Magnús Örn ráðinn U17 landsliðsþjálfari kvenna

Magnús Örn Helgason hefur verið ráðinn sem nýr U17 landsliðsþjálfari kvenna. Það þarf ekki að kynna Magnús Örn fyrir Gróttufólki en hann hefur starfað hjá knattspyrnudeild Gróttu frá árinu 2007 og er Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Árið 2018 tók Maggi við meistaraflokki kvenna og hann hefur stýrt liðinu síðan ásamt Pétri Rögnvaldssyni, en undir þeirra stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019. 

Magga verður sárt saknað innan knattspyrnudeildarinnar, enda hefur hann gegnt stóru hlutverki þar lengi og sinnt starfi sínu af mikilli kostgæfni og ástríðu. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Magga innilega til hamingju með nýja starfið og er hreykið af því að þjálfari félagsins sé orðinn landsliðsþjálfari. Maggi tekur við U17 ára landsliðinu að loknu keppnistímabili hjá meistaraflokki kvenna í september mánuði. Við hlökkum til að fylgjast með honum í nýju starfi. 

75 Gróttustelpur á Símamótinu

Stærsta helgi ársins hjá ungum og efnilegum knattspyrnukonum rann upp síðustu helgi þegar hið fræga Símamót fór fram í Kópavogi. Um 3000 stelpur léku á mótinu sem er stærsta knattspyrnumót landsins, og fer sífellt stækkandi. 75 Gróttustelpur héldu á mótið en 5. flokkur Gróttu tefldi fram tveimur liðum sem samanstóðu af 16 stelpum, 6. flokkur kvenna var með 30 stelpur í fimm liðum og 7. flokkur kvenna fór með 29 stelpur í fimm liðum. Mótið var frá föstudegi til sunnudags og leikið var frá morgni til eftirmiðdags. Mótið fór fram með hefðbundnu sniði en hins vegar var breyting á liðsnöfnum í ár, en mótsstjórn Símamótsins hvatti félög til að leggja niður númeraröðun liða á mótinu og þess í stað skíra lið félaganna eftir knattspyrnukonum. Grótta tók að sjálfsögðu þátt í þessu frábæra framtaki og
Gróttuliðin hétu öll eftir meistaraflokksleikmönnum Gróttu. Leikmennirnir kíktu á stelpurnar á mótinu og fannst stelpunum það ansi spennandi.
Gróttustelpurnar upplifðu bæði sigra, töp og jafntefli, en leikgleðin var aldrei langt undan. Það er mikil upplifun að spila á Símamótinu og alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá ungum knattspyrnukonum. Keppendum frá Gróttu fer fjölgandi með ári hverju sem er skýrt merki um uppgang kvennafótboltans á Nesinu. Stelpurnar stóðu sig með prýði á mótinu en umfram allt skemmtu þær sér vel og komu heim á Seltjarnarnesið reynslunni ríkari 🤩

Emelía og Lilja Lív á Norðurlandamóti með U16

Þær Emelía Óskarsdóttir og Lilja Lív Margrétardóttir héldu til Danmerkur þann 4. júlí með U16 ára landsliði Íslands í spennandi verkefni. Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari U16 kvenna, valdi þessar tvær efnilegu Gróttukonur í lokahóp til þátttöku í Norðurlandamóti U16 kvenna sem fram fór í Kolding í Danmörku 4.-13. júlí. Í hópnum voru 20 leikmenn frá 11 félögum og er Grótta hreykið af því að eiga þar þessa tvo flottu fulltrúa. Íslenska liðið mætti Svíþjóð, Danmörku og Danmörku 2 (Denmark Future) og voru leikdagarnir 6., 9. og 12. júlí. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Svíþjóð, vann Danmörku 2 1-0 og tapaði síðan fyrir Danmörku 3-0. Emelía og Lilja Lív komu við sögu í öllum leikjunum og voru glæsilegir fulltrúar félagsins! 

