Domino´s og Grótta áfram í samstarfi

Handknattleiksdeild Gróttu og Domino´s Pizza hafa endurnýjað samstarfið til næstu þriggja ára. Það var Ásmundur Atlason markaðsstjóri Domino´s Pizza og Arnkell Bergmann Arnkelsson sem skrifuðu undir samninginn í hálfleik á leik Gróttu og HK í Olísdeild karla í gærkvöldi.

Domino´s Pizza þarf vart að kynna fyrir Íslendingum en fyrsta verslunin var stofnuð 1993 á Grensásveginum. Núna eru 22 verslanir um allt land.

Domino´s Pizza veitir Gróttufólki 30% afslátt af öllum sóttum pizzum á matseðli Domino’s þegar pantað er á netinu eða með appi. Kóðinn er: Grótta22 og virkar hann ekki með öðrum tilboðum. Lágmarkspöntun er 1.000 kr fyrir afslátt.

Handknattleiksdeild Gróttu hlakkar mikið til áframhaldandi samstarfs við Domino´s Pizza.

„Árangurinn kom mér ekki á óvart“

Viðtal við Pétur Rögnvaldsson 

Í gær var greint frá því að Pétur Rögnvaldsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, hygðist taka sér frí frá þjálfun eftir farsælt níu ára starf fyrir Gróttu. Við heyrðum hljóðið í Pétri og spjölluðum um frábæran árangur sumarsins hjá stelpunum og tíma hans hjá Gróttu. 

Grótta endar í fjórða sæti Lengjudeildarinnar og voru aðeins einum sigri frá því að fara upp um tvær deildir á tveimur árum. Kom þessi árangur þér á óvart? 

Nei hann gerði það í rauninni ekki. Jú kannski að við hefðum í lokaumferðinni spilað úrslitaleik um að komast upp í Bestu deildina – ég sá það kannski ekki fyrir – en þegar leið á undirbúningstímabilið var ég viss um að við gætum keppt við öll liðin í deildinni og endað í efri hlutanum. 

En hvað er það sem býr til svona árangur. Þið voruð jú nýliðar í deildinni eftir allt saman. 

Vissulega vorum við nýliðar en samt sem áður með mjög svipað lið og spilaði í deildinni árið 2021. Þá var kjarninn í liðinu mjög ungur og hann er í raun enn ungur en kominn með talsverða reynslu. Það voru gríðarleg vonbrigði að falla haustið 2021 en upp frá því fór að myndast þetta óútskýranlega hugtak sem kallast liðsheild og hún í bland við gæði leikmanna skapar öflugt lið. Samsetningin liðsins er sömuleiðis frábær – margar heimastelpur í bland við eldri stelpur sem hafa verið lengi í Gróttu. Að viðbættum öflugum nýjum leikmönnum og svo kornungum stelpum sem stíga upp í gott umhverfi. 

Hver er ástæðan fyrir því að þú stígur frá borði núna? 

Ástæðurnar eru í raun nokkrar. Og þetta er ákvörðun sem ég var nálægt því að taka fyrir tveimur árum en þá vorum við fallin. Maggi (Magnús Örn Helgason) var kominn í vinnu hjá KSÍ og ég vildi ekki skilja við liðið í 2. deild svo ég lét slag standa þegar mér var boðið að taka við. Það var því léttir þegar sæti okkar í Lengjudeildinni var tölfræðilega tryggt í ágúst og ég gat skilið sáttur við. En ein aðalástæðan er sú að ég get ekki varið eins miklum tíma og ég myndi kjósa í þjálfunina. Ég er í annarri vinnu og á næstu dögum stækkar fjölskyldan. Svo hefur líka áhrif að ég hef þjálfað nokkrar í liðinu í sjö til átta ár og þá er stundum óhjákvæmilegt að þjálfara-leikmanna sambandið komist á nokkurs konar endastöð. 

Er framtíðin sé björt í kvennaknattspyrnunni á Nesinu? 

