Ari Pétur framlengir til 2026

Ari Pétur Eiríksson hefur framlengt samning sinn við Handknattleiksdeild Gróttu til ársins 2026. Ara Pétur þarf vart að kynna fyrir Gróttufólk enda hefur hann leikið 90 leiki fyrir félagið. Hann er 21 árs gamall og leikur sem hægri skytta. Ari Pétur hefur skorað 17 mörk sem af er Olísdeildarinnar. Þess fyrir utan er hann með 28 sköpuð færi fyrir liðsfélaga sína.

Ari Pétur hefur leikið með flestum yngri landsliðum Íslands. Það eru gleðifréttir að Ari Pétur verði áfram í herbúðum Gróttu. Miklar vonir eru bundnar við þennan uppalda Gróttumann og verður spennandi sjá hann næstu misserin.

Fræðslufyrirlestur fyrir foreldra

Á dögunum hélt Anna Steinsen frá KVAN fyrirlestur fyrir handboltaforeldra sem bar yfirskriftina „Hvernig get ég stutt barnið mitt í handbolta?“

Hún fjallaði um menningu í hópum og hvernig við getum orðið jákvæðir leiðtogar. Mikilvægi liðsheildar og að við látum okkur aðra varða, hugsum um heildina. Hún talaði einnig um samskipti og með áherslu á samskipti milli kynslóða og hvernig við getum stutt við okkar barn á uppbyggilegan hátt.

Virkilega áhugavert fræðsluerindi fyrir foreldra sem höfðu einmitt á orði hversu gagnlegt þetta hefði verið.

Anna Karólína og Katrín Anna í U20 ára landsliðinu

Landsliðsþjálfarar U20 ára landsliðs kvenna, þeir Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson völdu í gær landsliðshóp U20 ára landsliðsins til æfingar dagana 23. – 26.nóvember. Við í Gróttu eigum tvo fulltrúa í liðinu en það eru þær Anna Karólína Ingadóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir.

Við óskum þessum flottu fulltrúum okkar til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á æfingunum.

Edda valin í U15 ára landslið kvenna

Landsliðsþjálfarar U15 ára landsliðs kvenna, Sigríður Unnur Jónsdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir völdu í dag U15 ára landsliðshóp sem mun æfa dagana 23. – 26.nóvember næstkomandi. Einn fulltrúi frá Gróttu er í landsliðshópnum en það er hún Edda Sigurðardóttir. Edda er leikmaður í 4.flokki kvenna hjá félaginu.

Til hamingju Edda og gangi þér vel á æfingunum !

Vinavikur handboltans

Næstu tvær vikurnar fara fram vinavikur í handboltanum. Við hvetjum alla núverandi iðkendur til að taka með sér vini eða vinkonur á æfingar. Aðrir sem hafa áhuga á að koma og prófa, eru hjartanlega velkomin.

Æfingatöflu yngri flokkanna má sjá hér á myndinni.

Þjálfararnir taka vel á móti krökkunum !

Áfram Grótta !

Domino´s og Grótta áfram í samstarfi

Handknattleiksdeild Gróttu og Domino´s Pizza hafa endurnýjað samstarfið til næstu þriggja ára. Það var Ásmundur Atlason markaðsstjóri Domino´s Pizza og Arnkell Bergmann Arnkelsson sem skrifuðu undir samninginn í hálfleik á leik Gróttu og HK í Olísdeild karla í gærkvöldi.

Domino´s Pizza þarf vart að kynna fyrir Íslendingum en fyrsta verslunin var stofnuð 1993 á Grensásveginum. Núna eru 22 verslanir um allt land.

Domino´s Pizza veitir Gróttufólki 30% afslátt af öllum sóttum pizzum á matseðli Domino’s þegar pantað er á netinu eða með appi. Kóðinn er: Grótta22 og virkar hann ekki með öðrum tilboðum. Lágmarkspöntun er 1.000 kr fyrir afslátt.

Handknattleiksdeild Gróttu hlakkar mikið til áframhaldandi samstarfs við Domino´s Pizza.

Æfingar 9.flokks að hefjast

Handknattleiksdeild Gróttu er að hefja aftur æfingar fyrir krakka á leikskólaaldri fædda 2018 og 2019. Æfingarnar eru á laugardögum kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfari flokksins er Ingi Þór Ólafson ásamt aðstoðarþjálfurum.