6. flokkur karla á Orkumótinu í Eyjum

Það voru 17 galvaskir Gróttudrengir sem héldu í ævintýraferð á Orkumótið í Eyjum í lok júní, áður þekkt sem Shellmótið eða Tommamótið. Veðrið var frábært þegar siglt var með Herjólfi frá Landeyjahöfn og strax fyrsta daginn fóru strákarnir í bátsferð um Eyjarnar.

Keppni hófst á fimmtudeginum og lék Grótta2 meðal annars á Helgafellsvelli sem er líklega einn af fáum fótboltavöllum í heiminum sem er staðsettur á eldfjalli. Strákarnir í Gróttu2 spiluðu glimrandi fótbolta og náðu 2. sæti í sínum riðli fyrstu tvo dagana. Síðasta daginn öttu þeir svo kappi við mjög öflug lið og gerðu tvö jafntefli en tvö töp staðreynd.

Grótta1 byrjaði mótið rólega en á föstudagsmorgni þurfti heldur betur að vakna því framundan voru leikir við tvö af bestu liðum mótsins: Stjörnuna og Þór (sem enduðu á að leika til úrslita). Báðir leikir töpuðust 2-0 en varnarleikur Gróttudrengja var stórgóður og endaði liðið daginn á frábærum sigri á Keflavík. Lokadaginn gerði Grótta1 svo tvö jafntefli, vann einn leik og tapaði einum og endaði í 11. sæti Orkumótsins.

Það eru þó ekki aðeins afrek innan vallar sem skipta máli á svona stórmóti hjá 10 ára peyjum (eins og Eyjamenn kalla stráka). Hópurinn ver miklum tíma saman og stundum getur tekið á að gista annars staðar en í öruggu skjóli foreldra sinna. Allir voru sammála um að strákarnir hafi komið nokkrum númerum stærri heim frá Eyjum, tilbúnari í að takast á við áskoranir næstu ára innan sem utan fótboltavallarins.

6. flokkur kvenna á Steinullarmóti Tindastóls

6. flokkur kvenna skellti sér á Sauðárkrók síðustu helgi og lék þar á Steinullarmóti Tindastóls. Grótta fór með 5 lið á mótið og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel. Miklar framfarir sáust í spilamennsku hjá Gróttustelpunum og var leikgleðin aldrei langt undan. Veðrið var frábært á Króknum og stemningin með eindæmum góð 🙌🏼
Næst á dagskrá hjá stelpunum er Símamótið sem fer fram næstu helgi í Kópavogi!

Elfa og Emma í Gróttu


Hin 19 ára gamla Elfa Mjöll Jónsdóttir skrifaði í vikunni undir samning við Gróttu en hún kemur til félagsins frá Völsungi. Þrátt fyrir ungan aldur á Elfa 64 leiki að baki með Húsvíkingum en hún er kraftmikill hægri kantmaður. Elfa kom inná í 3-2 sigri Gróttu á Augnablik á föstudaginn og stóð sig vel. 

Þá hefur Emma Steinsen snúið aftur í Gróttu á láni frá Val en hún var fyrri hluta sumars í herbúðum Fylkis. Emma lék 17 leiki með Gróttu í fyrra og þekkir því til á Nesinu. Emma kom einnig inná sem varamaður í leiknum á föstudaginn en hún getur leikið allar stöður í öftustu línu. 

