út og verða lykilleikmenn í Gróttuliðinu. Það eru eflaust mörg lið sem stefna á toppbaráttu næsta sumar, en það er frábært fyrir Gróttu að hafa á síðustu þremur mánuðum endursamið við svona stóran hluta liðsins síðustu tvö ár. Það gefur okkur bjartsýni og orku inn í nýtt ár.“

Luke Rae til Gróttu

Framherjinn Luke Rae er genginn til liðs við Gróttu og hefur skrifað undir samning við félagið til 2023 🤝

Luke er tvítugur Englendingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár á Íslandi. Eftir að hafa byrjað aðeins 16 ára gamall að spila í neðri deildum á Englandi gekk hann til liðs við Tindastól og skoraði 16 mörk í 20 leikjum í 3. deild sumarið 2020. Á liðnu tímabili spilaði hann svo með Vestra í Lengjudeildinni og tók þátt í bikarævintýri Ísfirðinga sem komust alla leið í undanúrslit, en hann á að baki 26 leiki fyrir Vestra í sumar þar sem hann skoraði 3 mörk.

Luke er duglegur og eldfljótur leikmaður sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum. Hann er spenntur fyrir komandi áskorunum með Gróttu:
„Ég er mjög glaður með að hafa skrifað undir hjá Gróttu. Mér finnst vera mikill metnaður hjá félaginu – æfingarnar eru góðar og ég held að leikstíll liðsins henti mér vel. Öll vinna í kringum liðið er mjög fagleg og ég trúi því að hér geti ég bætt mig sem leikmaður. Strákarnir hafa tekið vel á móti mér og ég er spenntur að komast betur inn í hópinn sem stendur þétt sama og er hungraður í að ná árangri.”

Hilmar Þór Helgason á láni til Gróttu

Hinn 16 ára Hilmar Þór hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu en hann kemur frá Breiðablik. Hilmar er uppalinn Gróttumaður en skipti yfir í Breiðablik árið 2019 og hefur spilað þar síðan. Hilmar er gríðarlega efnilegur markmaður sem á að baki einn leik fyrir U-17 ára landsliðið.

Hilmar er spenntur fyrir verkefninu í Gróttu og segist vera ánægður að vera mættur aftur á Vivaldivöllinn.

„Þetta ferli að koma hingað er búið að vera langt. Ég er mjög glaður að vera kominn aftur og er spenntur að vera partur af þessu liði. Strákarnir, staffið og þjálfararnir eru búnir að taka vel á móti mér og ég hlakka til að vinna með þeim. Ég er mikill og stoltur Gróttumaður og mun gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná langt.“

Það er mikið gleðiefni að fá Hilmar aftur í Gróttu 👏🏼

Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson framlengja hjá Gróttu

Þeir Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára.

Arnar Þór er 25 ára gamall miðvörður, sem hefur verið lykilmaður í vörn Gróttuliðsins síðastliðin ár ásamt því að vera afar ógnandi í vítateig andstæðinganna. Arnar Þór á að baki 101 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 12 mörk, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2016.

Júlí er 25 ára gamall miðvörður sem spilaði sína fyrstu leiki með Gróttu sumarið 2018 og hefur spilað með liðinu síðan. Júlí á 47 leiki að baki fyrir félagið og hefur skorað í þeim 2 mörk en hann var ásamt Arnari lykilleikmaður í varnarlínu Gróttu síðastliðið sumar.

Samningarnir við Arnar Þór og Júlí eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.

Lilja Lív valin í U17 ára landsliðið

Lilja Lív Margrétardóttir er í hóp U17 ára landsliðsins sem æfir dagana 23. og 24. nóvember. Æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði. Næsta verkefni er önnur umferð undankeppni EM 2022, en dregið verður í riðla í desember.
Vel gert Lilja 🙌🏼🇮🇸

Hákon kallaður inn í A-landsliðið og Orri Steinn í U-21

Gróttumenn gera það gott! Hákon kallaður inn í A-landsliðið og Orri Steinn í U-21 🇮🇸

Hinn 17 ára gamli Orri Steinn Óskarsson var kallaður inn í U21 árs landsliðið í gær en liðið spilaði við Liechtenstein í dag. Þar hitti Orri sinn fyrrum liðsfélaga hjá Gróttu, en Hákon Rafn Valdimarsson var milli stanganna hjá U21 árs landsliðinu í 3-0 sigri. Hákon var í byrjunarliði liðsins en Orri Steinn kom við sögu sem varamaður og lék sinn fyrsta landsleik með U21 ára liðinu. Það er skammt stórra högga á milli, en eftir leikinn var tilkynnt að Hákon Rafn Valdimarsson hefði verið kallaður inn í A-landsliðið. Hákon verður því í íslenska landsliðshópnum í leiknum gegn Norður-Makedóníu á sunnudag.
Geggjaðir 🙌🏼💙

Arnfríður Auður valin í U15 ára landsliðið

Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir er í hóp U15 ára landsliðsins sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið til að æfa saman 15.-17. nóvember.
Knattspyrnudeild Gróttu er hreykið að eiga fulltrúa í þessum hópi, en hin 13 ára gamla Aufí er gríðarlega efnileg knattspyrnukona!