Þarna gefst krökkum á leikskólaaldri að kynnast handbolta með reglubundnum æfingum einu sinni í viku. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu. Fyrsta æfing verður 2.september. Við hvetjum alla til prófa.

Skráning fer fram í Sportabler sportabler.com/shop/grotta/handbolti og er verðið fyrir haustönnina 23.400 kr. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á netfangið magnuskarl@grotta.is.

ÆFINGATAFLA VETRARINS TILBÚIN

Æfingar hjá yngri flokkum Gróttu (5. – 8.flokki) hefjast samhliða skólabyrjun eða þriðjudaginn 22.ágúst. Æfingar 3. og 4.flokks hafa verið frá byrjun ágúst. Núna í ágústmánuði hefur Handboltaskóli Gróttu og Afreksskóli Gróttu verið starfræktur. Seinasti dagur námskeiðsins er á morgun, mánudaginn 21.ágúst.

Allar upplýsingar um 9.flokkinn verða tilkynntar í næstu viku. Æfingar 9.flokks hefjast laugardaginn 2.september.
Búið er að ráða alla aðalþjálfara handboltans fyrir tímabilið og mun öflugur hópur þjálfara vera við störf hjá deildinni í vetur.

  • 8. flokkur karla – Magnús Karl Magnússon
  • 8. flokkur kvenna – Arndís María Erlingsdóttir og Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir
  • 7. flokkur karla – Hannes Grimm
  • 7. flokkur kvenna – Ari Pétur Eiríksson
  • 6. flokkur karla Hannes Grimm
  • 6. flokkur kvenna – Ari Pétur Eiríksson
  • 5. flokkur karla – Elvar Orri Hjálmarsson
  • 5. flokkur kvenna – Patrekur Pétursson Sanko
  • 4. flokkur karla – Andri Sigfússon
  • 4. flokkur kvenna – Magnús Karl Magnússon
  • 3. flokkur karla – Andri Sigfússon
  • 3. flokkur kvenna – Einar Örn Jónsson
  • Ungmennalið karla – Davíð Örn Hlöðversson

Allar fyrirspurnir um handboltastarfið er hægt að nálgast hjá Magnúsi Karli Magnússyni yfirþjálfara deildarinnar á netfanginu magnuskarl@grotta.is

Áfram Grótta og Grótta/KR !

Katrín Anna á EM í Rúmeníu

Sumarið var viðburðaríkt hjá Katrínu Önnu Ásmundsdóttur. Í júní fór hún ásamt U19 ára landsliðinu til Færeyja og lék tvo vináttulandsleiki við heimakonur. Fyrri leiknum lauk með sigri 29-26 en síðari leiknum lauk með tapi 25-31. Leikirnir voru mikilvægir í undirbúningi liðsins fyrir EM í Rúmeníu í júlí.

U19 ára landsliðið var í erfiðum riðli á EM. Liðið beið lægri hlut gegn Rúmeníu, Þýskalandi og Portúgal í riðlakeppninni en var grátlega nálægt sigri í leiknum gegn Þjóðverjum. Í keppninni um 13. – 24.sætið byrjaði liðið á ósigri gegn Hollandi en vann síðan alla leikina sem komu í kjölfarið; gegn Króatíu, Norður Makedóníu og Serbíu og 13.sætið staðreynd. Katrín Anna átti frábært mót og skoraði 32 mörk. Hún var einnig valin maður leiksins í leiknum gegn Króatíu.

Með þessum úrslitum tryggði íslenska liðið sér keppnisrétt á HM á næsta ári en mótið fer fram í Norður Makedóníu.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju U19 kvenna og þjálfarar !

Myndir: EHF og HSÍ

Aukadagur í Handboltaskóla Gróttu

Vegna fjölda fyrirspurna þá höfum við bætt við einum degi til viðbótar í Handboltaskóla Gróttu. Þessi aukadagur er mánudagurinn 21.ágúst.

Eins og hefur verið undanfarnar vikur, þá er skólinn frá kl. 09:00-12:00 en boðið er upp á endurgjaldslausa gæslu frá kl. 08:00-09:00 og aftur kl. 12:00-13:00. Krakkarnir þurfa að taka með sér nesti.

Verðið er 2000 kr og fer skráningin fram í Sportabler. Eins og áður er Patrekur Pétursson Sanko skólastjóri og er með einvala lið þjálfara með sér til að leiðbeina og þjálfa.

Skráning: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti