7. flokkur á Norðurálsmótið

7. flokkur karla tók þátt á hinu margfræga Skagamóti um liðna helgi. Þar voru mættir til leiks rúmlega 1.500 strákar frá öllum landshornum til að spila fótbolta og skemmta sér með liðsfélögum og fjölskyldu. Eins og sjá má á þessum myndum var stemningin hjá Gróttuhópnum góð og spilamennskan ekki síðri, sérstaklega þegar leið á mótið og Gróttustrákarnir voru farnir að venjast grasinu og 7-manna boltanum en yfirleitt er leikinn 5-manna bolti í allra yngstu flokkunum. Þetta eru framtíðarleikmenn Gróttu og geta þjálfararnir Bjarki Már og Bjössi verið ánægðir með starf sitt með drengjunum.

Framtíðarliðið

Í síðustu viku varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fara með 2. flokki karla hjá Gróttu í æfingaferð til London. Í flokknum æfa nú 28 strákar fæddir 1998-1996 en einnig eru nokkrir yngri viðloðandi hópinn. Ferðin var einstaklega skemmtileg og árangursrík. Einbeitingin í hópnum var til fyrirmyndar og utan æfinga gengu allir í takt um stræti stórborgarinnar.

Strákarnir í 2. flokki hafa æft fótbolta frá 5-6 ára aldri. Saman hafa þeir tekið þátt í óteljandi fótboltamótum, keppt hundruðir leikja og sofið í ótal nætur í táfýlunni hver af öðrum. Ekki er hægt að segja að hér sé um svokallaðar „barnastjörnur“ að ræða. Einn leikmaður hefur spilað unglingalandsleik og nokkrir minni titlar hafa unnist. Stærsta skrefið var eflaust stigið í fyrra þegar 2. flokkur Gróttu tryggði sér sæti í B-deild eftir margra ára eyðimerkurgöngu í C-deildinni. Þar voru þessir drengir í aðalhlutverki ásamt nokkrum leikmönnum sem nú eru gengnir upp í meistaraflokk.

Nei, það eru ekki titlar og landsliðsferðir sem einkenna leikmenn 2. flokks Gróttu heldur ótrúleg liðsheild, vinátta og samstaða innan vallar sem utan. Auðvitað hefur gengið á ýmsu í gegnum tíðina en óhætt er að segja að menn hafi þroskast í rétta átt og séu að blómstra nú þegar árin í yngri flokkunum eru senn á enda. Ég tel að öflugur foreldrahópur sem stendur á bak við strákana hafi gert gæfumuninn ásamt góðum og metnaðarfullum þjálfurum. Nægir þar að nefna Júlíus Júlíusson, Ásmund Haraldsson, Guðjón Kristinsson, Úlf Blandon og Jens Elvar Sævarsson sem er nú á sínu öðru ári með 2. flokk.

Síðasta sumar stigu nokkrir leikmenn úr hópnum sín fyrstu skref í meistaraflokki Gróttu og í vetur hafa enn fleiri fengið sínar fyrstu meistaraflokksmínútur. Frábærar fréttir en hér má ekki láta staðar numið. Lykillinn að því að byggja upp öflugt meistaraflokkslið er að hafa þéttan kjarna heimamanna í hópnum. Leiknir í Breiðholti er gott dæmi en síðasta sumar tryggði liðið sér sæti í úrvalsdeild í fyrsta sinn en þar var stærstur hluti hópsins, leikmenn og þjálfarar, glerharðir Breiðhyltingar. Nú er Grótta í dauðafæri til að horfa fram á veginn og byggja upp lið þar sem uppistaðan er heimamenn.

Ég er ekki að tala niður til þeirra fjölmörgu „utanbæjarleikmanna“ sem hafa leikið með Gróttu síðustu árin. Raunar hafa margir þeirra skilað frábæru verki og teljast góðir og gildir Gróttumenn í dag. Hver man ekki eftir leikgleði og snilli Sigurvins Ólafssonar á miðjunni, núverandi fyrirliði Gróttu er uppalinn Selfyssingur og sjúkraþjálfarinn, sem byrjaði sem leikmaður, er að austan.

