Vinavikur handboltans

Næstu tvær vikurnar fara fram vinavikur í handboltanum. Við hvetjum alla núverandi iðkendur til að taka með sér vini eða vinkonur á æfingar. Aðrir sem hafa áhuga á að koma og prófa, eru hjartanlega velkomin.

Æfingatöflu yngri flokkanna má sjá hér á myndinni.

Þjálfararnir taka vel á móti krökkunum !

Áfram Grótta !

Pétur leggur þjálfaraskónna á hilluna í bili

Fyrir stuttu tilkynnti Pétur Rögnvaldsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, stjórn og leikmönnum að hann hygðist taka sér hvíld frá þjálfun eftir níu ára farsælt starf fyrir knattspyrnudeild Gróttu. Það verður sjónarsviptir af Pétri þar sem hann hefur verið einn burðarásanna í þjálfarahópi félagsins í uppbyggingarstarfi þess á síðustu árum. Drýgstan skerf hefur Pétur þó lagt af mörkum til uppbyggingar kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum.


Pétur hóf störf hjá knattspyrnudeild Gróttu í ársbyrjun 2015 og hefur starfað þar óslitið síðan. Hann þjálfaði bæði stelpur og stráka í yngri flokkunum og þar af fjögur ár í eldri flokkum kvenna. Fyrst 4. flokk Gróttu/KR tímabilin 2016 og 2017 og síðar 3. flokkinn í tvö ár við góðan orðstír. Í ársbyrjun 2019 tók hann við sem aðstoðarþjálfari Magnúsar Arnar Helgasonar hjá meistaraflokki kvenna í Gróttu sem þá lék í 2. deild. Tveimur árum síðar steig hann upp að hlið Magnúsar sem aðalþjálfari liðsins. 


Eftir dramatískt fall í 2. deild haustið 2021 tók Pétur við sem aðalþjálfari enda hafði uppbygging gengið vel og allar forsendur til að fara rakleiðis aftur upp í Lengjudeildina. Það tókst Gróttukonum með Pétur í brúnni í fyrra og í sumar náði liðið besta árangri í sögu meistaraflokks kvenna. Eins og kunnugt er spilaði Grótta hreinan úrslitaleik við Fylki um sæti í Bestu deildinni fyrir framan 800 áhorfendur á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september. Eftir jafnan leik hafði Fylkir sigur en sú niðurstaða varpar ekki skugga á stórkostlegan árangur Gróttuhópsins. 


Gróttufólk þakkar Pétri ómetanlegt starf í þágu knattspyrnudeildar og félagsins. Það er ekki ofsagt að hann hafi gegnt lykilhlutverki í starfinu; borið hag félagsins fyrir brjósti, alltaf með hjartað á réttum stað og hugann við að byggja upp heilsteypta einstaklinga og öfluga liðsheild. Jafnframt óskum við Pétri velfarnaðar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og bjóðum hann velkominn í bakvarðasveitina!

Æfingar 9.flokks að hefjast

Handknattleiksdeild Gróttu er að hefja aftur æfingar fyrir krakka á leikskólaaldri fædda 2018 og 2019. Æfingarnar eru á laugardögum kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfari flokksins er Ingi Þór Ólafson ásamt aðstoðarþjálfurum.

Þarna gefst krökkum á leikskólaaldri að kynnast handbolta með reglubundnum æfingum einu sinni í viku. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu. Fyrsta æfing verður 2.september. Við hvetjum alla til prófa.

Skráning fer fram í Sportabler sportabler.com/shop/grotta/handbolti og er verðið fyrir haustönnina 23.400 kr. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á netfangið magnuskarl@grotta.is.

3. flokkur kvenna sigurvegarar á USA Cup!

3. flokkur kvenna kom heim á þriðjudagsmorgun eftir frábæra viku á USA Cup í Minnesota í Bandaríkjunum. Ferðin var virkilega vel heppnuð í alla staði en 24 stelpur fóru á mótið með þjálfurum og fararstjórum. Stelpurnar kepptu á USA Cup en yfir 1.200 lið léku á mótinu frá ýmsum heimshornum. Stelpurnar úr Gróttu/KR voru til fyrirmyndar innan sem utan vallar og voru félögum sínum svo sannarlega til sóma. Báðum liðum gekk mjög vel á mótinu og stóðu stelpurnar sig gríðarlega vel. Lið 1 vann alla sína leiki og stóðu uppi sem sigurvegarar í U16 með markatöluna 28-3! Lið 2 tapaði einum leik á mótinu sem var á móti sterku liði Fylkis í 8-liða úrslitum og það í framlengingu og enduðu stelpurnar með markatöluna 15-3. Fararstjórarnir stóðu sig ekki síður vel og stóðu vaktina frá morgni til kvölds og héldu vel utan um hópinn. Stelpurnar sköpuðu svo sannarlega dýrmætar minningar í ferðinni sem munu fylgja þeim um ókomna tíð.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar stelpunum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur! 👏🏽 Geggjaðar 💙🖤

Paul og Gabríel skrifa undir

Þeir Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Paul Westren munu leiða starf yngri flokka knattspyrnudeildar Gróttu næstu tvö árin en þeir skrifuðu undir samninga þess efnis í dag. Þeir munu sinna yfirþjálfarastörfum í sameiningu og þjálfa í yngri flokkunum. Auk þess verða þeir svokallaðir „transition“ þjálfarar hjá félaginu, Paul hjá strákunum og Gabríel hjá stelpunum, og munu styðja við bakið á ungum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. 

