Orri Steinn til FCK

Orri Steinn Óskarsson og knattspyrnudeild Gróttu hafa gert samkomulag við danska stórliðið FC Kaupmannahöfn um að Orri Steinn gangi til liðs við U17 ára lið félagsins sumarið 2020.

Orri verður því fyrsti leikmaður Gróttu sem erlent atvinnumannalið fær til sín frá félaginu. Þetta er mikill áfangi fyrir þennan efnilega leikmann og ekki síður tímamót fyrir knattspyrnudeild Gróttu.

Orri Steinn er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi og byrjaði að æfa fótbolta hjá Gróttu 6 ára gamall. Hann hefur verið undir handleiðslu margra þjálfara hjá Gróttu en helst ber þó að nefna Óskar Hrafn Þorvaldsson, föður Orra, sem hóf störf hjá Gróttu haustið 2015. Óskar þjálfaði Orra Stein í 4. og 3. flokki, og síðar í meistaraflokki, en í fyrra stýrði Óskar 3. flokki Gróttu í undanúrslit Íslandsmótsins þar sem Orri var lykilmaður.

Í fyrra varð Orri yngsti leikmaðurinn til að spila með meistaraflokki Gróttu þegar hann kom inn á í 2. deildinni á móti Hetti og gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk. Orri var þá 13 ára og 354 daga gamall en metið átti Daði Már Jóhannsson sem var 14 ára og 330 daga gamall þegar hann lék með meistaraflokki.

Frá leiknum eftirminnilega við Hött hefur Orri spilað 17 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim fjögur mörk. Hann skoraði einmitt fyrsta mark Gróttu í 4-0 sigrinum á Haukum í lokaleik sumarsins 2019 þegar Grótta tryggði sér sigur í Inkasso-deildinni. Orri tók þátt í meira en helmingi leikjanna í Inkasso-ævintýrinu í sumar en Óskar Hrafn þjálfaði liðið ásamt Halldóri Árnasyni.

Orri Steinn hefur látið að sér kveða í yngri landsliðum Íslands síðustu tvö ár og hefur nú leikið 13 landsleiki og skorað í þeim 16 mörk! Orri er nýkominn heim úr ferð með U17 ára landsliðinu en viðtal við hann og Grím Inga Jakobsson má lesa hér: https://www.grottasport.is/2019/10/31/grimur-og-orri-vid-erum-allir-i-thessu-saman/

Grótta óskar Orra Steini, fjölskyldu hans og samferðafólki innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans á komandi misserum.

Ágúst Þór Gylfason nýr þjálfari meistaraflokks karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa í dag gengið frá samningi við nýtt þjálfarateymi fyrir meistaraflokk karla. Ágúst Þór Gylfason verður aðalþjálfari með Guðmund Steinarsson sér við hlið sem aðstoðarþjálfara. Báðir semja þeir til næstu 3ja ára.

Ágúst Þór Gylfason hefur sannað sig sem þjálfari í hæsta gæðaflokki og hefur verið afar farsæll á sínum þjálfaraferli. Ágúst tók var aðstoðarþjálfari Fjölnis 2010-2012 áður en hann tók við liðinu sem aðalþjálfari árin 2013-2017. Undanfarin 2 ár stýrði Ágúst liði Breiðabliks sem endaði bæði árin í öðru sæti í Pepsi Max deildinni auk þess sem Breiðablik lék til úrslita í Mjólkurbikarnum í fyrra. Ágúst spilaði 195 leiki í efstu deild með Val, KR, Fram og Fjölni ásamt því að spila sem atvinnumaður hjá Brann í Noregi og svissneska liðinu Solothurn. Ágúst lék 6 A-landsleiki og 13 U-21 landsleiki.

Guðmundur Steinarsson hefur verið aðstoðarþjálfari Ágústar hjá Breiðablik undanfarin 2 ár en hann þjálfaði lið Njarðvíkur árin 2014-2016. Guðmundur spilaði 255 leiki í efstu deild með Keflavík og Fram auk þess að spila sem atvinnumaður hjá Brönshöj í Danmörku og Vaduz frá Liechtenstein í efstu deild í Sviss. Guðmundur er bæði leikja- og markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild með 244 leiki og 81 mark. Guðmundur lék 3 A-landsleiki og 13 leiki með yngri landsliðum Íslands.Dagurinn markar nýtt upphaf í starfi meistaraflokks karla. Framundan er spennandi ævintýri fyrir alla sem koma að starfi félagsins og stórt tækifæri til að efla leikmenn meistaraflokks karla, styrkja innviði deildarinnar og lyfta félaginu í heild sinni.

Viðtal við meistaraflokks þjálfara knattspyrnudeildarinnar

Það er mikið líf á Vivaldivellinum þegar blaðamann Nesfrétta ber að garði á fallegu síðdegi í maí. Örugglega um 60 börn og unglingar að æfa á iðagrænu gervigrasinu. Við höfum mælt okkur mót við þjálfara meistaraflokka Gróttu í knattspyrnu, þá Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason sem þjálfa karlaliðið og Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson sem þjálfa kvennaliðið.

Halda áfram að lesa