Æfingar að hefjast

Æfingar allra flokka hefjast fimmtudaginn 22.ágúst samkvæmt æfingatöflu vetrarins. Við bjóðum öllum krökkum og unglingum velkomna á æfingar. Það kostar ekkert að prófa. Þjálfarar deildarinnar taka vel á móti krökkunum.

Allar æfingarnar eru komnar í Sportabler.

Upplýsingar um þjálfara má finna á heimasíðu Gróttu, https://grotta.is/handknattleiksdeild/thjalfarar/

Skráning í handboltastarfið er í fullum gangi en beinn hlekkur er hér: https://www.abler.io/shop/grotta/handbolti

Ef það eru einhverjar spurningar um starfið, þá hafið endilega samband við Andra Sigfússon yfirþjálfara á andri@grotta.is

Sjáumst í handbolta í vetur !

Handboltaæfingar 9.flokks

Handknattleiksdeild Gróttu er með æfingar fyrir krakka á leikskólaaldri fædda 2019 og 2020. Æfingarnar eru á laugardögum kl. 09:15-10:00 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfari er Eva Björk Hlöðversdóttir.

Á æfingunum gefst krökkum á leikskólaaldri að kynnast handbolta með reglubundnum æfingum einu sinni í viku. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu. Fyrsta æfing verður 7.september. Við hvetjum alla til prófa. Frítt verður að prófa fyrstu æfingar.

Skráning fer fram í Sportabler, https://www.abler.io/shop/grotta/handbolti og er verðið fyrir haustönnina 25.900 kr. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á netfangið andri@grotta.is.

Samstarfi við KR slitið

Fyrr í dag var okkur í stjórn knattspyrnudeildar Gróttu tilkynnt um að stjórn knattspyrnudeildar KR hefði ákveðið að slíta samstarfi við Gróttu í 2., 3. og 4. flokki kvenna. Ávörðunin tekur gildi frá og með lokum keppnistímabils í Íslandsmóti. Þessi ákvörðun var tilkynnt án nokkurs fyrirvara og kemur okkur á óvart. Að okkar mati hefur samstarfið borið góðan ávöxt hingað til og skapað svigrúm til að veita sem flestum iðkendum verkefni við hæfi.

Knattspyrnudeild Gróttu mun halda sínu striki og starfrækja alla yngri flokka kvenna á komandi tímabili þar sem haldið verður áfram að byggja ofan á það frábæra starf sem unnið hefur verið í kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi. Eins og kunnugt er er meistaraflokkur kvenna í toppbaráttu í Lengjudeildinni annað tímabilið í röð og uppaldar Gróttustelpur hafa skilað sér upp í liðið nær árlega. Og við erum rétt að byrja. Tilkynnt verður um þjálfara og æfingatíma á næstunni. Allt kapp verður lagt á að byggja upp sterka einstaklinga og frambærilegar knattspyrnukonur til framtíðar.

Við þökkum nágrönnum okkar í KR fyrir samstarfið og óskum félaginu velfarnaðar.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Gróttu mun boða foreldra í viðeigandi flokkum á upplýsingafund í næstu viku þar sem farið verður betur yfir næstu skref.

Virðingarfyllst,

Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu

Hættum ekki fyrr en lokaflautið gellur

Viðtal við Grím Inga Jakobsson leikmann meistaraflokks

Miðjumaðurinn knái Grímur Ingi Jakobsson framlengdi á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út keppnistímabilið 2027. Grímur sneri aftur á Vivaldivöllinn í ársbyjun 2023 eftir tveggja ára dvöl hjá KR og KV. Fyrstu skrefin í fótboltanum voru stigin hjá Val en eftir að Grímur flutti á Seltjarnarnes ásamt fjölskyldu sinni árið 2014 lá leiðin fljótlega í Gróttu. Grímur lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Gróttu aðeins 14 ára gamall og er þrátt fyrir ungan aldur búinn að spila 89 keppnisleiki í meistaraflokki! Þar að auki hefur Grímur spilað 14 leiki með yngri landsliðum Íslands. 

Við settumst niður með Grími nú fyrir helgina og fórum um víðan völl: 

Við byrjum á máli málanna – Gróttuliðið er í bullandi fallbaráttu þegar fimm leikir eru eftir. Hefur þetta bras komið ykkur strákunum í liðinu á óvart eða áttu menn von á erfiðu sumri?

