Handbolta- og Afreksskóli Gróttu – síðasta námskeið er í næstu viku.

Síðasta námskeið í handboltaskóla Gróttu er í næstu viku.  
Skólinn er kl. 09:00-12:00 en boðið er upp á ókeypis gæslu frá kl. 08:00 og til kl. 13:00.

Handboltaskólinn er fyrir krakka f. 2016 – 2011 og verður vel tekið á móti öllum byrjendum. Þátttakendum verður skipt upp eftir aldri.

Afreksskóli Gróttu
Lokanámskeið Afreksskóla Gróttu er einnig í næstu viku. 

Afreksskólinn er fyrir krakka fædda 2007 – 2010 eða þá iðkendur sem munu verða í 5. og 4.flokki á næsta tímabili.
Afreksskólinn er kl. 12:30-14:00 á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum og fer fram Íþróttahúsi Gróttu. Líkt og undanfarin ár starfa frábærir þjálfarar við skólann. Í Afreksskólanum er farið dýpra í handboltafræðin en í Handboltaskóla Gróttu.

Verð:
Handboltaskóli Gróttu (2011-2016) > Vika 3 (15 – 19.ágúst) – 7000 kr
Afreksskóli Gróttu (2007-2010) > Vika 3 (15-18 ágúst) –  5500 kr. 

Skráning í Handboltaskóla og Afrkesskóla Gróttu fer fram hérna:

www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Katrín Anna og U18 ára landsliðið í 8.sæti á HM

Undanfarna daga og vikur hefur U18 ára landsliðs kvenna staðið í ströngu á HM í Norður-Makedóníu. Katrín Anna Ásmundsdóttir úr Gróttu lék á mótinu og stóð sig frábærlega líkt og liðið í heild sinni. Í riðlakeppninni vann Ísland tvo leiki gegn Svíum og Alsíringum og gerði jafntefli við Svartfjallaland. Í milliriðlum vann liðið báða sína leiki gegn heimasætunum í Norður-Makedóníu og Íran.

Með þeim úrslitum var liðið komið í 8 liða úrslit og lék háspennuleik gegn Hollendingum. Því miður tapaðist sá leikur með minnsta mun og liðið lék því um 5. – 8.sæti. Þar voru Frakkar sterkari í fyrri leiknum en í leiknum um 7.sætið þurfti vítakeppni að skera út um sigurvegara. Ísland beið lægri hluti og 8.sætið staðreynd sem er besti árangur sem íslenskt kvennalandslið hefur náð á HM.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju stelpur og þjálfarar!

Myndir: HSÍ og IHF

Drulluhlaup Krónunnar

Drullu- og hindrunarhlaup Krónunnar er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ og 100 ára afmæli UMSK. 
Drulluskemmtilegt hlaup þar sem fjölskyldan vinnur saman að því að komast í mark í skítugasta hlaupi ársins í Mosfellsbæ.  

HVAR: Íþróttamiðstöðinni Varmá Mosfellsbæ.
DAGSETNING: Laugardagur 13. ágúst 2022. 
HVENÆR: Kl. 11:00 – 14:00.
HLAUPALEIÐ: Leiðin er samtals 3km og inniheldur 21 hindrun. 
UPPHAF: Við Íþróttamiðstöðina Varmá. 
ENDIR: Við Íþróttamiðstöðina Varmá. 
UMSJÓN: Ungmennafélagið Afturelding, frjálsíþróttadeild ásamt UMSK.

SMELLTU HÉR TIL ÞESS AÐ SKRÁ Þig til leiks.

https://hlaup.is/vidburdir/drulluhlaup-kronunnar-13-08-2022/

 FYRIR HVERJA ER VIÐBURÐURINN?
Viðburðurinn er fyrir alla fjölskylduna og eða einstaklinga þar sem tíminn skiptir ekki máli heldur að komast í gegnum allar hindranirnar á leiðinni. Áhersla er lögð á skemmtilega hreyfingu, gleði og samvinnu. 

