Nanna Guðmundsdóttir íþróttakona Gróttu 2021

Nanna Guðmundsdóttir er íþróttakona Gróttu árið 2021. 
Úr umsögn Fimleikadeildar um Nönnu. Nanna Guðmundsdóttir er í hópi fremstu áhaldafimleikakvenna landsins og hefur lagt mikið á sig til komast á þann stað sem hún er á í dag.  Nanna varð Íslandsmeistari í fjölþraut á Íslandsmótinu sem var haldið í mars. Þetta var hennar fyrsti Íslandsmeistaratitilll í fjölþraut í kvennaflokki. Nanna var valin í úrvalshóp kvenna hjá FSÍ árið 2021. Nanna var í landsliði Íslands á Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem var haldið í Sviss dagana 21. – 25. apríl. Nanna var með besta árangur Íslenskra landsliðsins í fjölþraut og hæstu stig sem íslensk fimleikakona fékk á árinu. Hún fékk samtals 47,032 stig sem að eru hæstu stig sem hún hefur fengið í fjölþraut. Hennar besti árangur var á gólfi þar sem hún varð í 40. sæti af 91 keppanda.

Hún var í landsliði Íslands á Heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum sem var haldið í Japan dagana 18. – 24. október. Hún var efst íslenskra kvenna á einstökum áhöldum, en hún skoraði 12.000 stig á gólfi og fékk hrós frá yfirdómara á gólfi fyrir „perfect artistry“. Hún varð í 39. sæti af alls 82 keppendum. 


Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar. 

Fyrsti A-landsleikur Hákons

Hákon Rafn Valdimarsson lék sinn fyrsta A-landsleik í gær þegar hann kom inn á í hálfleik í vináttulandsleik gegn Úganda. Staðan var 1-1 þegar Hákoni var skipt inn á og urðu það lokatölur leiksins.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með þetta skref á ferlinum en hann er fyrsti Gróttumaðurinn til að spila A-landsleik 💙👏🏼

Kjartan Kári framlengir hjá Gróttu

Hinn 18 ára gamli Kjartan Kári Halldórsson framlengdi nú á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Hinn ungi og efnilegi Kjartan Kári á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.
Samningurinn við Kjartan Kára er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn þess og hlökkum við til að fylgjast með Kjartani á komandi tímabili.

Smitgát og sóttkví í íþróttum

Af gefnu tilefni vil Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands minna á leiðbeiningar um smitrakningu í íþróttum sem má nálgast hér. Einnig er hægt að skoða viðmið smitrakningateymis hér á covid.is.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að smittölur í samfélaginu eru ansi háar þessa dagana og því hefur verið mikið að gera hjá smitrakningarteyminu. Ekki er alltaf hægt að ná í smitrakningarteymið til að fá svör og þegar upp kemur smit á æfingu eða í íþróttakeppni er gott ef þjálfarar og aðrir sem koma að skipulaginu séu meðvitaðir um ofangreindar leiðbeiningar og geti brugðist við á viðeigandi hátt.

Í leiðbeiningunum er hægt að sjá þau viðmið sem smitrakningarteymið notast við en auðvitað eru aðstæður mismunandi og geta verið flóknar í íþróttahreyfingunni. Ef upp kemur smit í ykkar röðum skulu þið endilega styðjast við leiðbeiningarnar og sinna þessu eftir bestu getu miðað við þær upplýsingar sem þið hafið hverju sinni.

Hér er hægt að lesa allt um smitgát og hér um sóttkví en að lokum er vert að benda á breyttar reglur um sóttkví fyrir einstaklinga sem hafa verið þríbólusettir eða fengið tvær bólusetningar og fengið COVID-19. Allt um nýja reglugerð í tengslum við sóttkví má lesa hér á vef Heilbrigðisráðuneytisins.

Lilja Lív og Lilja Scheving á úrtaksæfingum U17 ára landsliðsins

 Gróttukonurnar Lilja Lív Margrétardóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving eru í hóp U17 ára landsliðsins sem æfir saman dagana 10.-12. janúar. Knattspyrnudeild Gróttu er stolt af því að eiga glæsilega fulltrúa félagsins í þessum hóp. 
Næsta verkefni U17 kvenna eru milliriðlar undankeppni EM 2022. Ísland er þar í riðli með Írlandi, Finnlandi og Slóvakíu og verður leikið á Írlandi 23.-29. mars. 

Skráning í 9.flokk

Æfingarnar í 9.flokki hafa slegið í gegn frá því að þær hófust í haust. Skráning er enn í gangi fyrir vorönnina og fer hún fram í gegnum Sportabler. Vorönnin kostar 24.900 kr. Fyrsti dagur eftir áramót er laugardagurinn 9.janúar og sá síðasti laugardaginn 30.apríl. Æfingarnar er kl. 09:40-10:30 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu.

Í 9.flokki er áhersla lögð á grunnatriði handknattleiksdeild með skemmtilegum leikjum í bland við fjölbreytta hreyfingu með bolta.

