Kjartan Kári á úrtaksæfingum U19 ára landsliðsins

Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er einn af þeim sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U19 karla, hefur valið til að taka þátt í úrtaksæfingum 21.-23. febrúar 🙌🏼💙

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði. Liðið undirbýr sig fyrir milliriðla í undankeppni EM 2022, en þar er Ísland í riðli með Rúmeníu, Georgíu og Króatíu og fer riðillinn fram dagana 23.-29. mars.

Viltu gerast sjálfboðaliði hjá Gróttu

Félag eins og Grótta er rekin meira og minna af sjálfboðaliðum og verja sjálfboðaliðar drjúgum hluta af tíma sínum til að láta gott af sér leiða í þágu félagsins síns. Fyrir það erum við gríðarlega þakklát án ykkar væri Grótta ekki til. Tilfinningin að láta gott af sér leiða er góð og það er gefandi að vera hluti af því að halda starfsemi félagsins gangandi.

Margar hendur vinna létt verk heyrist oft. Við erum því alltaf að leita að fleiri einstaklingum til að koma að sjálfboðaliðastörfum hjá Gróttu. Það er undir hverjum og einum komið hversu stórt hlutverk menn velja sér. 

Á meðfylgjandi google forms skjali má finna eyðublað með frekari upplýsingum um hvaða sjálfboðaliðastörf eru í boði. Allt frá stjórnarstörfum til prófarkalesturs og allt þar á milli. Athugið að listinn er langt frá því að vera tæmandi.
Hefur þú áhuga á að bætast í hópinn? 

https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLScW78iDKlvoEL8WuH4K_M65af1wQAWtijKq3FWJrSGk9SFzxQ/viewform?usp=sf_link

Aufí, Rebekka og Sara í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttustelpurnar Sara Björk Arnarsdóttir, Rebekka Sif Brynjarsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir hafa verið valdar til að taka þátt í Hæfileikamótun KSÍ. Við óskum stelpunum til hamingju með valið og góðs gengis!
Grótta er hreykið af því að eiga svona flotta fulltrúa í þessum hóp 👏🏼💙

Leikir framundan

HANDKNATTLEIKUR 

Meistaraflokkur karla stóð í ströngu síðasta þriðjudag þegar liðið tapaði gegn Fram. Liðið situr í 10. sæti í Olís deildinni og næsti leikur átti að vera gegn Aftureldingu næsta laugardag en honum hefur verið frestað vegna covid.  Coca Cola bikarinn er á dagskrá í næstu viku en miðvikudaginn 16. febrúar fáum við Hauka í heimsókn og hefst leikurinn kl. 20:00, leikurinn verður í beinni á RÚV 2. 

Meistaraflokkur kvenna vann frábæran sigur á ÍR síðstliðið föstudagskvöld. Liðið situr í 4. sæti í Grill 66 deildarinnar en næsti leikur er gegn Fjölni/Fylki á sunnudaginn kl. 16:30 í Dalhúsum í Grafarvogi.   Coca Cola bikarinn er einnig á dagskrá í næstu viku hjá stelpunum en þær mæta ÍR í Austurbergi fimmtudaginn 17. febrúar kl. 19:30e. 

U lið Gróttu tekur þátt í 2. deildinni og trónir á toppnum í deildinni. Liðið er byggt upp á leikmönnum sem fá minna að spila með meistaraflokknum og yngri leikmönnum félagsins. Liðið sækir U-lið ÍBV heim á sunnudaginn og hefst leikurinn kl. 16:00 og á föstudaginn 18. febrúar fer liðið á Selfoss og spilar við heimamenn. 

FIMLEIKAR

Það styttist í stærsta mót fimleikdadeildar en hið árlega MINISO Ofurhetjumót Gróttu er helgina 4-6 mars. 

KNATTSPYRNA

Lengjubikar karla í knattspyrnu hefst á sunnudaginn 12. febrúar  þegar liðið mætir Val á Origovellinum kl. 12:00 og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Fyrsti heimaleikur liðsins fer fram laugardaginn 19. Febrúar þegar Þróttur Vogum kemur í heimsókn kl. 14:00. 

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hefur leik 6. mars í Lengjubikarnum þegar þær mæta Sindra á Vivaldi vellinum kl. 13:00.

Kristófer Melsted framlengir

Kristófer Melsted hefur framlegt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Kristófer er uppalinn Gróttumaður en hann á að baki 95 leiki fyrir Gróttu. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Gróttu árið 2016 og hefur síðustu ár verið einn lykilmanna liðsins en hann lék 20 leiki á síðasta tímabili í Lengjudeildinni og skoraði í þeim tvö mörk. Samningurinn er Gróttu sérstakt fagnaðarefni þar sem Kristófer er mikil fyrirmynd ungra íþróttamanna hjá félaginu, innan sem utan vallar.

Emelía til Kristianstad

Í síðasta mánuði var tilkynnt að hin 15 ára gamla Emelía Óskarsdóttir hefði gert 3 ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstads DFF, sem tekur gildi í mars næstkomandi á 16 ára afmæli Emelíu. Þetta eru frábær tíðindi og mikil viðurkenning fyrir Emelíu en Kristianstad hefur á síðustu árum verið eitt allra best lið Svíþjóðar. Síðustu tvær leiktíðir hefur Kristianstads endað í 3. sæti sænsku deildarinnar og mun því í annað sinn leika í Meistaradeild Evrópu á komandi keppnistímabili. 