HVERNIG FER VIÐBURÐURINN FRAM?
Hlaupaleiðin er drulluskemmtileg og krefjandi en hringurinn er 3,5 km langur með fjölda hindrana sem þarf að yfirstíga. Fjölskyldur hlaupa saman og hjálpast að við að komast í gegnum hindranirnar eða leysa saman þrautirnar. Hlaupaleiðin er skemmtileg og krefjandi en þó eiga allir, 8 ára og eldri, að komast í gegnum hana með aðstoð foreldra og/eða forráðarmanna. 

30 manna hópar verða ræstir út með 5 mínútna millibili frá kl. 11:00 – 14:00. Við skráningu fá þátttakendur úthlutaðum tíma. Rás- og endamark er staðsett við Íþróttahúsið við Varmá og þar mun ríkja partýstemning frá því að hlaupið hefst og þar til því er lokið. Þar verður hægt að hvetja keppendur áfram og njóta samverustundar með fjölskyldum og vinum. 

HVAÐ KOSTAR AÐ TAKA ÞÁTT? 

Þátttökugjald er 2.500kr. pr. þátttakanda í fjölskylduhlaupi. Hámark er 6.000kr. á fjölskyldu. 

CRAFT er nýr búningastyrktaraðili Gróttu

Íþróttafélagið Grótta hefur samið við New Wave Iceland um að félagið noti CRAFT íþróttafatnað næstu fjögur árin.  Félagið fór í stórt útboð síðastliðinn vetur og niðurstaðan var að semja við New Wave Iceland en strax frá upphafi sýndi fyrirtækið mikinn áhuga að semja við okkur. Með tilkomu samningsins verður New Wave Iceland einn af aðal styrktaraðilum Íþróttafélagsins Gróttu.

Íþróttafélagið Grótta þakkar Errrea á Íslandi fyrir frábært samstarf undanfarin 14 ár en Grótta hefur spilað í Errea fatnaði frá haustinu 2008. 

Haraldur Jens Guðmundsson, framkvæmdastjóri New Wave Iceland er hæstánægður með nýja samninginn: „Við hjá New Wave Iceland erum afar ánægð að hafa náð saman við Gróttu um samstarf næstu fjögur árin þar sem Grótta æfir og keppir í fatnaði frá Craft.  Grótta er öflugt félag sem við erum stolt af að geta stutt við bakið á næstu árin og hlökkum við mikið til samstarfsins.”

Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Gróttu hafði þetta að segja eftir undirritun samningsins: „Um leið og við þökkum Errea fyrir áralangt farsælt samstarf hlökkum við mikið til samstarfsins við Craft. Samningurinn er einn stærsti heildarsamningur sem félagið hefur gert frá upphafi. Vöruúrval Craft er mikið og spennandi tímar framundan í samvinnu Gróttu og Craft.”

Craft er alþjóðlegt íþróttavörumerki sem hóf starfsemi 1977 og framleiðir í dag hágæða fatnað fyrir flestar íþróttir sem hafa notið mikilla vinsælda um langt skeið.  Craft er í eigu New Wave Group sem er móðurfélag dreifingaraðila Craft á Íslandi, New Wave Iceland.  Á síðustu árum hefur Craft haslað sér völl á liðamarkaðnum með frábærum árangri þar sem má telja fjölda landsliða og félagsliða sem hafa kosið að leika í Craft sbr. sænsku knattspyrnuliðin Hammarby IF og IFK Gautaborg, sænska handboltalandsliðið og sænska landsliðið í fimleikum. 

Andlát – Ásmundur Einarsson

Það voru miklar sorgarfregnir sem bárust okkur Gróttufólki sunnudaginn 24. júlí síðastliðinn að Ásmundur Einarsson hafi verið bráðkvaddur langt fyrir aldur fram. Ásmundur eða Ási eins og hann var jafnan kallaður vann fyrir handknattleiksdeild Gróttu um árabil bæði í barna- og unglingaráði og nú síðast sem formaður handknattleiksdeildar félagsins. Ási hefur einnig verið lykilmaður í undirbúningi og umgjörð nánast allra heimaleikja Gróttu undanfarin ár. Ása verður sárt saknað í starfi félagsins.

Íþróttafélagið Grótta vottar fjölskyldu, ættingjum og vinum samúð sína og minnir um leið á styrktarsjóð barna hans: 0370-13-011901, kt. 180282-4839.

Handboltaskóli Gróttu í ágúst

Líkt og undanfarin ár verður handboltaskóli Gróttu á sínum stað. Skólinn er haldinn dagana 2. – 19.ágúst en hægt er að skrá sig á einstakar vikur. Skólinn er kl. 09:00-12:00 en boðið er upp á ókeypis gæslu frá kl. 08:00 og til kl. 13:00.

Handboltaskólinn er fyrir krakka f. 2016 – 2011 og verður vel tekið á móti öllum byrjendum. Þátttakendum verður skipt upp eftir aldri.

Undanfarin ár hefur Handboltaskólinn verið vel sóttir enda markar hann upphaf handboltatímabilsins. Skólastjóri skólans er Maksim Akbachev yfirþjálfari en auk hans mun Andri Sigfússon, Birgir Steinn Jónsson, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir, Edda Steingrímsdóttir, Patrekur Pétursson Sanko koma að þjálfuninni auk annarra góðra þjálfara hjá deildinni.

Verð:

Vika 1 (2. – 5.ágúst) – 5500 kr
Vika 2 (8. – 12.ágúst) – 7000 kr
Vika 3 (15 – 19.ágúst) – 7000 kr

Allar vikurnar (2. – 19.ágúst) – 18.000 kr

Skráning í Handboltaskóla Gróttu fer fram hérna:

www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Afreksskóli Gróttu 2. – 18.ágúst

Líkt og Handboltaskóli Gróttu hefst eftir verslunarmannahelgina, þá hefst Afreksskóli Gróttu á sama tíma. Afreksskólinn er fyrir krakka fædda 2007 – 2010 eða þá iðkendur sem munu verða í 5. og 4.flokki á næsta tímabili.

Afreksskólinn er kl. 12:30-14:00 á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum og fer fram Íþróttahúsi Gróttu. Líkt og undanfarin ár starfa frábærir þjálfarar við skólann. Í Afreksskólanum er farið dýpra í handboltafræðin en í Handboltaskóla Gróttu.

Skráningin fer fram hérna: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Tveir leikmenn Gróttu og þjálfarinn í úrvalsliðinu

Grótta á tvo fulltrúa í úrvalsiði fyrri hluta Lengjudeildarinnar ásamt því að þjálfari fyrri hlutans er þjálfari Gróttu, Chris Brazell!
Kjartan Kári Halldórsson var valinn leikmaður fyrri hlutans en þessi 19 ára Seltirningur er langmarkahæstur í deildinni með 12 mörk. Fyrirliði Gróttu, Arnar Þór Helgason, er einnig í úrvalsliðinu í hjarta varnarinnar.
Grótta situr eins og stendur í 2. sæti Lengjudeildarinnar og er næsti leikur hjá drengjunum á laugardaginn þegar þeir halda til Ísafjarðar og mæta Vestra.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson

5. flokkur karla á N1 mótinu

5. flokkur karla hélt á hið víðfræga N1 mót á Akureyri í lok júní eins og vaninn hjá Gróttu er. Grótta fór með fjögur lið á mótið sem fór fram 29. júní til 2. júlí. Mikil eftirvænting hafði verið fyrir mótinu hjá drengjunum eins og eðlilegt er, enda hápunktur fótboltasumarsins. Öll liðin upplifðu töp og sigra og eitt og annað sem fór í reynslubankann. Eitt Gróttuliðið fór heim með bikar að móti loknu eftir að hafa lent í 3. sæti í Brasilísku-deildinni sem uppskar mikla gleði!
Annað Gróttulið komst í undanúrslit í Kólumbísku-deildinni en komst því miður ekki lengra en það. Strákarnir fóru þó sáttir heim eftir skemmtilega dvöl á Akureyri í góðra vina hópi þar sem fótbolti var spilaður fram á kvöld og ógleymanlegar minningar skapaðar.