Lilja Lív valin í U17 ára landsliðið

Lilja Lív Margrétardóttir er í hóp U17 ára landsliðsins sem æfir dagana 23. og 24. nóvember. Æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði. Næsta verkefni er önnur umferð undankeppni EM 2022, en dregið verður í riðla í desember.
Vel gert Lilja 🙌🏼🇮🇸

Hákon kallaður inn í A-landsliðið og Orri Steinn í U-21

Gróttumenn gera það gott! Hákon kallaður inn í A-landsliðið og Orri Steinn í U-21 🇮🇸

Hinn 17 ára gamli Orri Steinn Óskarsson var kallaður inn í U21 árs landsliðið í gær en liðið spilaði við Liechtenstein í dag. Þar hitti Orri sinn fyrrum liðsfélaga hjá Gróttu, en Hákon Rafn Valdimarsson var milli stanganna hjá U21 árs landsliðinu í 3-0 sigri. Hákon var í byrjunarliði liðsins en Orri Steinn kom við sögu sem varamaður og lék sinn fyrsta landsleik með U21 ára liðinu. Það er skammt stórra högga á milli, en eftir leikinn var tilkynnt að Hákon Rafn Valdimarsson hefði verið kallaður inn í A-landsliðið. Hákon verður því í íslenska landsliðshópnum í leiknum gegn Norður-Makedóníu á sunnudag.
Geggjaðir 🙌🏼💙

Arnfríður Auður valin í U15 ára landsliðið

Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir er í hóp U15 ára landsliðsins sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið til að æfa saman 15.-17. nóvember.
Knattspyrnudeild Gróttu er hreykið að eiga fulltrúa í þessum hópi, en hin 13 ára gamla Aufí er gríðarlega efnileg knattspyrnukona! 

Halldór Kristján ráðinn aðstoðarþjálfari Chris hjá meistaraflokki karla 

Halldór Kristján Baldursson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla við hlið Chris Brazell, sem var ráðinn aðalþjálfari liðsins á dögunum. Halldór Kristján er 27 ára gamall, með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og vel kunnugur staðháttum á Vivaldivellinum. Hann er uppalinn í Breiðabliki en á 82 leiki að baki fyrir Gróttu allt frá árinu 2016. Gróttufólk gleymir því seint þegar Halldór Kristján leiddi Gróttuliðið inn á Kópavogsvöllinn sumarið 2020, með fyrirliðabandið um arminn, þegar liðið lék sinn fyrsta leik í sögu félagsins í efstu deild. 

Síðustu ár hefur Halldór, ásamt því að vera leikmaður, verið viðriðinn þjálfun hjá félaginu en hann þjálfaði m.a. 4. flokk karla árið 2020 og hefur síðustu tvö ár þjálfað Kríu, venslalið Gróttu, sem leikur í 4. deild karla. Undir stjórn Halldórs hefur Kría komist í úrslitakeppni 4. deildar tvö sumur í röð. Halldór Kristján tekur nú slaginn með meistaraflokki karla í öðru hlutverki en áður og er knattspyrnudeild Gróttu gríðarlega spennt fyrir komandi tímum, með ungt en afar efnilegt þjálfarateymi við stjórnvölinn.

Dom og Paul áfram hjá knattspyrnudeild

Það er gleðiefni að tilkynna að þeir Dom Ankers og Paul Western verða áfram þjálfarar knattspyrnudeildar Gróttu eftir farsælt sumar 👏🏼Englendingarnir Dom og Paul hófu störf í sumar hjá Gróttu og unnu þar með flestum flokkum félagsins ásamt því að bjóða upp á afreksæfingar. Á komandi tímabili mun Dom þjálfa 5. og 2. flokk karla og Paul 3. flokk karla og kvenna. Dom og Paul verða einnig báðir í þjálfarateymum meistaraflokks karla og kvenna.

Níu leikmenn mfl. kvk. skrifa undir til tveggja ára

Okkur er sönn ánægja að segja frá því að þær Bjargey Sigurborg Ólafsson, Edda Steingrímsdóttir, Jórunn María Þorsteinsdóttir, Nína Kolbrún Gylfadóttir, María Lovísa Jónasdóttir, Margrét Rán Rúnarsdóttir, Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir, Tinna Bjarkar Jónsdóttir og Patricia Dúa Thompson Landmark hafa skrifað undir samning við knattspyrnudeild Gróttu til næstu tveggja ára. Þær eru allar mikilvægir hlekkir í Gróttuliðinu og við hlökkum til að takast á við verkefnin sem framundan eru með þeim 🤝

Kjartan Kári og Arnþór Páll æfa með Bodö/Glimt

Kjartan Kári Halldórsson og Arnþór Páll Hafsteinsson hafa síðustu daga æft með Noregsmeisturum Bodö/Glimt. Þeir hafa æft með unglingaliðum félagsins en fengu í dag tækifæri til að æfa með aðalliðinu, daginn eftir frækinn 6-1 sigur Bodö/Glimt á Roma í Evrópudeildinni.

Gera má ráð fyrir að reynslan verði frábær fyrir Gróttumennina ungu en ferðin er þáttur í afreksstefnu Gróttu sem meðal annars felur í sér samvinnu með erlendum félögum.

Chris Brazell þjálfari meistaraflokks karla er ánægður fyrir hönd strákanna:
„Grótta er lítið félag sem þarf að fara ótroðnar slóðir til að halda í við, og gera betur en önnur félög. Mikið fjármagn er ekki aðalatriðið í þróun ungra leikmanna og því stefnir Grótta að því að búa ungum leikmönnum sem eru að hefja sinn meistaraflokksferil besta umhverfi á landinu. Umræddir leikmenn (strákar og stelpur) geta verið uppaldir í Gróttu, lánsmenn frá öðrum félögum eða leikmenn sem við komum auga á (e. scouting) og fáum til liðs við okkur. Við viljum hjálpa ungum leikmönnum að bæta sig innan okkar raða og hjálpa þeim þannig að taka næstu skrefin á sínum knattspyrnuferli.

Hluti af þessari nálgun hjá Gróttu er að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að fara í heimsóknir til atvinnumannafélaga og upplifa æfingar og umhverfi eins og það gerist best. Ég tel það alls ekki síðra en að fara á „trial“ þar sem pressan er mikil og skemmir oft upplifunina. Heimsóknir eins og Arnþór og Kjartan eru í núna bæta miklu við reynslubankann og geta hjálpað leikmönnum síðar meir að aðlagast og líða vel komist þeir út í atvinnumennsku.

Grótta fagnar samstarfinu við Bodö/Glimt. Reynslan er frábær fyrir strákana og við hlökkum til að eiga gott samband við félagið og starfsfólk þess

Arnfríður Auður í Hæfileikamótun KSÍ

Arnfríður Auður Arnarsdóttir er í hóp leikmanna sem hafa verið valdir til að taka þátt á æfingum í Hæfileikamótun stúlkna dagana 27.-29. október 2021.

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Kaplakrika í Hafnarfirði og hafa hafa 64 stúlkur frá félögum víðs vegar af landinu verið boðaðar til æfinga.

Grótta er hreykið af því að eiga fulltrúa í þeim hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum!