Tímabilið blásið af

Þá er orðið ljóst að tímabilinu er formlega lokið. Sumarið 2020 mun seint gleymast – karlaliðið í fyrsta sinn í Pepsi Max og kvennaliðið í fyrsta sinn í Lengjudeildinni. Knattspyrnuhreyfingin mætti mörgum áskorunum vegna heimsfaraldursins en við hjá knattspyrnudeild Gróttu erum stolt af leikmönnum okkar, þjálfurum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir það hvernig þau tókust á við það mótlæti. Pepsi Max ævintýrinu er lokið í bili og munu báðir meistaraflokkarnir okkar spila í Lengjudeildinni að ári. Við hlökkum til næstu verkefna og komum sterkari til leiks þegar að því kemur.
Takk fyrir stuðninginn 💙 Áfram Grótta!

Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

Íþróttastarf Gróttu fellur niður til 17. nóvember

Það má með sanni segja að síðustu vikur og mánuðir hafi verið óvenjulegir í starfi Gróttu og auðvitað í heiminum öllum. Íþróttastarf hefur ýmist verið í fullum gangi, í gangi með takmörkunum eða legið alfarið niðri. Nú er það ljóst að allt íþróttastarf mun liggja niðri til 17. nóvember næstkomandi.

Halda áfram að lesa

Tinna til Apulia Trani

Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, hefur gert lánssamning við ítalska liðið Apulia Trani sem leikur í Serie C. Tinna er komin út og gæti leikið sinn fyrsta leik með liðinu á sunnudaginn í borginni Palermo á Sikiley. Eins og kunnugt er gekk Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir til liðs við Apulia Trani í síðustu viku en báðar framlengdu samninga sína við Gróttu á dögunum.
Tinna er uppalin í Gróttu og hefur leikið 75 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 35 mörk. Hún hefur verið lykilleikmaður frá því að meistaraflokkur var settur á laggirnar árið 2016 og er leikjahæsta Gróttukonan ásamt Diljá Mjöll Aronsdóttur.
Við heyrðum hljóðið í Tinnu sem kom til Trani í gærkvöld eftir langt ferðalag.
„Þetta á sér ekki langan aðdraganda. Félagið hafði samband við mig fljótlega eftir að Sigrún var komin út og eftir að hafa talað við hana og hugsað málið aðeins ákvað ég að slá til. Það er frábært tækifæri að búa í nýju landi og æfa fótbolta við aðrar aðstæður. Það var til dæmis mjög notalegt að vakna í sól og blíðu í morgun! En ég vona aðallega að þetta verði reynsla sem muni nýtast mér í framtíðinni, bæði inni á vellinum með Gróttu og annars staðar í lífinu“
Fjallað er um félagaskiptin á vefmiðlinum TraniViva. Þar segir meðal annars: „Við erum sannfærð um að eiginleikar Tinnu sem framherja muni efla sóknarleik liðsins og hjálpa til við að ná settum markmiðum. Við bjóðum Tinnu hjartanlega velkomna til Trani“ 🇮🇹

Yfirlýsing aðalstjórnar Gróttu

Yfirlýsing aðalstjórnar Gróttu

Aðalstjórn Gróttu harmar þá ákvörðun almannavarna á höfuðborgarsvæðinu að útiloka börn og ungmenni frá því að geta stundað sína íþrótt með lokun íþróttamannvirkja á vegum sveitarfélaganna. Í fréttatilkynningu almannavarna segir m.a. að samfélagið eigi mikið undir því að takist að halda skólastarfi gangandi og að lögð sé áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli skóla.Það skýtur skökku við að slík tilkynning sé send út daginn eftir að stjórnvöld gáfu út nýja reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og breytingu á reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, þar sem opnað er fyrir að íþróttafélög geti hafið æfingar að nýju með takmörkunum, sem meðal annars lúta að því að ekki verði blöndun milli skóla. Aðalstjórn Gróttu hefur fullan skilning á mikilvægi þess að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið, eins og fram kemur í yfirlýsingu almannavarna.

Það liggur hins vegar fyrir að sóttvarnarlæknir hefur lýst yfir að smitleiðni barna sé mun minni en fullorðinna og að börn sem greinst hafa jákvæð með veiruna virðast almennt ekki fá alvarleg einkenni. Þá er þátttaka barna í íþróttum mikilvægur þáttur í daglegri rútínu þeirra, styrkir félagsleg tengsl, stuðlar að andlegu jafnvægi, dregur úr kvíða og styður við almennt heilbrigði og lýðheilsu. Gerðar hafa verið rannsóknir á mikilvægi skipulagðs íþróttastarfs fyrir vöxt og vellíðan barna hér á landi.Börn í skólum blandast á milli bekkja og jafnvel árganga í frímínútum. Þá blandast börnin jafnframt á milli skóla í leik utan skólatíma víða á höfuðborgarsvæðinu, s.s. á íþrótta- og leiksvæðum, sparkvöllum o.s.frv., en þar eru engar sóttvarnir viðhafðar. Þetta er iðulega sá tími dags sem þau væru annars að æfa sína íþrótt undirsett stífum sóttvarnareglum.

Deildir Íþróttafélagsins Gróttu hafa sett sér skýrar sóttvarnarreglur, sem áhersla er á að sé fylgt eftir í einu sem öllu. Þjálfarar nota grímur og viðhafa fjarlægðarmörk sín á milli og iðkendur spritta sig fyrir og eftir æfingar í íþróttasal. Ekki er vitað til þess að smit hafi komið upp í íþróttastarfi Gróttu frá því að starfsemin hófst á ný eftir lokun í byrjun maí og þar til starfsemin var stöðvuð aftur 8. október síðastliðinn. Ítrekaðar lokanir á íþróttastarfi barna, eins og börn á höfuðborgarsvæðinu eru nú að upplifa eru líklegar til að ýta undir brottfall úr íþróttum, sem aftur er líklegt til að hafa áhrif á heilsu þeirra til lengri tíma og þar með samfélagsleg áhrif. Það stenst heldur ekki skoðun að leyfa íþróttastarf fullorðinna, s.s. í heilsuræktarstöðvum, en loka fyrir íþróttastarf barna á sama tíma. A.m.k. hafa ekki verið gefnar trúverðugar skýringar á því ósamræmi sem þarna birtist, börnum og ungmennum í óhag. Er þess óskað að almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu endurskoði afstöðu sína, til samræmis við gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra.

Hugarfarmyndbönd Gróttu

Við fengum Önnu Lilju Björnsdóttir til að deila með iðkendum og foreldrum nokkrum hugleiðingum. Um er að ræða þrjú myndbönd, umfjöllun um leiðtoga, liðsfélaga og lífið sjálft sem hægt er að fylgja eftir með verkefnum úr myndböndunum.

Halda áfram að lesa