Boltaskóli Gróttu heldur áfram

!!VORÖNN!! Nú verður einnig hægt að skrá börn sem eru fædd snemma árið 2023😁

Knattspyrnu og handknattleiksdeildir Gróttu halda áfram með Boltaskóla fyrir börn fædd 2022 á sunnudögum kl. 09:15.

Vorönn byrjar 4. janúar og skráning er hafin, líkt og seinast er notast við klippikortakerfi. https://www.abler.io/shop/grotta/fotbolti?program=Q2x1YlNlcnZpY2U6NDY0NDg=

Skemmtilegt námskeið þar sem að við leggjum áherslu á að foreldri/forráðamaður og barn njóti gæðastundar saman í tímanum þar sem unnið er með leik og hreyfingu með bolta og önnur áhöld.

Námskeiðið er sett upp þannig að einn forráðamaður mætir með barninu í tímann og er með barninu í leik og starfi.

Hlökkum til að sjá ykkur!
Hansína og Arndís María

Æfingagjöld Fimleikadeildar Gróttu vorönn 2026

Fimleikadeild Gróttu hefur birt upplýsingar um æfingagjöld fyrir vorönn 2026 og hefur gjaldskráin verið sett fram á nýjan hátt með það að markmiði að vera gagnsæ, skýr og í samræmi við það sem tíðkast hjá öðrum fimleikafélögum. Æfingagjöldin eru nú reiknuð eftir vikufjölda og fjölda klukkustunda sem iðkendur eru með í stundatöflu.



Æfingagjöld hjá Fimleikadeild Gróttu þurfa að standa undir umfangsmiklum rekstri deildarinnar, en starfseminni hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg.  Deildin telur í dag hátt í 700 iðkendur á breiðum aldri, eða frá 1 árs í krílafimi og upp í fullorðinsfimleika, og tæplega 70 þjálfara. Markmið deildarinnar er að tryggja faglega þjálfun, góða þjónustu og öruggt umhverfi, topp aðstöðu, öfluga starfsemi og rekstur sem stendur undir sér. 

Fagleg þjálfun 

Þjálfarar Gróttu mynda öflugt og fjölbreytt teymi sem býr yfir víðtækri reynslu og sérþekkingu í fimleikaþjálfun. Þá sækja þeir reglulega fræðslu til að styrkja færni sína.  Til að halda góðu þjálfarateymi og laða til okkar hæfa þjálfara er mikilvægt að deildin geti boðið upp á samkeppnishæf laun ásamt öruggum og stöðugum starfsaðstæður.   

Góð þjónusta og öryggi iðkenda í fyrirrúmi

Við leggjum okkur fram við að hver iðkandi fái góða athygli og leiðsögn þjálfara á æfingum. Fjöldi iðkenda í hóp er í mesta lagi 12-14 á hvern þjálfara auk aðstoðarþjálfara. Þá fá iðkendur góðan æfingatíma í sal, nægilegt pláss og þann fjölda æfingatíma sem þarf til að ná árangri í sinni íþrótt 

Hátt hlutfall þjálfara er einnig öryggismál fyrir iðkendur, en í fimleikasalnum hverju sinni eru margir hópar á fjölda áhalda að gera stór stökk og æfingar sem gæta þarf vel að.

Samkeppnishæf aðstaða

Fimleikadeildin býður upp á fullbúinn fimleikasal þar sem aðstaða og fjöldi áhalda styður við faglega þjálfun og skapar öruggt æfingaumhverfi. Salurinn er skipulagður með öryggi iðkenda í fyrirrúmi, áhöld og dýnur eru reglulega yfirfarin og endurnýjuð eftir þörfum. Salurinn er yfirleitt fullnýttur og ávallt mikið fjör. 

Rekstur deildarinnar 

Rekstur Fimleikadeildar Gróttu snýst um að styðja við blómlegt starf deildarinnar og tryggja gott samstarf við foreldra og forráðamenn. 

Fimleikadeildin leggur sig fram um að æfingagjöld endurspegli raunverulegan kostnað. Deildin er ekki rekin í hagnaðarskyni og reynt er eftir fremsta megni að enda árið réttu megin við núllið. Eins og önnur félög og atvinnustarfsemi hefur bent á, hefur launaskrið og verðbólga þyngt rekstrarumhverfi mikið undanfarin ár og hefur Fimleikadeildin ekki farið varhluta af því enda með yfir 70 starfsmenn. Starfsmaður er á skrifstofu sem gegnir mikilvægu hlutverki við að halda utan um starfsemina. Auk þess standa æfingagjöldin straum af nauðsynlegum innviðum, svo sem tækjabúnaði, hljóðkerfi, viðhaldi áhalda og tækja, tryggingum og fl.  

Þess má geta að fjöldi fólks leggur deildinni lið sem sjálfboðaliðar, bæði í stjórn og sértækum verkefnum og fyrir það erum við ótrúlega þakklát. Án sjálfboðaliða gæti íþróttastarf fyrir börn og unglinga á Íslandi ekki staðið undir sér og verið sú mikilvæga grunnstoð í lýðheilsu og forvörnum sem við sem samfélag treystum á. 

Við viljum þakka iðkendum og forráðamönnum fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða og fögnum þeim árangri sem iðkendur hafa náð. Við erum sprúðlandi spennt fyrir 2026 og hlökkum til að gera enn betur á komandi ári.

Skötuveisla Gróttu

Íþróttafélagið Grótta ætlar að bjóða í skötuveislu sunnudaginn 21. desember milli 12:00 og 14:00.

Boðið verður uppá skötu með mörfeiti/hnoðmör, soðnar rófur og kartöflur, soðinn saltfisk, rúgbrauð og smjör ásamt ris a la mandle með berjasósu. Einnig verður á helt uppá kaffi og ýmsar fljótandi veitingar í boði 🍻

Miði kostar 5.900 kr á haus, en hægt verður að greiða við inngang eða millifæra inná reikning (Kennitala: 700371-0779, Bankareikningur: 0537-26-201234).

Hlökkum til að sjá sem flesta 🎉

Aðventukósý Gróttukvenna

Kæru Gróttu-konur, kempur og almennar Nes drottningar.

Gróttu-konur skella í smá aðventu hygge enda alltof langt síðan við höfum hist og gert okkur glaðan dag saman.

Gleðin verður á Örnu kaffihúsi fimmtudaginn 4. des milli kl 17-19. Miðaverð er 5500 enda smá fjáröflun í leiðinni og fyrir það færðu einn drykk, létt jóla nasl og samveru með skemmtilegustu konum landsins. Það kemur Leynigestur og svo aldrei að vita nema við syngjum saman nokkur jólalög. Á barnum verður hægt að versla, heitt glögg, jólabjór eða jólabubblur ala KB 13 og að lokum verða kynnt skemmtilegheit sem framundan eru 2026.

Endilega bókið ykkur og ykkar hóp miða sem fyrst. Hlökkum til að sjá ykkur.

https://tix.is/event/20732/adventukosy-grottukvenna

Nýjung í Gróttu – Hobbý hestar

Gleði, leikur og lipurð blandast saman í frábæra æfingu fyrir börn og ungmenni á grunnskólaaldri. Komið og prufið þessa frábæru íþrótt sem sameinar hestamennsku og fimleika á einstakan hátt.

Íþróttafélagið Grótta ætlar að bjóða uppá fríar prufu æfingar í Hobbý hestum næstu fjóra sunnudaga. Þetta er ekkert flókið, mæta í íþróttafötum með vatnsbrúsa og með hest ef hann er til. Á staðnum verða nokkrir lánshestar fyrir þá sem ekki eiga og vilja prófa.

Skráning fer fram í gegnum Abler hér: https://www.abler.io/shop/grotta/1?program=Q2x1YlNlcnZpY2U6NDk0NTk=

Næring, fræðslufyrirlestur fyrir íbúa 60+ í hátíðarsal Gróttu

FRÍSK Í GRÓTTU bjóða íbúa Seltjarnarnesbæjar, 60 ára og eldri, hjartanlega velkomna á fræðslufyrirlestur um næringu með Agnesi Þóru Árnadóttur, næringar- og íþróttafræðingi (BSc í næringarfræði, MSc í íþróttanæringarfræði) en fræðslufyrirlesturinn er samstarfsverkefni Frísk í Gróttu, Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi og Seltjarnarnesbæjar.

Á fyrirlestrinum verður farið yfir mikilvægi góðrar næringar fyrir heilsu, orku og vellíðan. Þátttakendur fá hagnýtar ráðleggingar sem auðvelt er að nýta í daglegu lífi. Markmið okkar er að stuðla að auknu heilsulæsi meðal þátttakenda og íbúa bæjarins — því þekking á eigin heilsu og næringu er lykillinn að betri lífsgæðum.

Við hvetjum alla til að mæta, hlusta, spyrja spurninga og taka þátt í fræðandi og skemmtilegri samveru!

Staðsetning: Hátíðarsalur Gróttu (Suðurströnd 8, 170 Seltjarnarnes)

Dagsetning: Fimmtudagur 30. október

Tími: Kl. 10:45

Haustmót Fimleikasambands Íslands – frábær frammistaða hjá Gróttu! 🤸‍♀️

Haustmót Fimleikasambands Íslands fór fram um helgina, 18.–19. október, í Versölum hjá Gerplu. Fimleikadeild Gróttu átti glæsilegan hóp keppenda sem stóð sig með stakri prýði á fyrsta móti haustannar! 

Í 3. þrepi kepptu þær Salka, Guðrún, Sigurrós, Elsa, Sunneva, Sigurlaug Mirra og Hugrún. Sigurrós tryggði sér 2. Sæti á slá! Í 2. þrepi kepptu þær Fanney og Sigríður. Í unglingaflokki keppti Eldey Erla og tryggði sér 3. sæti á tvíslá!

Fimleikadeild Gróttu óskar öllum keppendum og þjálfurum innilega til hamingju með mótið og árangurinn. Við hlökkum til að fylgjast með þeim blómstra í vetur! 

Áfram Grótta!

Æfingagjöld

Kæru foreldrar og forráðamenn

Við minnum á greiðslu æfingagjalda og hvetjum ykkur til að ganga frá skráningu iðkenda í gegnum Abler.

Æfingagjöldin eru forsenda þess að iðkandi gerist löglegur og geti tekið þátt í keppnum á vegum félagsins. Einnig eru þau lífæð félagsins í rekstri deilda.

Fyrirfram þakkir
#okkargrótta

Boltaskóli Gróttu

!!NÝTT!!

Knattspyrnu og handknattleiksdeildir Gróttu ætla að bjóða uppá Boltaskóla fyrir börn fædd 2022 á sunnudögum í vetur kl. 09:15.

Haustönn 21. september til 16.nóvember.

Skemmtilegt námskeið þar sem að við leggjum áherslu á að foreldri/forráðamaður og barn njóti gæðastundar saman í tímanum þar sem unnið er með leik og hreyfingu með bolta og önnur áhöld.

Námskeiðið er sett upp þannig að einn forráðamaður mætir með barninu í tímann og er með barninu í leik og starfi.

Skráning fer fram hér

Hlökkum til að sjá ykkur!

Hansína og Arndís María