Já hún er það, ef það verður áfram haldið vel á spöðunum – unnið af metnaði með sterka umgjörð í kringum liðið. Síðustu ár hefur verið unnið öflugt starf í yngri flokkunum og á bak við tjöldin í kringum báða meistaraflokka félagsins. Það einfaldlega skilar sér í uppöldum leikmönnum og góðri og jákvæðri stemningu. Kjarninn í Gróttuliðinu er enn að styrkjast og yngri stelpur að bætast við. Í sumar spilaði Aufí (Arnfríður Auður Arnarsdóttir) stórt hlutverk í liðinu 15 ára gömul og Rebekka (Sif Brynjarsdóttir) kom sterk inn á lokasprettinum aðeins 14 ára gömul. Tvær aðrar á 3. flokks aldri spiluðu með liðinu á undirbúningstímabilinu og það eru fleiri á leiðinni. Í stuttu máli þá hefur Gróttuliðið mikla möguleika á að verða enn betra á næstu árum.  

Að lokum – hvað er þér efst í huga þegar þú lítur til baka á árin níu sem þú þjálfaðir hjá Gróttu? 

Ótrúlegar minningar. Ég byrjaði að þjálfa 7. flokk kvenna með Jórunni (Maríu Þorsteinsdóttur) í janúar 2015. Mig minnir að Aufí hafi einmitt mætt á sína fyrstu eða aðra æfingu þegar ég byrjaði. Um sumarið hitti ég svo Rebekku sem var þá að æfa í 8. flokki hjá Bjössa (Birni Valdimarssyni) og fékk að spila með okkur á Símamótinu. Það var skemmtilegur endapunktur að þær tvær skildu hafa skorað í lokaleiknum á laugardaginn – fyrir framan troðfulla stúku á Vivaldivellinum. 

Eins og nefndi áðan var ég samferða 2003, 2004 og 2005 stelpunum í ansi mörg ár og það hefur verið gaman að fylgjast með þeim þroskast og þróast innan sem utan vallar. Grótta hefur sömuleiðis haft ótrúlega færa þjálfara við störf síðustu árin sem ég hef notið að starfa með, læra af og eignast góða vini. 

Vonbrigðatilfinningin sem maður hafði eftir leikinn á laugardaginn var óvanalega fljót að veikjast og upp úr stendur það sem liðinu tókst að áorka og allt sem ég hef fengið að taka þátt í með góðu fólki. Maður er bara með gleðitár í augum. 

Við þökkum Pétri kærlega fyrir spjallið og hans framlag til félagsins. Um leið óskum við þjálfurum og leikmönnum mfl. kvk innilega til hamingju með frábært sumar!

Pétur leggur þjálfaraskónna á hilluna í bili

Fyrir stuttu tilkynnti Pétur Rögnvaldsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, stjórn og leikmönnum að hann hygðist taka sér hvíld frá þjálfun eftir níu ára farsælt starf fyrir knattspyrnudeild Gróttu. Það verður sjónarsviptir af Pétri þar sem hann hefur verið einn burðarásanna í þjálfarahópi félagsins í uppbyggingarstarfi þess á síðustu árum. Drýgstan skerf hefur Pétur þó lagt af mörkum til uppbyggingar kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum.


Pétur hóf störf hjá knattspyrnudeild Gróttu í ársbyrjun 2015 og hefur starfað þar óslitið síðan. Hann þjálfaði bæði stelpur og stráka í yngri flokkunum og þar af fjögur ár í eldri flokkum kvenna. Fyrst 4. flokk Gróttu/KR tímabilin 2016 og 2017 og síðar 3. flokkinn í tvö ár við góðan orðstír. Í ársbyrjun 2019 tók hann við sem aðstoðarþjálfari Magnúsar Arnar Helgasonar hjá meistaraflokki kvenna í Gróttu sem þá lék í 2. deild. Tveimur árum síðar steig hann upp að hlið Magnúsar sem aðalþjálfari liðsins. 


Eftir dramatískt fall í 2. deild haustið 2021 tók Pétur við sem aðalþjálfari enda hafði uppbygging gengið vel og allar forsendur til að fara rakleiðis aftur upp í Lengjudeildina. Það tókst Gróttukonum með Pétur í brúnni í fyrra og í sumar náði liðið besta árangri í sögu meistaraflokks kvenna. Eins og kunnugt er spilaði Grótta hreinan úrslitaleik við Fylki um sæti í Bestu deildinni fyrir framan 800 áhorfendur á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september. Eftir jafnan leik hafði Fylkir sigur en sú niðurstaða varpar ekki skugga á stórkostlegan árangur Gróttuhópsins. 


Gróttufólk þakkar Pétri ómetanlegt starf í þágu knattspyrnudeildar og félagsins. Það er ekki ofsagt að hann hafi gegnt lykilhlutverki í starfinu; borið hag félagsins fyrir brjósti, alltaf með hjartað á réttum stað og hugann við að byggja upp heilsteypta einstaklinga og öfluga liðsheild. Jafnframt óskum við Pétri velfarnaðar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og bjóðum hann velkominn í bakvarðasveitina!

Gróttukonur enda í 4. sæti Lengjudeildarinnar eftir frábært sumar

Grótta mætti Fylki á Vivaldivellinum laugardaginn 9. september í hreinum úrslitaleik um hvort liðið myndi komast upp í Bestu deildina að ári. Fáir höfðu spáð því fyrir tímabilið að Grótta yrði í þessari stöðu, liðið nýkomið upp úr 2. deild eftir stutt stopp þar síðasta sumar, en liðið sýndi svo sannarlega í sumar hvað í þeim býr. Grótta komst yfir gegn Fylki á ’23 mínútu með frábæru skallamarki frá hinni 15 ára Arnfríði Auði Arnarsdóttur, betur þekktri sem Aufí. Fylki tókst að jafna metin á ’54 mínútu og stuttu síðar skoruðu þær sitt annað mark. Grótta jafnaði metin á ’73 mínútu eftir að hin 14 ára Rebekka Sif Brynjarsdóttir lét vaða fyrir utan teig og skoraði geggjað mark fyrir Gróttu en hún var aðeins búin að vera inná í nokkrar mínútur þegar hún skoraði. Því miður tókst Fylkiskonum að komast yfir á ný á ’84 mínútu og endaði leikurinn 2-3 fyrir Fylki sem tryggðu sér þar með sæti í Bestu deildinni að ári. Leikurinn var gríðarlega spennandi og var frábær mæting á völlinn. Umgjörðin í kringum leikinn var fyrsta flokks og stóðu sjálfboðaliðar Gróttu í ströngu til að gera hana sem allra flottasta, eins og sást vel. Gróttukonur mega svo sannarlega ganga stoltar frá borði eftir frábært sumar þar sem þær náðu besta árangri kvennaliðs Gróttu frá upphafi. Þrátt fyrir tapið á laugardaginn er hægt að fagna mörgu – í leiknum skoruðu tvær ungar og efnilegar Gróttukonur sem eiga framtíðina fyrir sér, liðið hefur aldrei endað jafn ofarlega í Lengjudeildinni og fengið jafn mörg stig né skorað jafn mörg mörk og í ár og aldrei hefur verið jafn vel mætt á leik hjá kvennaliðinu líkt og á laugardaginn. Það má einnig nefna það að Grótta átti markahæsta leikmann Lengjudeildarinnar, en Hannah Abraham skoraði 16 mörk fyrir Gróttu í sumar og er markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar!

Meistaraflokkur kvenna þakkar fyrir stuðninginn í sumar og hlakkar til að sjá sem flesta á vellinum í Lengjudeildinni á næsta ári.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Fyrstu A-landsleikir Orra Steins 

Orri Steinn Óskarsson lék sinn fyrsta A-landsleik þegar Ísland mætti Lúxemborg í undankeppni EM 2024 föstudaginn 8. september. Orri kom inn á í hálfleik en leikurinn tapaðist 1-3. Orri var síðan í byrjunarliði Íslands á Laugardalsvelli mánudaginn 11. september þegar liðið tók á móti Bosníu og Hersegóvínu. Ísland vann dramatískan 1-0 sigur en Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands í uppbótartíma. Orri Steinn spilaði allan síðari leikinn og stóð sig gríðarlega vel! Hákon Rafn Valdimarsson var einnig í landsliðshópnum og var á bekk Íslands í báðum leikjunum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af Orra og Hákoni og óskum við Orra Steini innilega til hamingju með fyrstu landsleikina! Svo sannarlega frábærar fyrirmyndir fyrir unga Gróttukrakka!

Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir 

Æfingar 9.flokks að hefjast

Handknattleiksdeild Gróttu er að hefja aftur æfingar fyrir krakka á leikskólaaldri fædda 2018 og 2019. Æfingarnar eru á laugardögum kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfari flokksins er Ingi Þór Ólafson ásamt aðstoðarþjálfurum.

Þarna gefst krökkum á leikskólaaldri að kynnast handbolta með reglubundnum æfingum einu sinni í viku. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu. Fyrsta æfing verður 2.september. Við hvetjum alla til prófa.

Skráning fer fram í Sportabler sportabler.com/shop/grotta/handbolti og er verðið fyrir haustönnina 23.400 kr. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á netfangið magnuskarl@grotta.is.

Æfingatafla knattspyrnudeildar 2023-2024

Vetraræfingatafla knattspyrnudeildar tekur gildi mánudaginn 28. ágúst. Iðkendur í 5.-2. flokki halda áfram að æfa með þeim flokki sem þau voru með í sumar þangað til Íslandsmótin klárast, en 2013 árgangurinn bætist við í 5. flokki.

Halda áfram að lesa

ÆFINGATAFLA VETRARINS TILBÚIN

Æfingar hjá yngri flokkum Gróttu (5. – 8.flokki) hefjast samhliða skólabyrjun eða þriðjudaginn 22.ágúst. Æfingar 3. og 4.flokks hafa verið frá byrjun ágúst. Núna í ágústmánuði hefur Handboltaskóli Gróttu og Afreksskóli Gróttu verið starfræktur. Seinasti dagur námskeiðsins er á morgun, mánudaginn 21.ágúst.

Allar upplýsingar um 9.flokkinn verða tilkynntar í næstu viku. Æfingar 9.flokks hefjast laugardaginn 2.september.
Búið er að ráða alla aðalþjálfara handboltans fyrir tímabilið og mun öflugur hópur þjálfara vera við störf hjá deildinni í vetur.

  • 8. flokkur karla – Magnús Karl Magnússon
  • 8. flokkur kvenna – Arndís María Erlingsdóttir og Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir
  • 7. flokkur karla – Hannes Grimm
  • 7. flokkur kvenna – Ari Pétur Eiríksson
  • 6. flokkur karla Hannes Grimm
  • 6. flokkur kvenna – Ari Pétur Eiríksson
  • 5. flokkur karla – Elvar Orri Hjálmarsson
  • 5. flokkur kvenna – Patrekur Pétursson Sanko
  • 4. flokkur karla – Andri Sigfússon
  • 4. flokkur kvenna – Magnús Karl Magnússon
  • 3. flokkur karla – Andri Sigfússon
  • 3. flokkur kvenna – Einar Örn Jónsson
  • Ungmennalið karla – Davíð Örn Hlöðversson

Allar fyrirspurnir um handboltastarfið er hægt að nálgast hjá Magnúsi Karli Magnússyni yfirþjálfara deildarinnar á netfanginu magnuskarl@grotta.is

Áfram Grótta og Grótta/KR !

Katrín Anna á EM í Rúmeníu

Sumarið var viðburðaríkt hjá Katrínu Önnu Ásmundsdóttur. Í júní fór hún ásamt U19 ára landsliðinu til Færeyja og lék tvo vináttulandsleiki við heimakonur. Fyrri leiknum lauk með sigri 29-26 en síðari leiknum lauk með tapi 25-31. Leikirnir voru mikilvægir í undirbúningi liðsins fyrir EM í Rúmeníu í júlí.

U19 ára landsliðið var í erfiðum riðli á EM. Liðið beið lægri hlut gegn Rúmeníu, Þýskalandi og Portúgal í riðlakeppninni en var grátlega nálægt sigri í leiknum gegn Þjóðverjum. Í keppninni um 13. – 24.sætið byrjaði liðið á ósigri gegn Hollandi en vann síðan alla leikina sem komu í kjölfarið; gegn Króatíu, Norður Makedóníu og Serbíu og 13.sætið staðreynd. Katrín Anna átti frábært mót og skoraði 32 mörk. Hún var einnig valin maður leiksins í leiknum gegn Króatíu.

Með þessum úrslitum tryggði íslenska liðið sér keppnisrétt á HM á næsta ári en mótið fer fram í Norður Makedóníu.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju U19 kvenna og þjálfarar !

Myndir: EHF og HSÍ