Söguleg stund á Kópavogsvelli

Það var söguleg stund á Kópavogsvelli þann 14. júní þegar Grótta steig sín fyrstu skref í Pepsi Max deild karla. Staðan var 1-0 fyrir Blikum í hálfleik en lokatölur urðu 3-0. Strákarnir börðust til síðustu mínútu og voru manni færri síðasta hálftíma leiksins eftir að Arnar Þór fékk að líta rauða spjaldið.
Stuðningsmennirnir lögðu sig alla fram við að halda stemningunni uppi í stúkunni sem er ekki síður mikilvægt. Gaman var að sjá hvað margt Gróttufólk lagði leið sína á völlinn til að styðja við bakið á strákunum í kvöld. Mætingin leggur góða línu fyrir sumarið!

Næsti leikur hjá drengjunum er á Vivaldivellinum á laugardaginn kl. 15:45 gegn Valsmönnum!
Áfram gakk 👊🏼💙

Myndir: Eyjólfur Garðarsson

Hulda Sigurðardóttir til Gróttu

Hulda Sigurðardóttir er genginn til liðs við Gróttu á láni frá Fylki. Hulda, sem er fædd árið 1993, hefur spilað 123 leiki (48 í efstu deild) með Leikni, Haukum og Fylki og skorað í þeim 24 mörk. Þá á Hulda að baki 10 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Magnús Örn Helgason þjálfari Gróttu fagnar komu Huldu á Nesið. „Það er frábært fyrir okkar unga lið að fá hæfileikaríkan og reynslumikinn leikmann eins og Huldu í okkar raðir. Hún getur spilað margar stöður og brotið leikinn upp. Hulda er sterkur karakter og strax á hennar fyrstu æfingum hefur sést hve öfluga keppnismanneskju hún hefur að geyma.“ Hulda var einnig mjög kát með skiptin yfir í Gróttu. „Ég er mjög glöð að vera komin í Gróttu og hlakka til að byrja að spila. Það er mikil stemning og metnaður innan hópsins og móttökurnar sem ég fékk voru frábærar. Vonandi get ég hjálpað liðinu að eiga frábært sumar í Lengjudeildinni.“

8. og 7. flokkur á VÍS móti Þróttar

Laugardaginn 31. maí skelltu 7. flokkur karla og 8. flokkur karla og kvenna sér á VÍS mót Þróttar. Sumir voru að fara á sitt fyrsta mót á ævinni en allir á sitt fyrsta mót í langan tíma. Grótta fór með 3 lið úr 8. flokki karla, 1 lið úr 8. flokki kvenna og 2 lið úr 7. flokki karla. Krakkarnir voru hress og kát innan sem utan vallar og greinilegt að það var mikið fjör að fá loksins að keppa í fótbolta!

Halda áfram að lesa

Sumarnámskeið fyrir 4. og 5. fl. kvenna og karla (börn fædd 2006-2009)

Námskeið 1: Styrktarnámskeið undir stjórn Þórs Sigurðssonar 10-19. júní. Verð: 7.500 kr.
Miðvikudag 10. júní, föstudag 12. júní, mánudag 15. júní og föstudaginn 19. júní.

Þór Sigurðsson er íþróttafræðingur frá HR ásamt því að vera með MsC í styrktar- og úthaldsþjálfun frá UCAM háskóla í Murcia á Spáni. Þór er yfirstyrktarþjálfari Gróttu og hefur starfað hjá félaginu síðan 2017. Hann hefur þjálfað karla- og kvennamegin í handbolat og fótbolta við góðan orðstír. Hjá knattspyrnudeildinni þjálfar Þór meistaraflokk karla og kvenna ásamt 2. og 3. fl. karla. Hann rekur einnig Kraftstöðina sem er styrktar- og einkaþjálfunarstöð.

Námskeið 2: Hlaupatækninámskeið undir stjórn Brynjars Gunnarssonar 22.-3. júlí. Verð: 7.500 kr.
Mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 10:30

Brynjar Gunnarsson er íþróttafræðingur frá HR, spretthlaups þjálfari og yfirþjálfari yngriflokka hjá ÍR. Hann þjálfar meðal annars Íslandsmeistara karla og kvenna í 100m og 200m hlaupum. Einnig þjálfar hann Guðbjörgu Jónu Ólympiumeistara ungmenna í 200m hlaupi. Þess utan er hann styrktar og snerpu þjálfari Afrekssviðs Borgarholtsskóla og hjálpar þar fjölda ungmenna úr allskyns íþróttum að bæta snerpu, styrk og hraða.