Emelía hóf knattspyrnuferil sinn í 8. flokki Gróttu og lék upp yngri flokkana með Gróttu og Gróttu/KR. Hún kom inn í meistaraflokkslið Gróttu í Lengjudeildinni sumarið 2020, þá aðeins 14 ára gömul, og skoraði 1 mark í 13 leikjum. Síðasta sumar fluttist hún til Danmerkur og spilaði með unglingaliðum BSF þar sem frammistaða hennar vakti athygli Kristianstad og fleiri stórliða. Emelía hefur leikið 5 leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað eitt mark. 

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad en hún sagði í viðtali í sænskum fjölmiðlum að Emelía væri mjög spennandi framherji og hún fagnaði því að hafa fengið hana til liðs við félagið. Amanda Andradóttir gekk nýverið til liðs við Kristianstad en á síðustu leiktíð léku Sveindís Jane Jónsdóttir og Sif Atladóttir með liðinu. 

Emelía kvaðst vera spennt fyrir komandi tímum: „Þetta er rosalega spennandi tækifæri og ég er mjög spennt að takast á við þetta verkefni í Svíþjóð.“

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Emelíu og fjölskyldu hennar til hamingju með þennan áfanga og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hennar í Svíþjóð.

Hallgerður til Gróttu og Elín Helga framlengir

Hallgerður Kristjánsdóttir skrifaði undir samning við knattspyrnudeild Gróttu nú á dögunum. Hallgerður, sem er tvítug, leikur sem varnarmaður og er uppalin hjá Val. Síðustu tvö ár hefur Hallgerður spilað með Tindastól; í Lengjudeildinni árið 2020 og svo í Pepsi Max deildinni síðasta sumar. Hallgerður á einnig að baki tvo leiki með U16 ára landsliði Íslands. Hallgerður er mikill liðsstyrkur fyrir Gróttuliðið sem undirbýr sig nú af krafti fyrir baráttuna í 2. deild kvenna í sumar. Knattspyrnudeild Gróttu fagnar komu Hallgerðar og býður hana velkomna í félagið!

Elín Helga Guðmundsdóttir framlengdi einnig samning sinn við Gróttu nú á dögunum en hún er uppalin í Gróttu. Elín Helga er 16 ára varnarmaður sem lék tvo leiki með Gróttu í Lengjudeildinni síðasta sumar og einn í Mjólkurbikarnum, ásamt því að spila bæði með 2. og 3. flokki kvenna þar sem hún var lykilleikmaður. Knattspyrnudeild fagnar því að Elín Helga hafi framlengt samning sinn við félagið, enda efnilegur leikmaður þar á ferð sem verður spennandi að fylgjast með á komandi tímabili.

Níu aðilar fengu heiðursmerki Gróttu

Íþróttafélagið Grótta veitti í byrjun ársins 9 aðilum heiðursmerki sem hafa unnið gott starf fyrir félagið. 
Þau eru: Eyjólfur Garðarsson knattspyrnu og handknattleiksdeild sem fékk gullmerki Gróttu.  Ásdís Björk Pétursdóttir fimleikdeild fékk silfurmerki Gróttu. 
Bronsmerki hlutu Guðjón Rúnarsson og Axel Bragason fimleikadeild. Ásmundur Einarsson handknattleiksdeild og frá knattspyrnudeild Sigurvin Reynisson, Halldór Kristján Baldursson, Eydís Lilja Eysteinsdóttir  og Alexander Jensen Hjálmarsson.
Til hamingju öll sömul og takk fyrir ómetanlegt starf fyrir Gróttu 🙏

Kjartan Kári er íþróttamaður æskunnar 2021

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er íþróttamaður æskunnar árið 2021.
Hinn 18 ára Kjartan Kári er Gróttumaður í húð og hár sem átti frábært tímabil með Gróttu síðastliðið sumar. Hinn ungi og efnilegi Kjartan á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan var valinn efnilegasti leikmaður Gróttu á lokahófi meistaraflokkanna í haust. 

Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Kjartan spilaði fyrir íslenska U-19 ára landsliðið þegar liðið keppti í undankeppni EM, þar kom hann við sögu í öllum þremur leikjum liðsins. Kjartan spilaði einnig í þremur vináttulandsleikjum fyrir U-19 ára landsliðið á árinu. 

Nú á dögunum framlengdi Kjartan samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.

—-
Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.

Pétur Theodór er íþróttamaður Gróttu 2021

Pétur Theodór Árnason  er íþróttamaður Gróttu árið 2021. 

Úr umsögn Knattspyrnudeildar um Pétur.
Pétur er 26 ára gamall og er fæddur og uppalinn Gróttumaður. Hann lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki aðeins 16 ára gamall en þá lék liðið 1. deild. Eftir að hafa orðið fyrir og loks sigrast á afar erfiðum meiðslum blés Pétur nýju lífi í ferilinn og gekk til liðs við Gróttu um mitt sumar 2018. Var Pétur mikilvægur hlekkur í að tryggja liðinu sæti í efstu deild, í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Eftir erfitt ár í efstu deild kom Pétur tvíefldur til baka sl. sumar og þegar yfir lauk hafði hann skorað 26 mörk í 23 leikjum í deild og bikar. Pétur var vafalaust einn af bestu mönnum liðsins og deildarinnar í sumar og hjó nærri um hálfrar aldar gömlu markameti í næst efstu deild. Frammistaða hans vakti athygli liða í efstu deild og eftir lok tímabils gekk hann í raðir Breiðabliks. 

Við fórum þá leið í ár að framleiða myndbönd um verðlaunahafa í stað þess að hafa athöfn. 

Sérstakar þakkir fá Fjalar Sigurðarson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Jói B (Audioland.is) fyrir óeigingjarnt framlag til myndbandagerðarinnar.