Arnar Þór og Kristófer Orri komnir í 100 leikja klúbbinn

Gróttumenn tóku á móti HK í þriðju umferð Lengjudeildar karla þann 19. maí sl. Áður en leikurinn var flautaður á veitti Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, þeim Arnari Þór Helgasyni og Kristófer Orra Péturssyni blómvendi í tilefni þess að þeir hafa spilað 100 leiki fyrir Gróttu. Arnar Þór var að spila sinn 106. leik fyrir Gróttu og Kristófer Orri þann 100. Gróttumenn sóttu sér þrjú stig í kvöld eftir hörkuleik við HK. Staðan var 0-0 í hálfleik en Grótta var mun beinskeyttara liðið í síðari hálfleik og uppskar eftir því. Leikurinn fór 2-0 fyrir heimamönnum en mörk Gróttu skoruðu Sigurbergur Áki Jörundsson og Kjartan Kári Halldórsson.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að Addi og Kristófer hafi náð þessum merka áfanga og hafa haldið góðri tryggð við klúbbinn. Megi þeir spila sem lengst!

Grótta fer vel af stað í 2. deild kvenna

Meistaraflokkur kvenna fer vel af stað í 2. deildinni en þær hófu leik á föstudagskvöld. Grótta tók á móti ÍH í fyrsta leik Íslandsmótsins á Vivaldivellinum föstudaginn 20. maí. Heimakonur unnu öruggan sigur en leikurinn fór 9-1 fyrir Gróttu! Mörk Gróttu skoruðu María Lovísa Jónsdóttir (2), Tinna Bjarkar Jónsdóttir (2), Bjargey Sigurborg Ólafsson (2), Lilja Lív Margrétardóttir, Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving.
Næsti leikur hjá stelpunum er á fimmtudaginn á Vopnafirði gegn Einherja.

Meistaraflokkur karla byrjar Lengjudeildina vel

Meistaraflokkur karla hóf keppni í Lengjudeild karla laugardaginn 7. maí þegar drengirnir tóku á móti Vestra á Vivaldivellinum. Heimamenn uppskáru vel og fór leikurinn 5-0 fyrir Gróttu. Mörk Gróttu skoruðu Luke Rae (2), Kristófer Orri, Kjartan Kári og Sigurður Hrannar. Eftir geggjaða byrjun á sumrinu átti Grótta fimm fulltrúa í liði umferðarinnar, fjóra leikmenn og Chris Brazell þjálfara Gróttu. Luke Rae var valinn besti leikmaður umferðarinnar og þá voru markvörðurinn Jón Ívan Rivine, fyrirliðinn Arnar Þór Helgason og Kjartan Kári Halldórsson einnig í liðinu. Grótta átti flesta fulltrúa í liði umferðarinnar eftir stórsigurinn. Þá var Chris Brazell þjálfari Gróttu valinn þjálfari umferðarinnar. Næsti heimaleikur hjá drengjunum er fimmtudaginn 19. maí kl. 19:15 á móti HK! Sjáumst á Vivaldi!

6. flokkur karla og kvenna og 7. flokkur kvenna á TM móti Stjörnunnar

6. flokkur karla skellti sér á TM Stjörnunnar á sumardaginn fyrsta og helgina eftir á fylgdu 6. og 7. flokkur kvenna fast á eftir og tóku þátt í mótinu. Grótta fór með 14 lið á mótið í heild sinni, sex frá 6. flokki karla, fimm frá 6. flokki kvenna og þrjú frá 7. flokki kvenna. Krakkarnir skemmtu sér mjög vel á fyrsta stórmóti sumarsins og stóðu sig með prýði eins og við var að búast!

Heimaleikjakort til sölu

Heimaleikjakort knattspyrnudeildar Gróttu eru komin í sölu. Við hvetjum alla stuðningsmenn til að næla sér í kort á kostakjörum. Handhafar heimaleikjakorta njóta forgangs á völlinn. Sala heimaleikjakorta fer fram í vefverslun grotta.is/knattspyrnudeild/heimaleikjakort

Halda áfram að lesa

Grótta komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins

Meistaraflokkur karla unnu stórsigur gegn 4-deildarliði KM á Vivaldivellinum í gærkvöldi!

Áhorfendur kvöldsins voru ekki sviknir í gærkvöldi þegar Grótta gerði sér lítið fyrir og vann KM 12-0 í annarri umferð Mjólkurbikarsins á Vivaldivellinum!
Mörk Gróttu skoruðu Kjartan Kári Halldórsson, Arnar Þór Helgason (4), Luke Rae, Gunnar Jónas Hauksson, Sigurður Hrannar Þorsteinsson, Benjamin Friesen (3) og Arnar Daníel Aðalsteinsson ⚽️

Eyrún, Rebekka, Sara og Aufí valdar í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttustúlkurnar Eyrún Þórhallsdóttir, Rebekka Sif Brynjarsdóttir, Sara Björk Arnarsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir voru valdar til að taka þátt í Hæfileikamótun N1 og KSÍ þann 5. apríl í síðustu viku. Æfingin fór fram á Vivaldivellinum og voru 25 stúlkur frá Gróttu, KR, Val, Víking R. og Þrótti R. í hópnum sem æfði saman. Vel gert stelpur! 

Arnór, Fannar, Kári og Patrekur í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttudrengirnir Arnór Alex Óskarsson, Fannar Hrafn Hjartarson, Kári Kristjánsson og Patrekur Ingi Þorsteinsson hafa verið valdir til að taka þátt í æfingu í Hæfileikamótun N1 og KSÍ á Suðvesturlandi. Tæplega þrjátíu leikmenn frá fimm félögum taka þátt í æfingunum. 

Æfingin fer fram í knatthúsi ÍR í Breiðholti mánudaginn 11.apríl 2022 undir stjórn Lúðvíks Gunnarssonar þjálfara í Hæfileikamótun. 

Gangi ykkur vel strákar!