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara Gróttu fagnar Elfu og Emmu á Nesið. 
„Það er frábært að Elfa hafi valið að koma til okkar í Gróttu. Það sterkt fyrir félagið að tryggja sér jafn öflugan leikmann út tímabilið 2023 og við hlökkum mikið til að vinna með henni á næstu misserum. Þá erum við glöð að fá Emmu aftur í félagið. Hún er skemmtilegur karakter og öflugur varnarmaður sem mun hjálpa liðinu mikið. Við þökkum Völsungi og Val fyrir góð samskipti í tengslum við félagaskiptin.“

7. flokkur karla á Norðurálsmótinu

37 drengir úr 7. flokki karla spiluðu á hinu víðfræga Norðurálsmóti síðustu helgi en Grótta fór með sex lið á mótið. Drengirnir fengu frábært veður á Skaganum sem skemmdi ekki fyrir stemningunni. Þeir stóðu sig gríðarlega vel og gátu þjálfararnir séð miklar framfarir á vellinum. Frábært var að sjá hvað margir foreldrar fylgdu strákunum og hvöttu þá til dáða. Mótið gekk heilt yfir mjög vel og voru drengirnir félaginu til sóma, bæði innan sem utan vallar. Mikil gleði ríkti meðal drengjanna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd 🤩

5. flokkur kvenna á TM mótinu í Eyjum

5. flokkur kvenna hélt til Vestmannaeyja í síðustu viku á hið margfræga TM mót, betur þekkt sem Pæjumótið! Grótta fór með tvö lið á mótið og 21 stúlku innanborðs. Spilað var fimmtudag, föstudag og laugardag og var mikið fjör á Eyjunni. Rebekka Sif Brynjarsdóttir var valinn fulltrúi liðsins í pressuliðinu sem lék gegn landsliðinu á föstudagskvöldið, en lið Rebekku vann leikinn 3-0 og átti hún tvær stoðsendingar 👏🏼 Rebekka var einnig valin í lið mótsins!
Stelpurnar stóðu sig vel á mótinu innan sem utan vallar og voru glæsilegir fulltrúar félagsins 💙

Emelía og Lilja Lív valdar í hóp U16 ára landsliðsins

Gróttukonurnar Emelía Óskarsdóttir og Lilja Lív Margrétardóttir hafa verið valdar í hóp U16 ára landsliðsins sem æfir saman á Selfossi í júní. Æfingarnar fara fram dagana 21.-24. júní og eru liður í undirbúningi liðsins fyrir Norðurlandamótið sem fer fram í Danmörku 4.-13. júlí í sumar. Gangi ykkur vel stelpur 🇮🇸

Æfðu eins og atvinnumaður

Knattspyrnudeild Gróttu býður í sumar upp á afreksæfingar fyrir leikmenn á aldrinum 2007-2010 (4. og 5. flokkur karla og kvenna).

Á æfingunum verður einblínt á færni en þær verða leiddar af þjálfurum knattspyrnudeildarinnar ásamt þeim Paul Western og Dom Ankers sem eru gestaþjálfarar hjá Gróttu í sumar. Paul, sem er 41 árs Englendingur, hefur komið víða við en hann var aðstoðarskólastjóri Craig Bellamy Academy í Sierra Leone, yfirþjálfari Chelsea-akademíu í Kína og nú síðast stýrði hann akademíu í Lesótó í Afríku. Paul er að klára UEFA-A og UEFA-Youth þjálfaragráður og hefur góða reynslu af því að þjálfa börn og fullorðna á öllum aldri og frá mismunandi bakgrunnum. Dom, sem er 26 ára Englendingur, stundaði nám við Loughborough íþróttaháskólann sem er einn sá virtasti í heimi og lauk þar prófi þar í íþrótta- og hreyfingafræði. Dom starfaði sem þjálfari í Loughborough en hefur síðastu ár þjálfað hjá Norwich City. Hann hefur unnið með knattspyrnuiðkendur á öllum aldri, frá ungum börnum til fullorðinna. Æfingarnar fara fram á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í klukkutíma í senn og ákveðið þema mun einkenna hverja æfingu. Æfingarnar verða fyrir hádegi en nánari tímasetningar verða kynntar þegar nær dregur. Fyrsta námskeiðið hefst mánudaginn 14. júní og er vikulangt.

Skráning er hafin á sportabler.com/shop ✍️