Já það kemur okkur strákunum á óvart að við séum í þessari stöðu sem við erum í. Við vitum hvað við getum og þetta var auðvitað ekki planið fyrir tímabilið. En eins og fótboltinn er skemmtilegur þá getur hann líka verið erfiður og við verðum bara að virða þessa stöðu sem við erum í. Það er enginn sem getur breytt þessu nema við og það ætlum við sannarlega að gera. 

Getur Grótta haldið sér í deildinni? 

Já við trúum því sem lið að það sé allt hægt í fótbolta. Við allir sem einn þurfum að leggja allt í sölurnar í þessa síðustu leiki og bakka hvorn annan upp allann tímann. Þá trúum við að við getum búið til einhverja fallega sögu. Við hættum ekki fyrr en lokaflautið gellur. 

Þá að þér sjálfum. Ertu ánægður með eigin spilamennsku eftir að þú snerir aftur í Gróttu snemma á síðasta ári? Er eitthvað sem þú vilt bæta þig í á komandi árum

Ég hef fengið frábæra þjálfun hjá Gróttu síðan ég kom. Ég sem leikmaður veit hvað ég get í fótbolta, ég er mikilvægur fyrir liðið og liðsfélgar mínir trúa á mig. Auðvitað hafa komið kaflar þar sem ég hefði viljað spila betur, en að sama skapi er ég ennþá að læra sem leikmaður. Auðvitað er rúm fyrir bætingar hjá mér, maður getur alltaf gert meira og betur. Ég veit að ég er í þannig umhverfi hjá Gróttu að ég get bætt mig sem leikmann og einstakling.

Fyrir utan að spila með meistaraflokki er Grímur aðstoðarþjálfari hjá 3. flokki karla og stýrði knattspyrnuskóla Gróttu í sumar. Við spyrjum hvernig Grímur finni sig í þjálfarahlutverkinu? Sömuleiðis væri gaman að vita hverjir séu styrkleikar Gróttu sem félags og hvað þurfi að vera til staðar hjá félaginu til að ná árangri næstu árin?

Mér finnst mjög gaman að þjálfa og er stoltur að vera partur af því frábæra þjálfarateymi sem Grótta er með. Ég hef lært mikið af mínum samþjálfurum sem eru mjög hæfileikaríkir og viljugir til að hjálpa öllum að verða góðir leikmenn. Við eigum mikið af ungu efnilegu Gróttufólki sem er dýrmætt að halda vel utan um og mikilvægt er að öllum líði vel. Grótta er eins og ein stór familía, hérna eru allir vinir. Helstu gildi Gróttu eru trú vilji og hugrekki og ef þessi gildi eru til staðar hjá öllum ásamt samheldni þá trúi ég að það geti leitt Gróttu á fleiri spennandi brautir. 

Við þökkum Grími kærlega fyrir spjallið en spyrjum að lokum hvort hann hafi einhver skilaboð til Gróttufólks. 

Skilaboðin mín eru einföld: Verum stolt af því að halda með Gróttu. Ég held að ég tali fyrir hönd beggja meistaraflokka að við þurfum ykkar stuðning restina af tímabilinu. Við strákarnir í okkar bárattu og einnig kvennaliðið sem er á blússandi siglingu um að komast í deild þeirra bestu. Við þurfum á ykkur að halda Gróttufólk bæði smá sem stór að mæta á völlinn þið eruð 12 maðurinn okkar.

Nýr framkvæmdastjóri fimleikadeildar

Fimleikadeild Gróttu hefur ráðið Guðrúnu Jónu Stefánsdóttur sem framkvæmdastjóra Fimleikadeildar en hún hóf störf þann 1. ágúst síðastliðinn. Guðrún hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í fimleikum. Sjálf æfði Guðrún fimleika í 15 ár og hefur þjálfað fimleika til fjölda ára, og eins á hún þrjú börn sem æfa hjá Fimleikadeild Gróttu. Guðrún hlaut tilnefninguna sjálfboðaliði ársins hjá Fimleikadeild Gróttu árið 2023 fyrir ómetanlegt framlag hennar til deildarinnar. Guðrún er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun og starfaði nú síðast sem sérfræðingur í mannauðsmálum hjá PLAY. Fimleikadeild Gróttu óskar Guðrúnu hjartanlega velkomna til félagsins og hlakkar til komandi samstarfs.

