5.flokkur á Eyjablikksmót

Helgina 8. – 10. október fór eldra árið í 5.flokki kvenna og karla til Vestmannaeyja og spiluðu á sínu fyrsta Íslandsmóti. Strákarnir tefldu fram einu liði en stelpurnar tveimur liðum. Ferðin heppnaðist vel bæði handboltalega séð og félagslega séð.

Stelpurnar mættu ferskar og spenntar í fyrstu leikina á föstudeginum. Lið 1 lék gegn HK en því miður tapaðist sá leikur. Lið 2 spiluðu gegn Fram og náðu í jafntefli eftir að hafa verið undir meirihluta leiksins. Á laugardeginum spiluðu bæði lið tvo leiki. Lið 1 gerði jafntefli gegn Fram og unnu síðan Stjörnuna. Lið 2 áttu fyrsta leik gegn Haukum sem voru mun sterkari og tapaðist sá leikur. Seinni leikurinn var gegn FH og unnu þær flottan sigur. Á sunnudeginum átti lið 1 erfiðan leik fyrir höndum gegn Val og unnu þær okkur stúlkur sem börðust hins vegar allt til loka leiks. Lið 2 spilaði sinn síðasta leik gegn sterku liði Selfoss og tapaðist sá leikur eftir mikla baráttu hjá okkar stúlkum.

Strákarnir spiluðu tvo leiki á föstudeginum. Fyrri leikurinn var við Aftureldingu og byrjuðu strákarnir af miklum krafti og voru þremur mörkum yfir í lok fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikur gekk brösulega og fóru Afturelding með sigur úr leiknum. Seinni leikurinn var við Selfoss þar sem leikurinn var hnífjafn en endaði með sigri Selfyssinga. Á laugardeginum mættu strákarnir Fram í fyrsta leik og voru strákarnir greinilega ekki tilbúnir í þá baráttu. Seinni leikurinn var við ÍBV og sá leikur hnífjafn frá fyrstu mínutu, strákarnir spiluðu feikilega vel sóknarlega og endaði leikurinn með þriggja marka sigri Gróttu.

Á laugardagskvöldinu fór fram kvöldvaka og hluti af henni var leikur landsliðsins gegn pressuliðinu og áttum við einn strák í pressuliðinu; Arnar Magnús Andrason og tvær stúlkur; Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir. Okkar fulltrúar stóðu sig feikivel í leikjunum.

Þessi ferð á Eyjablikksmótið skildi eftir sig góðar minningar og vonandi halda krakkarnir áfram að bæta sig í handboltanum eins og þeir hafa gert hingað til.

Þjálfarar strákanna eru Andri Þór Helgason og Hannes Grimm. Þjálfarar stelpnanna eru Davíð Örn Hlöðversson og Patrekur Pétursson Sanko.

Sara Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir

Arnar Magnús Andrason

Þrír í U16 ára landsliðinu

Helgina 5. – 7.nóvember æfir U16 ára landslið karla undir stjórn Heimis Arnar Árnasonar og Hrannars Guðmundssonar þjálfara liðsins.

Við eigum þrjá fulltrúa í þeim hópi, þá Alex Kára Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano og Hannes Pétur Hauksson.

Við óskum strákunum til hamingju með valið og góðs gengis á æfingunum.

Arnfríður Auður í Hæfileikamótun KSÍ

Arnfríður Auður Arnarsdóttir er í hóp leikmanna sem hafa verið valdir til að taka þátt á æfingum í Hæfileikamótun stúlkna dagana 27.-29. október 2021.

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Kaplakrika í Hafnarfirði og hafa hafa 64 stúlkur frá félögum víðs vegar af landinu verið boðaðar til æfinga.

Grótta er hreykið af því að eiga fulltrúa í þeim hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum! 

