Gróttublaðið komið út í tíunda sinn!

Gróttublaðið er komið út í tíunda sinn 👏

Fyrir jólin 2011 ákvað knattspyrnudeild Gróttu að gefa út blað þar sem farið var yfir árið hjá deildinni í máli og myndum. Á þeim tímapunkti óraði líklega engan fyrir því að árið 2020 myndi 10. blaðið koma út! Blaðið var 28 blaðsíður árið 2011 en er nú 52. 

Í blaði ársins má m.a. finna viðtal við landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur og önnur viðtöl við Gróttumenn- og konur sem eru að gera það gott. Þá eru yngri iðkendur einnig teknir tali og loks má ekki gleyma þeim fjölmörgu myndum sem prýða blaðið. 

Dreifing hefur gengið vel og ætti Gróttublaðið nú að vera komið í flest hús á Seltjarnarnesi.

Vefútgáfu blaðsins er að finna hér

Hákon á reynslu hjá Norrköping

Hákon Rafn Valdimarsson, markmaður Gróttu, er á leið til reynslu hjá sænska úrvaldsdeildarfélaginu Norrköping. Hákon, sem er 19 ára gamall, heldur til Svíþjóðar á fimmtudaginn og verður í eina viku. Knattspyrnudeild Gróttu heyrði hljóðið í Hákoni sem sagðist vera mjög spenntur fyrir þessu tækifæri. Grótta óskar Hákoni góðs gengis meðan á dvölinni stendur 🇸🇪⚽️

Signý til Gróttu – Margrét Rán skrifar undir

Signý Ylfa Sigurðardóttir er gengin til liðs við Gróttu frá Val og hefur skrifað undir tveggja ára samning. Signý var á láni í sumar og skoraði 3 mörk í 13 leikjum en lenti einnig í meiðslum sem héldu henni frá keppni í 6 vikur. Signý er 19 ára gömul og á að baki þrjá leiki fyrir U16 ára landslið Íslands. Við sama tækifæri skrifaði hin 17 ára Margrét Rán Rúnarsdóttir undir tveggja ára samning við Gróttu. Margrét kom sterk til baka í sumar eftir að hafa verið frá í heilt ár vegna höfuðmeiðsla. Hún kom við sögu í 12 leikjum með meistaraflokki og var lykilmanneskja í 2. flokki Gróttu/KR sem sigraði B-deild Íslandsmótsins. Magnús Örn, annar þjálfara Gróttuliðsins, fagnar því að stelpurnar hafi skrifað undir: „Það var frábært að sjá Margréti snúa aftur á völlinn í sumar eftir langa fjarveru. Það er hægara sagt en gert að vera svona lengi frá en margir hefðu hreinlega gefist upp. Það verður gaman fyrir okkur þjálfarana að geta unnið með Margréti allt tímabilið og sömuleiðis Signýju sem kom til okkar rétt fyrir Covid pásuna í mars. Nú er hún orðin innvígð Gróttukona sem eru gleðifréttir fyrir félagið.“

Maggi og Pétur áfram með meistaraflokk kvenna

Í gærkvöldi skrifuðu þeir Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson undir samning sem þjálfarar meistaraflokks kvenna út næsta ár. Eins og kunnugt er tók Magnús við liðinu haustið 2018 og Pétur tók til starfa sem aðstoðarþjálfari í ársbyrjun 2019. Þeir munu á komandi tímabili stýra liðinu í sameiningu en Grótta er á leið í sitt annað tímabil í Lengjudeildinni eftir að hafa endað í 6. sæti í sumar.

„Ég er hrikalega spenntur að halda áfram að vinna með þessum efnilega hópi. Maður er sjálfur í yngri kantinum og því frábært að fá tækifæri til að vera aðalþjálfari í meistaraflokki á þessum tímapunkti. Við Maggi höfum unnið vel saman og munum gera það áfram“ segir Pétur sem varð 27 ára nú í haust.

Magnús tók í sama streng:„Það er stór áskorun fyrir okkur að vinna vel úr reynslunni sem við fengum síðasta sumar. Tækifærin sem Gróttuliðið hefur eru mikil og ég hlakka mikið til að byrja æfingar á ný. Pétur hefur sýnt síðustu ár hve öflugur þjálfari hann er og ég trúi því að hann muni eflast enn frekar með stærra hlutverki.“

Birgir Tjörvi Pétursson formaður knattspyrnudeildar skrifaði undir með strákunum í gær. Hann segir að markmið síðustu tveggja ára hafi náðst í sumar og nú sé horft fram á nýja og spennandi tíma. „Við erum á áætlun. Stelpurnar sýndu það í sumar að þær eiga fullt erindi í 1. deild og nú tekur við áskorun um að festa sig enn frekar í sessi sem alvöru lið í deildinni. Við í stjórninni erum spennt fyrir því að halda áfram þróun þessa flotta liðs með þá Magga og Pétur við stjórnvöllinn.“

Tímabilið blásið af

Þá er orðið ljóst að tímabilinu er formlega lokið. Sumarið 2020 mun seint gleymast – karlaliðið í fyrsta sinn í Pepsi Max og kvennaliðið í fyrsta sinn í Lengjudeildinni. Knattspyrnuhreyfingin mætti mörgum áskorunum vegna heimsfaraldursins en við hjá knattspyrnudeild Gróttu erum stolt af leikmönnum okkar, þjálfurum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir það hvernig þau tókust á við það mótlæti. Pepsi Max ævintýrinu er lokið í bili og munu báðir meistaraflokkarnir okkar spila í Lengjudeildinni að ári. Við hlökkum til næstu verkefna og komum sterkari til leiks þegar að því kemur.
Takk fyrir stuðninginn 💙 Áfram Grótta!

Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

Tinna til Apulia Trani

Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, hefur gert lánssamning við ítalska liðið Apulia Trani sem leikur í Serie C. Tinna er komin út og gæti leikið sinn fyrsta leik með liðinu á sunnudaginn í borginni Palermo á Sikiley. Eins og kunnugt er gekk Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir til liðs við Apulia Trani í síðustu viku en báðar framlengdu samninga sína við Gróttu á dögunum.
Tinna er uppalin í Gróttu og hefur leikið 75 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 35 mörk. Hún hefur verið lykilleikmaður frá því að meistaraflokkur var settur á laggirnar árið 2016 og er leikjahæsta Gróttukonan ásamt Diljá Mjöll Aronsdóttur.
Við heyrðum hljóðið í Tinnu sem kom til Trani í gærkvöld eftir langt ferðalag.
„Þetta á sér ekki langan aðdraganda. Félagið hafði samband við mig fljótlega eftir að Sigrún var komin út og eftir að hafa talað við hana og hugsað málið aðeins ákvað ég að slá til. Það er frábært tækifæri að búa í nýju landi og æfa fótbolta við aðrar aðstæður. Það var til dæmis mjög notalegt að vakna í sól og blíðu í morgun! En ég vona aðallega að þetta verði reynsla sem muni nýtast mér í framtíðinni, bæði inni á vellinum með Gróttu og annars staðar í lífinu“
Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Þar segir meðal annars: „Við erum sannfærð um að eiginleikar Tinnu sem framherja muni efla sóknarleik liðsins og hjálpa til við að ná settum markmiðum. Við bjóðum Tinnu hjartanlega velkomna til Trani“ 🇮🇹

Yfirlýsing aðalstjórnar Gróttu

Yfirlýsing aðalstjórnar Gróttu

Aðalstjórn Gróttu harmar þá ákvörðun almannavarna á höfuðborgarsvæðinu að útiloka börn og ungmenni frá því að geta stundað sína íþrótt með lokun íþróttamannvirkja á vegum sveitarfélaganna. Í fréttatilkynningu almannavarna segir m.a. að samfélagið eigi mikið undir því að takist að halda skólastarfi gangandi og að lögð sé áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli skóla.Það skýtur skökku við að slík tilkynning sé send út daginn eftir að stjórnvöld gáfu út nýja reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og breytingu á reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, þar sem opnað er fyrir að íþróttafélög geti hafið æfingar að nýju með takmörkunum, sem meðal annars lúta að því að ekki verði blöndun milli skóla. Aðalstjórn Gróttu hefur fullan skilning á mikilvægi þess að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið, eins og fram kemur í yfirlýsingu almannavarna.

Það liggur hins vegar fyrir að sóttvarnarlæknir hefur lýst yfir að smitleiðni barna sé mun minni en fullorðinna og að börn sem greinst hafa jákvæð með veiruna virðast almennt ekki fá alvarleg einkenni. Þá er þátttaka barna í íþróttum mikilvægur þáttur í daglegri rútínu þeirra, styrkir félagsleg tengsl, stuðlar að andlegu jafnvægi, dregur úr kvíða og styður við almennt heilbrigði og lýðheilsu. Gerðar hafa verið rannsóknir á mikilvægi skipulagðs íþróttastarfs fyrir vöxt og vellíðan barna hér á landi.Börn í skólum blandast á milli bekkja og jafnvel árganga í frímínútum. Þá blandast börnin jafnframt á milli skóla í leik utan skólatíma víða á höfuðborgarsvæðinu, s.s. á íþrótta- og leiksvæðum, sparkvöllum o.s.frv., en þar eru engar sóttvarnir viðhafðar. Þetta er iðulega sá tími dags sem þau væru annars að æfa sína íþrótt undirsett stífum sóttvarnareglum.

Deildir Íþróttafélagsins Gróttu hafa sett sér skýrar sóttvarnarreglur, sem áhersla er á að sé fylgt eftir í einu sem öllu. Þjálfarar nota grímur og viðhafa fjarlægðarmörk sín á milli og iðkendur spritta sig fyrir og eftir æfingar í íþróttasal. Ekki er vitað til þess að smit hafi komið upp í íþróttastarfi Gróttu frá því að starfsemin hófst á ný eftir lokun í byrjun maí og þar til starfsemin var stöðvuð aftur 8. október síðastliðinn. Ítrekaðar lokanir á íþróttastarfi barna, eins og börn á höfuðborgarsvæðinu eru nú að upplifa eru líklegar til að ýta undir brottfall úr íþróttum, sem aftur er líklegt til að hafa áhrif á heilsu þeirra til lengri tíma og þar með samfélagsleg áhrif. Það stenst heldur ekki skoðun að leyfa íþróttastarf fullorðinna, s.s. í heilsuræktarstöðvum, en loka fyrir íþróttastarf barna á sama tíma. A.m.k. hafa ekki verið gefnar trúverðugar skýringar á því ósamræmi sem þarna birtist, börnum og ungmennum í óhag. Er þess óskað að almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu endurskoði afstöðu sína, til samræmis við gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra.

Sigrún Ösp til Ítalíu

Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir leikmaður Gróttu hefur gert lánssamning við ítalska félagið Apulia Trani og mun spila með liðinu í vetur. Sigrún er alin upp í Þór og Þór/KA en hefur verið lykilleikmaður í Gróttu síðustu þrjú tímabil. Apulia Trani spilar í Serie C á Ítalíu og leikur í riðli með liðum í suðurhluta landsins. 

Við slógum á þráðinn til Sigrúnar sem er þessa dagana að koma sér fyrir í hafnarborginni Trani:

„Þetta gerðist allt mjög hratt. Það var haft samband við mig á þriðjudaginn í síðustu viku og fimm dögum síðar var búið að kaupa flugmiðann! Lengjudeildin er nánast búin og mér fannst spennandi að fá tækifæri til að spila fótbolta í öðru landi. Svo var tilhugsunin um að flytja til Suður-Ítalíu líka mjög heillandi. Það á eftir að koma í ljós hversu sterk C-deildin hér er miðað við fótboltann heima. Hvað sem því líður þá vona ég að ég geti hjálpað liðinu og komið reynslunni ríkari heim í Gróttu næsta vor“ sagði Sigrún sem gæti spilað sinn fyrsta leik þegar Apulia Trani ferðast til Sikileyjar og leikur við lið Palermo í næstu viku. 

Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Það segir m.a. í tilkynningu frá Apulia Trani: „Við erum sannfærð um að koma Sigrúnar muni hjálpa félaginu að ná settum markmiðum og að hún geti tekið næsta skrefið á sínum fótboltaferli. Við bjóðum Sigrúnu hjartanlega velkomna til borgarinnar og í liðið„. 

https://www.traniviva.it/sport/apulia-trani-il-rinforzo-a-centrocampo-arriva-dall-islanda/

2. flokkur kvenna deildarmeistarar í B deild Íslandsmótsins

2. flokkur Gróttu/KR hefur náð frábærum árangri í sumar og unnið alla sína leiki hingað til að einum frátöldum. Þær eru með 27 stig eftir 10 leiki og eiga eftir að spila tvo leiki en tókst að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í gær á KR-velli með 6-1 sigri á ÍA sem sitja í 2. sæti deildarinnar. Mörk Gróttu/KR í gær skoruðu María Lovísa Jónasdóttir, Emelía Óskarsdóttir (3) og Margrét Edda Lian Bjarnadóttir (2).
Við óskum stelpunum innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur í sumar! Það verður spennandi að fylgjast með flokknum í A deild á næsta ári 👊🏼
Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

Hákon valinn í U21 landsliðið fyrir undankeppni EM

Hákon Rafn Valdimarsson er í hóp U21 landsliðsins fyrir leiki gegn Ítalíu og Lúxemborg í undankeppni EM 2021. Ísland mætir Ítalíu föstudaginn 9. október á Víkingsvelli og hefst leikurinn kl. 15:30. Liðið leikur síðan gegn Lúxemborg ytra þriðjudaginn 13. október og hefst sá leikur kl. 15:00 að íslenskum tíma. Hákon verður þó einungis í leiknum gegn Ítalíu þar sem leikmenn hópsins sem spila með félagsliðum á Íslandi munu ekki ferðast með hópnum til Lúxemborgar þar sem þeir þyrftu að fara í sóttkví við heimkomuna með tilheyrandi áhrifum á mótahaldið innanlands.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með valið 👏🏼🇮🇸