Hansína Þóra Gunnarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Gróttu hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa. Hansína hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Fimleikadeildar frá því haustið 2023 og starfað sem þjálfari hjá félaginu í um 6 ár. Stjórn Fimleikadeildar Gróttu þakkar Hansínu kærlega fyrir frábært samstarf og óeigingjarnt starf síðustu misseri og óskar henni alls hins besta á nýjum vettvangi innan íþróttahreyfingar á Íslandi þar sem kraftar hennar munu sannarlega nýtast vel.

Handboltaskóli, afreksskóli og fókusþjálfun

Núna á næstu dögum hefst sumarstarf handboltans. Það verður ýmislegt í boði fyrir verðandi grunnskólaaldur. Öll námskeið fara fram í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi og eru viku í senn.

Handboltaskóli fyrir krakka f. 2013-2018
29. júlí – 21.ágúst
kl. 09:00-12:00
Skólastjóri: Patrekur Pétursson Sanko
Þjálfarar: Þjálfarar handknattleiksdeldar auk gestaþjálfara
Hægt að kaupa gæslu frá kl. 08:00-09:00 og frá 12:00-13:00

______________________________________________

Afreksskóli fyrir krakka og unglinga f. 2009-2012
6. ágúst – 21.ágúst
kl. 12:30-14:00
Skólastjóri: Patrekur Pétursson Sanko
Þjálfarar: Þjálfarar handknattleiksdeildar auk gestaþjálfara

______________________________________________

Fókusþjálfun fyrir krakka og unglinga f. 2008-2012
29. júlí – 1.ágúst
kl. 12:00-13:00
Umsjón og þjálfun: Tinna Jökulsdóttir

______________________________________________

Skráning í handbolta- og afreksskólann fer fram í gegnum Sportabler. Beinn hlekkur er hér: https://www.abler.io/shop/grotta/handbolti. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um skólana hjá Andri Sigfússyni yfirþjálfara á andri@grotta.is.

Skráning í Fókusþjálfun fer fram í gegnum Tinnu Jökulsdóttur, tinnaj@sjukrasport.is. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um Fókusþjálfunina í meðfylgjandi auglýsingu eða á https://www.instagram.com/fokusthjalfun

Gróttunámskeið í Fókusþjálfun

Grótta býður iðkendum sínum að taka þátt í spennandi námskeiði á vegum Fókusþjálfunar. Skemmtilegt námskeið þar sem farið er yfir liðkun, jafnvægi og snerpuæfingar. Einnig eru gerðar skemmtilegar boltaæfingar sem reyna á samhæfingu, athygli og víðsýni.

Námskeiðið verður í fjóra daga, mánudaginn 29.júlí til fimmtudagsins 1.ágúst. Námskeiðið fer fram í Hertz-höllinni.

Þjálfari námskeiðsins er Tinna Jökulsdóttir, eigandi Fókusþjálfunar, sjúkraþjálfari og fyrrum handboltakona. Hún er sjúkraþjálfari meistaraflokks kvenna í Stjörnunni og A-landsliðs kvenna í handbolta. Skráning fer fram á tinnaj@sjukrasport.is

Frekari upplýsingar um Fókusþjálfun má nálgast á instagram-síðunni https://www.instagram.com/fokusthjalfun

Óli í Gróttu

Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Hafsteinn Óli, eða Óli eins og hann er kallaður kemur úr herbúðum HK þar sem hann hefur leikið undanfarin þrjú árin. Óli lék eitt tímabil með Aftureldingu en er uppalinn hjá Fjölni í Grafarvogi. Þar var hann hluti af sigursælum 2000-árgangi sem urðu meðal annars bikar- og Íslandsmeistarar í 3.flokki.

Óli er hávaxinn og er örvhentur. Hann eykur breidd Gróttuliðsins hægra megin á vellinum en hann muna deila stöðunni með Ara Pétri Eiríkssyni.

Óli lék með öllum yngri landsliðum Íslands og var til dæmis hluti af U18 ára landsliðinu sem fékk silfur á EM í Króatíu.

„Það eru góð tíðindi að Óli sé kominn á Nesið. Það býr mikið í honum enda hæfileikaríkur leikmaður. Það er ekki eingöngu mikil skotógn af honum, heldur er hann afbragðs varnarmaður. Ég hlakka mikið til að vinna með honum á næstu tímabilum“, sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn.

Vertu velkominn í blátt, Óli !

Á myndinni má sjá Hafstein Óla með Hörpu Guðfinnsdóttur stjórnarkonu í stjórn Handknattleiksdeildar Gróttu.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson