Kjartan Kári í æfingahóp U19 ára landsliðsins

Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er í æfingahóp U19 ára landsliðsins. Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U19 karla, hefur valið 23 leikmenn frá 12 félögum til æfinga 25.-28. mars, en æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði.
Til hamingju Kjartan! 🇮🇸

Hákon á leiðinni á EM með U21 ára landsliðinu

Hákon Rafn Valdimarsson, markmaður Gróttu, er í hóp U21 árs landsliðsins fyrir EM 2021. Mótið er tvískipt, en riðlakeppnin fer fram núna í mars og 8-liða úrslit, undanúrslit og úrslit í sumar. Ísland er í riðli með Rússlandi, Danmörku og Frakklandi og leikur alla leiki sína í Györ í Ungverjalandi. Leikirnir þrír verða í beinni útsendingu á RÚV. Strákarnir hefja leik gegn Rússlandi 25. mars, mæta Dönum 28. mars og enda svo riðlakeppnina á leik gegn Frökkum 31. mars.
Til hamingju Hákon! 🇮🇸

Maggie Smither í Gróttu

Hin 23 ára gamla Maggie Smither mun verja mark Gróttu í sumar. Maggie hefur á ferli sínum leikið með South Dakota State í bandaríska háskólaboltanum og með tveimur liðum í WPSL sumardeildinni.

Maggie, sem kemur til landsins í lok mars, kveðst spennt fyrir því að spila fótbolta á Íslandi: 
„Ég er mjög þakklát fyrir tækifærið að spila með Gróttu í sumar. Það verður spennandi fyrir mig að spila í nýju landi og ég er viss um ég geti bætt mig sem leikmaður hjá félaginu. Ég hlakka til að vinna með Magnúsi og Pétri sem virka mjög vel á mig sem þjálfarar.“

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara Gróttu, fagnar komu Maggie Smither og hlakkar til að fá hana inn í hópinn: 
„Þetta eru frábær tíðindi fyrir Gróttu. Við lögðum mikið í að finna sterkan markvörð í staðinn fyrir Tinnu (Brá Magnúsdóttur) og held við séum heppin að fá Maggie í okkar lið. Hún er öflugur leikmaður og hennar fyrrum þjálfarar í Bandaríkjunum bera henni vel söguna. Við vonum að Gróttufólk og aðrir Seltirningar taki vel á móti Maggie og hjálpi henni að aðlagast nýju umhverfi“ 

Við bjóðum Maggie hjartanlega velkomna í Gróttu og hlökkum til að sjá hana spila strax í apríl.

6. og 7. flokkur kvenna á Krónumóti HK

6. og 7. flokkur kvenna Gróttu kepptu á Krónumóti HK um helgina sem fór fram í Kórnum. Á laugardeginum spilaði 6. flokkur kvenna en þær tefldu fram 5 liðum á mótinu. Á sunnudeginum var svo komið að 7. flokki kvenna en þær voru með fjögur lið. Sumar voru að spila á sínu fyrsta alvöru fótboltamóti en þær höfðu allar beðið lengi spenntar eftir þessum degi, enda ansi langt síðan síðasta mót var. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel og ljóst að framtíðin er björt hjá Gróttu. Fleiri myndir má sjá á instagram.com/grottasport og á Facebook síðu Gróttu knattspyrna.

7. flokkur karla á Krónumóti HK


Rúmlega 30 Gróttustrákar úr 7. flokki karla fengu loksins að fara á fótboltamót þegar Krónumót HK var haldið í Kórnum í gær. Grótta fór með 6 lið á mótið og stóðu drengirnir sig allir með prýði. Mikil gleði var á mótinu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, en fleiri myndir má sjá á instagram síðu fótboltans (grottasport) og á facebook (Grótta Knattspyrna).

Hákon í æfingahóp U21 árs landsliðsins

Hákon Rafn Valdimarsson er í æfingahóp U21 árs landsliðsins sem æfir saman dagana 3. og 4. mars.  

U21 karla leikur í lokakeppni EM 2021 í lok mars, en liðið er í riðli með Rússlandi, Frakklandi og Danmörku. Tvö efstu lið riðilsins fara svo áfram í átta liða úrslit, en þau fara fram í júní ásamt undanúrslitum og úrslitum. Mótið fer fram í Slóveníu og Ungverjalandi, en Ísland leikur alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni í Györ í Ungverjalandi.

Björn Axel og Birkir semja við Gróttu

Björn Axel hefur snúið aftur í sitt uppeldisfélag en hann skrifaði á dögunum undir samning um að leika með Gróttu á komandi keppnistímabili. Björn Axel er 26 ára sóknarmaður sem á að baki 73 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 35 mörk, þar af 20 leiki fyrir Gróttu. Björn Axel spilaði með Gróttu árin 2015, 2018 og 2019 en hann hefur einnig spilað með KV, Njarðvík, KFR og KFS.

Hinn 19 ára Birkir Rafnsson skrifaði undir tveggja ára samning við Gróttu nú á dögunum. Birkir er uppalinn Gróttumaður en meðfram því að spila með 2. flokki á síðasta ári lék hann einnig með Kríu. Þar spilaði Birkir 15 leiki og skoraði í þeim þrjú mörk.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að fá Björn Axel aftur í félagið og því að hafa samið við Birki.

Rakel Lóa valin í æfingahóp U17 ára landsliðsins

Rakel Lóa Brynjarsdóttir hefur verið valin á æfingar hjá U17 ára landsliði kvenna dagana 22.-24. febrúar. Æfingarnar fara fram í Skessunni undir stjórn Jörundar Áka Sveinssonar, landsliðsþjálfara U17 kvenna. Við óskum Rakel innilega til hamingju með valið og góðs gengis á æfingunum 👊🏼

Lilja, Lilja og Emelía valdar í æfingahóp U16

Þær Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lilja Lív Margrétardóttir og Emelía Óskarsdóttir hafa verið valdar til að taka þátt í úrtaksæfingum hjá U16 kvenna dagana 15.-17. febrúar. Innilega til hamingju með valið stelpur! 

Rut valin í æfingahóp U15 ára landsliðsins

Rut Heiðarsdóttir hefur verið valin af Ólafi Inga Skúlasyni, landsliðsþjálfari U15 kvenna, í æfingahóp fyrir æfingar 10.-12. febrúar. Rut er á yngra ári í 3. flokki kvenna og er mjög efnileg knattspyrnukona.
Til hamingju Rut og gangi þér vel! 👏🏼