Er ég að setja pressu á strákana með þessum pistli? Vafalaust en það er bara af því ég hef trú á þeim. Við þá sem stjórna og þjálfa meistaraflokk Gróttu segi ég: Takið þessa stráka og hendið þeim inn á stóra sviðið, gefið þeim tíma og fyrr en varir munu þeir skína skært.

Magnús Örn Helgason
yfirþjálfari yngri flokka knattspyrnudeildar Gróttu

Gróttuvöllur verður Vivaldivöllurinn

Fyrr í dag skrifaði knattspyrnudeild Gróttu undir þriggja ára samstarfssamning við hugbúnaðarfyrirtækið Vivaldi technologies í vallarhúsinu við Gróttuvöll. Með samningnum er Vivaldi orðinn einn af aðalstyrktaraðilum knattspyrnudeildar og mun Gróttuvöllur framvegis heita Vivaldi-völlurinn. Það er Seltirningurinn og frumkvöðullin Jón von Tetzchner sem er eigandi Vivaldi og var hann mættur í dag til að skrifa undir samninginn. Þetta er ekki fyrsta verkefni Jóns hér á Nesinu en árið 2013 opnaði hann frumkvöðlasetrið Innovation House á Eiðistorgi þar sem 18 sprotafyrirtæki er nú með starfsemi.

Hilmar Sigurðsson formaður knattspyrnudeildar var að vonum ánægður með nýjan samning: „Þetta er einn stærsti samningur sem knattspyrnudeild Gróttu hefur gert og mun hann koma að afar góðum notum við að efla starfið. Það sem gerir samninginn sérstakan er þessi sterka tenging Jóns við Nesið en hann er uppalinn Seltirningur og Gróttumaður. Eins og allir vita hefur Jón náð miklum árangri í frumkvöðlastarfi sínu og við erum gríðarlega þakklát fyrir að hann vilji styðja við íþrótta- og forvarnarstarf á sínum heimaslóðum. Gróttumenn- og konur geta nú látið sig hlakka til að mæta á Vivaldi-völlinn til að styðja sitt fólk í sumar“ sagði Hilmar í samtali við fréttastofu Gróttusport nú seinni partinn.

Gróttasport náði einnig í Jón sjálfan sem segist vera mjög ánægður með að geta stutt við sitt gamla félag: „Ég er alinn upp á Seltjarnarnesi og spilaði með Gróttu upp yngri flokkana, þó ég hafi nú aldrei verið nein stjarna. Ég hef búið erlendis í langan tíma en reynt að fylgjast Gróttu á sama tíma. Ég hef mjög gaman af því að fá nú tækifæri til að styðja við gamla liðið mitt núna með því að setja nafnið á völlinn“ sagði Jón þegar hann var spurður hvernig þetta samstarf hans og Gróttu hefði komið . Jón er áhugamaður um fótbolta og segir að hann muni nú fylgjast vel með gangi mála hjá Gróttuliðinu sem leikur í 1. deild í sumar: „Ég mun fylgjast vel með og strákarnir hjá Vivaldi eru mjög spenntir fyrir því að við séum farnir að styrkja fótboltalið á Íslandi.“  En hvað er Vivaldi? „Vivaldi er hugbúnaðarfyrirtæki. Fólk mun heyra meira um það strax á næstu vikum“ sagði Jón sposkur

Fréttastofa Gróttusport fagnar þessum nýja samningni og það er ljóst að Seltirningar geta mætt stoltir á Vivaldi-völlinn í sumar. Jón von Tetzchner er sannarlega að gefa til baka í sitt gamla bæjarfélag en hann gekk í Mýró, Való og MR áður en hann flutti utan. Frægasta fyrirtæki Jons er tölvufyrirtækið Opera en hann byggði það upp á 10. áratugnum og gerði að stórfyrirtæki. Jón seldi Opera árið 2011 og hefur síðan þá unnið við ýmis verkefni og verið duglegir að hjálpa nýsköpunarfyrirtækjum að komast af stað.