STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Valdimar Ólafsson vallarstjóri á Vivaldivellinum er næstur í starfsmannakynningu Gróttu.
Gælunafn: Valdi, spaugsamir segja stundum Vi-Valdi.
Fyrri störf: Vann í Hagkaup Nesinu í yfir 20 ár, einnig var ég á fraktara hjá Hafskip í 12 ár.
Hve lengi starfað hjá Gróttu: Ég hóf störf hjá Gróttu í september 2016, rétt rúmlega fimm ár síðan.
Hvar ólstu upp: Uppalinn á Seltjarnanesinu. Var einn af strákunum sem voru í kringum Garðar Guðmundsson sumarið 1966 þegar félagið var stofnað.
Áhugamál: Fótbolti og hef gaman gera upp gamalt dót.
Stundaðir þú íþróttir: já, var í fótbolta og handbolta hjá Gróttu og einnig í körfubolta eina veturinn sem hann var stundaður hjá Gróttu.
Uppáhalds tónlistarmenn: John Lennon, Rolling Stones og David Bowie.
Bíómynd í uppáhaldi: Scarface (1983)
Uppáhalds matur: Nautalundir eins og ég geri þær.
Skilaboð til foreldra: Krakkarnir eru ekkert til vandræða, þau eru kurteis upp til hópa.

Hér má sjá fyrsta hópinn sem æfði undir merkjum Gróttu sumarið 1966 en félagið er svo formlega stofnað vorið eftir 1967. Forsprakkinn Garðar Guðmundsson er með sólgleraugu á myndinni. Valdimar Ólafs er í tíglapeysunni í fremstu röð lengst til vinstri. Á myndinni er fyrsti búningsklefinn sem er gamall vinnuskúr. Völlurinn sem var spilað á var staðsettur þar sem Bollagarðar og Höfgarðar eru í dag. Það má sjá að drengir á myndinni eru klæddir í búning með Gróttu merkinu sem Garðar teiknaði sjálfur.

Karlmennskan með fyrirlestur fyrir unglingsstráka Gróttu

Í gærkvöldi hélt Þorsteinn V. Einarsson frá samfélagsmiðlinum Karlmennskan fyrirlestur fyrir Gróttu drengi fædda 2003-2007 í knattspyrnu og handbolta. 

Erindi Þorsteins heitir ,,Leikreglur karlmennskunnar“ og fjallaði um muninn á skaðlegri og jákvæðri karlmennsku og hvernig strákarnir geti skapað liðsheild sem byggir á virðingu, meðvitund og samkennd. Vel var mætt á fyrirlesturinn og gerðu drengirnir góðan róm af erindi Þorsteins. 
Við þökkum Þorsteini kærlega fyrir komuna til okkar. 

Haustfundur þjálfara Gróttu

Haustfundur þjálfara allra deild hjá Gróttu fór fram í gær í hátíðarsal félagsins. Fyrri hluta fundar var erindi frá skrifstofunni um praktísk málefni en aðalfyrirlesturinn var í höndum Jón Halldórssonar frá Kvan sem sem nefnist: Hvernig sköpum við góða liðsheild. 

Jón fjallaði um hópa sem drifnir eru áfram af ákveðinni menningu sem skapast hefur innan þessa ákveðna hóps. Hvað er það sem skapar ákveðna menningu innan hóps? Hvernig getum við fundið út hverjir eru leiðtogar í hópnum? Eru leiðtogarnir jákvæðir eða neikvæðir? Hvernig getum við sett markmið hópsins fram á þann hátt að allir séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að ná árangri? Jón skoðaði nokkur raundæmi um hópa sem hafa náð miklum árangri og veltum fyrir okkur hverjir lykilþættirnir eru í þessu hópum. Þetta var kraftmikill og skemmtilegur fyrirlestur sem þjálfararnir gerðu góðan róm af.

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Starfsmannakynningin heldur áfram og nú er komið að Örlygi Hinrik Ásgeirssyni.
Gælunafn: oft kallaður Ölli, 
Fyrri störf (nefna 2-3): Kjötiðnaðarmaður, vann m.a. hjá Goða. Ég hef einnig kennaramenntun, kenndi í Menntaskólanum í Kópavogi iðngreinar.  
Hve lengi starfað hjá Gróttu: Ég hóf störf hjá Gróttu  í október 2016 – nýbúin að eiga 5 ára starfsafmæli. 

Hvar ólstu upp:  Í Bústaðarhverfinu (er uppalinn Víkingur)
Áhugamál: Stangveiði og fluguveiði. 

Stundaðir þú íþróttir:  Nei, ekkert að ráði. 

Uppáhalds tónlistarmenn: Ég hlusta þungarokk og blús, annað er ekki músík. Uppháalds hljómsveit er Metallica  og allt
þar í kring. 
Bíómynd í uppáhaldi: Vanishing Point (1971) 
Uppáhalds matur:  Hamborgari og franskar.
Skilaboð til foreldra:  Þið eigið mjög hress börn. 

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Nafn: Bogi Elvar Grétarsson, kallaður Elvar
Fyrri störf (nefna 2-3): Verslunarmaður í byggingarvörudeild í Kaupfélagi Austur Skaftfellinga á Höfn (KASK) og húsvörður í íþróttahúsinu Höfn í Horfnafirði.
Elvar hóf störf hjá Gróttu 3. október 2016 – nýbúin að eiga 5 ára starfsafmæli.
Hvar ólstu upp: Á Hvammstanga.
Áhugamál: Fótbolti og gítarleikur.
Mitt uppáhalds fótboltafélag er Keflavík.
Stundaðir þú íþróttir: Æfði fótbolta frá 5 ára aldri, spilaði í meistaraflokk með Sindra á Hornafirði og eitt ár með Tindastól í næst efstu deild. Alls spilaði ég 130 leiki og skoraði í þeim 86 mörk.
Uppáhalds tónlistarmenn: Nafnarnir Rúnar Þór og Rúnar Júlíusson. Bíómynd í uppáhaldi: Papillon (1973) með Steve McQueen og Dustin Hoffman
Uppáhalds matur: Hamborgarar og pylsur.
Skilaboð til foreldra: Hvetja fólk til að sýna krökkunum áhuga í leik og starfi.

STARFSMANNAKYNNING GRÓTTU

Á næstu vikum ætlum við að kynnast starfsmönnum mannvirkja Gróttu aðeins betur. Jóhanna Selma verður sú fyrsta en hún fagnar 1. nóvember næstk. 5 ára starfsafmæli hjá Gróttu.

Nafn: Jóhanna Selma Sigurardóttir
Gælunafn: Jóa
Fyrri störf: Hef meðal annars unnið í barnagæslunni hjá World Class og sem húsvörður hjá HK í Kórnum.
Hve lengi starfað hjá Gróttu: Byrjaði 1. nóvember 2016 og fagna því fljótlega 5 ára starfsafmæli.
Hvar ólstu upp ? Ég ólst upp í Kópavogi.
Áhugamál: Elska útiveru, Hestar, skíði, handbolti og fótbolti.
Stundaðir þú íþróttir: já, var í fótbolta hjá FH.
Uppáhalds tónlistarmaður: Villi Vill er í miklu uppáhaldi og svo ABBA til að að nefna einhverja
Bíómynd í uppáhaldi: Spennumyndir eru í uppáhaldi, t.d. Double Jeopardy
Uppáhalds matur: Lamb með berniese sósu og bakaðri kartöflu.
Skilaboð til foreldra: Ég kem fram við börnin ykkar eins og ég vil að þau komi fram við mig af virðingu.

LUMAR ÞÚ Á LJÓSMYNDUM ÚR SÖGU GRÓTTU ?

Íþróttafélagið Grótta er í átaki að leita uppi ljósmyndir úr starfi Gróttu í gegnum tíðina. Hrafnhildur Thoroddsen sem kemur til okkar þrisvar í viku og hefur skannað fjöldann allar af myndum sem hafa safnast saman síðastliðin ár hjá okkur á skrifstofu Gróttu. 

Við byrjuðum fyrir tæpu ári með átakið á Facebook síðu Gróttu og höfum við fengið fjöldan allan af ljósmyndum. Við setjum inn gamlar Gróttumyndir á Facebook síðu reglulega. Sjá hér.

Við viljum líka taka við stafrænum myndum sem við getum geymt á skýinu okkar. 
Nánar upplýsingar gullijons@grotta.is

Þjónustukönnun Gróttu 2021

Þjónustukönnun Íþróttafélagsins Gróttu var gerð dagana 2.-25. júní síðastliðinn. Könnunin var framkvæmd af Hólmfríði Önnu Martel Ólafsdóttur fyrir Gróttu.

Almennt má segja að ánægja foreldra með starfið sem fram fer í Gróttu sé mikil, heildaránægja mælist 4,04 af 5 mögulegum. Mjög jákvætt er að sjá líðan barna er sá þáttur sem er hæst metinn eða 4,40 sem er gríðarlega mikilvægur mælikvarði fyrir Gróttu.

Í ár spurðum við aftur sérstaklega um COVID-19. Almenn ánægja var með upplýsingagjöf Gróttu vegna faraldursins en 82% foreldra voru ýmist mjög ánægð eða frekar ánægð með upplýsingagjöf félagsins.

Niðurstöður þjónustukönnunarinnar fyrir Gróttu í heild og einstaka deildir má sjá með því að smella hér.

Skráning iðkenda 2021-2022

Kæru forráðamenn, iðkendur og annað Gróttufólk

Nú hefur verið opnað fyrir skráningar hjá öllum deildum og eru æfingatöflur vetrarins tilbúnar og aðgengilegar á vefsíðu félags. Þær gætu þó tekið breytingum og biðjum við forráðamenn að fylgjast vel með viðkomandi deild. 

Sú breyting hefur orðið á að nú fara allar skráningar í félagið í gegnum Sportabler https://www.sportabler.com/shop/grotta/

Öll samskipti milli þjálfara og foreldra fara fram í gegnum forritið og því mikilvægt að kynna sér umhverfið vel. 

Við skráningu fara iðkenndur sjálfkrafa inn í viðkomandi flokka/hópa á Sportabler og þar eru allir æfingatímar birtir og uppfærðir eftir því sem við á. Viljum við biðja ykkur að yfirfara vel allar upplýsingar (netföng og síma) en skráningar eru ákveðið öryggistæki og mikilvægt að réttar upplýsingar séu til staðar þegar ná þarf í aðstandendur. 

Ef spurningar vakna hafið samband við grotta@grotta.is

Hlökkum til að sjá ykkur vetur.