Námskeið 3: Knattspyrnuakademía Péturs Rögnvaldssonar 6.-10. júlí. Verð: 10.000 kr.

Pétur Rögnvaldsson hefur verið þjálfari í knattspyrnudeildinni í mörg ár og er flestum hnútum kunnugur. Hann er aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna og bættist nýverið við í þjálfarateymi 4. flokks karla. Pétur er með BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og UEFA-B þjálfaragráðu.

Námskeið 4: Knattspyrnuakademía Péturs Rögnvaldssonar 13.-17. júlí Verð: 10.000 kr.
Ef keyptar eru báðar vikurnar í knattspyrnuakademíunni kostar hún 16.500 kr.

Námskeið 5: 20.-31. júlí: Auglýst nánar síðar.

Öll námskeiðin fara fram á Vivaldivellinum. Skráning er hafin á grotta.felog.is en takmarkaður fjöldi kemst að á hlaupa- og styrktarnámskeiðin.

Ástbjörn á láni til Gróttu

KR, Grótta og Ástbjörn Þórðarson hafa komist að samkomulagi um að Ástbjörn leiki með Gróttuliðinu í Pepsi Max deildinni á komandi leiktíð.
Ástbjörn er fæddur árið 1999 og er uppalinn hjá KR í Vesturbænum. Hann fékk sína eldskírn í efstu deild með KR sumarið 2016 þegar hann kom inná í leik gegn Fylki, en hann hefur leikið samtals 11 leiki fyrir KR í efstu deild. Ástbjörn var lánaður til ÍA og Víkings Ólafsvík tímabilið 2018 en í fyrra var hann lánaður á miðju tímabili til Gróttu í Inkasso deildina. Þar lék Ástbjörn stórt hlutverk þegar liðið fagnaði sigri í deildinni og komst uppí Pepsi Max deildina í fyrsta skipti.
Ástbjörn hefur leikið samtals 10 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 1 mark.

Grótta býður Ástbjörn innilega velkominn aftur til félagsins og væntir mikils af honum í sumar.

Karl Friðleifur til Gróttu

Grótta hefur náð samkomulagi við Breiðablik um að fá Karl Friðleif Gunnarsson að láni fyrir átökin í Pepsi max deildinni á komandi keppnistímabili. Karl Friðleifur er stórefnilegur knattspyrnumaður, fæddur árið 2001 og uppalinn í Kópavoginum hjá Breiðabliki. Hann hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands í gegnum tíðina, en hann hefur leikið samtals 27 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim 7 mörk. Karl steig sín fyrstu skref í efstu deild sumarið 2018 undir stjórn Ágústar Gylfasonar. Karl Friðleifur er frábær viðbót við ungt og spennandi lið Gróttu, sem hefur leik í Pepsi max deild karla þann 14. júní næstkomandi, í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Chris framlengir samning sinn við knattspyrnudeildna

Knattspyrnudeild Gróttu hefur framlengt samning við Chris Brazell sem yfirþjálfari yngri flokka hjá deildinni til haustsins 2022.
Chris, sem er 27 ára gamall, er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska stórliðsins Norwich þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu.

Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni í nóvember á síðasta ári og hefur strax sett mark sitt á starf deildarinnar. Deildin fagnar því að hafa nú ráðið yfirþjálfara til næstu tveggja ára sem mun halda áfram að stuðla að þeirri uppbyggingu sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Um framlenginguna hafði Chris þetta að segja: „Það er mér mikill heiður að framlengja samning minn við Gróttu í tvö ár til viðbótar. Á þeim tíma munum við halda áfram með þá uppbyggingu sem hefur verið í gangi og halda áfram að veita samfélaginu á Seltjarnarnesi framúrskarandi þjónustu. Klúbburinn er afar heppinn að búa yfir frábærum hópi þjálfara og starfsfólks bæði á vellinum og á bakvið tjöldin, og það er ekki síst vegna þessa fólks sem að mér fannst ég strax eins heima hjá mér og viss strax að ég vildi vera áfram. Þjálfararnir okkar, leikmenn og samfélagið gera deildina að því sem hún er og ég mun halda áfram að leggja mitt af mörkum til uppbyggingarinnar og njóta margra spennandi stunda með ykkur á næstu árum.“