Magnús Örn ráðinn U17 landsliðsþjálfari kvenna

Magnús Örn Helgason hefur verið ráðinn sem nýr U17 landsliðsþjálfari kvenna. Það þarf ekki að kynna Magnús Örn fyrir Gróttufólki en hann hefur starfað hjá knattspyrnudeild Gróttu frá árinu 2007 og er Gróttumaður í húð og hár. Hann lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun en hann hefur þjálfað flesta aldurshópa hjá félaginu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017. Árið 2018 tók Maggi við meistaraflokki kvenna og hann hefur stýrt liðinu síðan ásamt Pétri Rögnvaldssyni, en undir þeirra stjórn komst Grótta upp um deild árið 2019. 

Magga verður sárt saknað innan knattspyrnudeildarinnar, enda hefur hann gegnt stóru hlutverki þar lengi og sinnt starfi sínu af mikilli kostgæfni og ástríðu. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Magga innilega til hamingju með nýja starfið og er hreykið af því að þjálfari félagsins sé orðinn landsliðsþjálfari. Maggi tekur við U17 ára landsliðinu að loknu keppnistímabili hjá meistaraflokki kvenna í september mánuði. Við hlökkum til að fylgjast með honum í nýju starfi. 

Silfur hjá Katrínu Önnu og U17 ára landsliðinu

U17 ára landslið kvenna hefur lokið þátttöku sinni í B-keppni Evrópumótsins sem fór fram í Klaipeda í Litháen seinustu daga. Liðið lék til úrslita í gær gegn Norður-Makedóníu eftir að hafa unnið frábæran sigur á Spáni á laugardaginn í undanúrslitum.

Úrslitaleikurinn gegn Norður-Makedóníu var jafn og skemmtilegur en það voru Norður-Makedónar sem voru sterkari að lokum og unnu nauman eins margs sigur, 26-27. Íslenska liðið með Katrínu Önnu Ásmundsdóttur innanborð þurfti þess vegna að sætta sig við silfur að þessu sinnu.

Katrín Anna getur verið stolt af sinni frammistöðu í mótinu en hún var næstmarkahæst í báðum leikjunum um helgina gegn Spáni og Norður-Makedóníu. Samtals skoraði Katrín Anna 18 mörk í mótinu og var með góða færanýtingu.

#grottahandbolti#breytumleiknum#handbolti

Þrír í U15 ára landsliðinu

Um helgina átti landsliðsæfingar U15 ára landsliðsins að fara fram en þeim var frestað vegna fjölgunar smita í samfélaginu. Við áttum þrjá flotta fulltrúa í hópnum. Það voru þeir Alex Kári Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano og Hannes Pétur Hauksson. Við óskum okkar strákum til hamingju með valið og vonum að liðið geti æft í lok mánaðarins.

Þjálfarar U15 ára landsliðsins eru þeir Guðlaugur Arnarsson og Heimir Örn Árnason.

Fjórar stelpur í U14 ára landsliðinu

Um helgina áttu að fara fram æfingar hjá U14 ára landsliði kvenna en vegna fjölgunar smita var ákveðið að slá þeim á frest. Fjórar stelpur frá okkur voru valdar í hópinn en það voru þær Arndís Áslaug Grímsdóttir, Dóra Elísabet Gylfadóttir, Elísabet Ása Einarsdóttir og Margrét Lára Jónasdóttir.

Sannarlega frábær viðurkenning fyrir þessa öflugu leikmenn sem voru einnig valdar til þátttöku í landsliðinu fyrr í sumar.

Við óskum stelpunum til hamingju með landsliðsvalið og velfarnaðar á æfingum helgarinnar. Landsliðsþjálfarar eru þeir Dagur Snær Steingrímsson og Guðmundur Helgi Pálsson.

Gabríel Örtenblad í U17 ára landsliðinu

Á föstudaginn var valið í öll yngri landslið HSÍ og eigum við einn fulltrúa í U17 ára landsliðinu, hann Gabríel Örtenblad Bergmann.

Gabríel er örvhentur og leikur aðallega sem hornamaður. Hann lék með 4.flokki í vetur en mun á næsta tímabili leika á yngsta ári 3.flokks karla.

Við óskum Gabríel til hamingju með valið og óskum honum góðs gengis á æfingunum um komandi helgi.