Þjálfarar eru Arndís María Erlingsdóttir og Hulda Björk Halldórsdóttir.

Beinn hlekkur á skráninguna er https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Fimm leikmenn skrifa undir

Það er mikið gleðiefni að segja frá því að þær Signý Ylfa Sigurðardóttir, Edda Björg Eiríksdóttir, Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lovísa Davíðsdóttir Scheving og Lilja Lív Margrétardóttir hafa endurnýjuað samninga sína við Gróttu.
Samningarnir við stúlkurnar eru mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn Gróttu, enda er um að ræða efnilegar og öflugar knattspyrnukonur sem verða Gróttuliðinu mikilvægar á komandi tímabili.

Pétur Rögnvaldsson, þjálfari Gróttu, fagnar tíðindunum og segir þau gott veganesti inn í nýtt ár:
„Það býr mikið í öllum þessum stelpum. Allar áttu þær góða spretti síðasta sumar en komandi tímabil getur verið tækifæri fyrir þær til að springa út og verða lykilleikmenn í Gróttuliðinu. Það eru eflaust mörg lið sem stefna á toppbaráttu næsta sumar, en það er frábært fyrir Gróttu að hafa á síðustu þremur mánuðum endursamið við svona stóran hluta liðsins síðustu tvö ár. Það gefur okkur bjartsýni og orku inn í nýtt ár.“

Ný lög um frádráttarbæra styrki til íþróttafélaga

Með nýjum lögum sem samþykkt voru 1. nóvember síðastliðinn geta einstaklingar nú styrkt Gróttu um allt að 350.000 krónur en að lágmarki 10.000 krónur á ári sem er frádráttarbært frá skattskyldum tekjum.

Fyrirtækjum er heimilt að draga frá skattstofni allt að 1,5% af rekstrartekjum.

Svona er ferlið:
Þú millifærir upphæð að eigin vali að lágmarki kr. 10.000 inn á reikning Gróttu:
0512-14-405405, kt. 700371-0779

Sendir tölvupóst með eftirfarandi upplýsingum á grotta@grotta.is

  • Nafn greiðanda
  • Kennitala greiðanda
  • Fjárhæð framlags
  • Greiðsludagur

Einnig þarf að tilgreina hvaða deild viðkomandi vill styrkja óski greiðandi eftir því, annars fara öll framlög í sérstakan sjóð sem aðalstjórn síðan úthlutar til allra deilda.

Grótta gefur út kvittun til greiðanda þar sem kemur fram nafn og kennitala greiðanda og fjárhæð framlags.

Til að geta nýtt sér heimildina fyrir 2021 þarf greiðsla að hafa borist fyrir 30. desember nk.

Íþróttafélagið Grótta þakkar kærlega fyrir allan ómetanlegan stuðning í gegnum tíðina.

8 leikmenn valdir í unglingalandslið HSÍ

8 leikmenn frá okkur voru valin í unglingalandslið HSÍ núna fyrir helgi. Strákarnir Alex Kári Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano og Hannes Pétur Hauksson voru valdir í U16 ára landsliðið. Stelpurnar Arndís Áslaug Grímsdóttir, Dóra Elísabet Gylfadóttir, Elísabet Ása Einarsdóttir, Helga Sif Bragadóttir og Margrét Lára Jónsdóttir voru valdar í U15 ára landsliðið.

Við óskum þessum iðkendum okkar hjartanlega til hamingju með valið. Landsliðin æfa á höfuðborgarsvæðinu í byrjun janúar auk þess sem haldið verður áfram með fyrirlestraröðina Afreksmaður framtíðarinnar. Þar fá yngri landsliðið fræðslu sem nýtist þeim jafnt innan vallar sem utan.

Mynd að ofan: Margrét Lára Jónsdóttir

Dóra Elísabet Gylfadóttir

Helga Sif Bragadóttir

Arndís Áslaug Grímsdóttir

Elísabet Ása Einarsdóttir

Antoine Óskar Pantano

Alex Kári Þórhallsson

Hannes Pétur Hauksson

Jólakort Gróttu 2021

Jólakortsamkeppni Gróttu var haldin í þriðja skipti nú fyrir jólin. 
Eins og fyrri árin efndum við til teiknisamkeppni í 4. bekk Mýrarhúsaskóla um að velja teikningu sem myndi príða jólakortið í ár.
Guðmunda Margrét Jónsdóttir átti teikninguna sem varð hlutskörpust og hún prýðir jólakort félagsins árið 2021.   Auk þess voru veitt verðlaun fyrir 3 aðrar teikningar en þær teiknuðu Elmar Darri Magnússon, Sólveig Kristjana Hafstein og Sylvía Guðrún Sölvadóttir. Við viljum þakka skólastjórnendum í Mýrarhúsaskóla fyrir samstarfið í ár og er þessi viðburður orðinn hefð hjá félaginu.

Guðmunda Margrét Jónsdóttir
Guðmunda Margrét Jónsdóttir teiknaði Jólakort Gróttu 2021.