Paul er Englendingur sem fæddur árið 1980 og kom til starfa hjá Gróttu sumarið 2021. Hann hefur komið víða við á sínum ferli og meðal annars þjálfað í Síerra Leóne, Kína og Lesótó. Paul tók við starfi yfirþjálfara síðasta haust og hefur stýrt deildinni síðustu mánuði á krefjandi tímum þar sem mikil hreyfing hefur verið á þjálfarahópnum. 

Gabríel er fæddur árið 1999 og skipti yfir í Gróttu úr KR árið 2018. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann talsverða reynslu af yngri flokka þjálfun og útskrifaðist á dögunum sem íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Gabríel er núverandi þjálfari 4. flokks karla, skólastjóri knattspyrnuskólans og leikmaður í meistaraflokki Gróttu. 

Hildur Ólafsdóttir hjá barna- og unglingaráði segir spennandi tíma framundan hjá knattspyrnudeildinni:  „Við erum gríðarlega ánægð með að hafa samið við bæði Gabríel og Paul til tveggja ára. Markmiðið er að bjóða öllum Gróttukrökkum upp á framúrskarandi gott starf og teljum að það muni klárlega takast með góðum hópi þjálfara og þá Gabríel og Paul við stjórnvöllin.“

Yfirþjálfararnir höfðu þetta að segja þegar skrifað var undir samningana í morgun: 

Paul: „Ég er mjög glaður að framlengja samninginn minn og halda áfram að vinna fyrir Gróttu. Eitt af einkennum félagsins er að halda vel utan um uppalda leikmenn og hjálpa þeim að taka skrefið upp í meistaraflokk og því viljum við halda áfram. Grótta er fjölskylduklúbbur og við viljum styðja við bakið á öllum sem taka þátt í starfinu og búa til jákvætt og hvetjandi umhverfi á Vivaldivellinum.“

Gabríel: „Ég er gríðarlega spenntur að halda áfram og efla það góða starf sem unnið hefur verið í Knattspyrnudeild Gróttu undanfarin ár. Ég trúi því innilega að í Gróttu sé unnið eitt besta yngri flokka starf á landinu – félagið hefur alið af sér leikmenn sem eiga möguleika á að ná í fremstu röð og samfélagslegi þátturinn hefur sömuleiðis verið sterkur þó að alltaf megi gera betur. Það er mikill heiður að fá tækifæri til að hafa áhrif og vera í forystuhlutverki.“

Rakel valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins

Gróttukonan Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins. Margrét Magnúsdóttir, landsliðsþjálfari U19 kvenna, hefur valið hóp sem æfir dagana 16.-18. janúar. Æfingarnar fara fram í Miðgarði í Garðabæ, en einnig leikur liðið æfingaleik við Stjörnuna á Samsungvellinum. Liðið undirbýr sig fyrir æfingamót sem það tekur þátt í á Algarve í Portúgal 14.-22. febrúar næstkomandi.
Til hamingju Rakel og gangi þér vel!

Jólablað knattspyrnudeildar Gróttu er komið út í tólfta sinn

Fyrir jólin árið 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2022 myndi tólfta blaðið koma út!

Jórunn María Þorsteinsdóttir Bachmann ritstýrði jólablaðinu í ár. Í blaðinu má finna skemmtileg viðtöl, ýmsar fréttir og fróðleik. Í blaðinu er m.a. að finna viðtöl við Jón Jónsson, Emelíu Óskarsdóttur, Kjartan Kára Halldórsson, Magnús Örn Helgason og Huldu Mýrdal. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið en Eyjólfur Garðarsson á heiðurinn af þeim. Elsa Nielsen sá um uppsetningu blaðsins sem er hið glæsilegasta.

Dreifing hefur gengið vel þökk sé sjálfboðaliðum og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í öll hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins má finna hér: https://issuu.com/nielsenslf/docs/grottublad-2022-web

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Gróttufólki gleðilegra jóla og þakkar kærlega fyrir stuðninginn á liðnu ári 💙

Arnfríður Auður valin í æfingahóp fyrir úrtaksæfingar U16 kvenna í október

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið æfingahóp til að taka þátt í úrtaksæfingum dagana 24. – 26. október. Æft verður í Miðgarði, Garðabæ. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, er í þessum hóp en Aufí er einungis 14 ára gömul. Til æfinga að þessu sinni eru valdir 32 leikmenn frá 16 félögum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykið af því að eiga fulltrúa í þessum hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum!

Sara Björk í Póllandi með U15

Gróttukonan Sara Björk Arnarsdóttir tók nýverið þátt í UEFA development mótinu í Póllandi með U15 ára landsliðinu. Liðið lék þrjá leiki og fór með sigur í tveimur þeirra. Fyrsti leikurinn var gegn Tyrkjum og var Sara Björk í byrjunarliði Íslands sem fór með 5-2 sigur. Næsti leikur var gegn Póllandi en liðið tapaði 3-6 og kom Sara inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Í þriðja leik Íslands var Sara aftur í byrjunarliði og vann Ísland góðan 2-0 sigur gegn Litháen. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af því að eiga fulltrúa í U15 ára landsliðinu og óskar Söru innilega til hamingju með árangurinn!