Viltu gerast sjálfboðaliði í Gróttu?

Viltu gerast sjálfboðaliði í Gróttu ?  Viltu taka þátt í gefandi og skemmtilegum verkefnum sem tengjast íþróttaleikjum
eða öðrum verkefnum.  Viltu kynnast nýju fólki og nýjum viðfangsefnum?  Ertu hætt(ur) að vinna og vantar áhugaverð
og fjölbreytt verkefni til að verja tíma þínum í?  Vantar þig áhugamál?

Sjálfboðaliðastarf er hornsteinn og grundvöllur alls íþróttastarfs á Íslandi.  Íþróttafélagið Grótta treystir á óeigingjarnt vinnuframlag einstaklinga sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að byggja upp íþróttastarf fyrir unga sem aldna og halda því gangandi með dugnaði, eljusemi og ástríðu.

Hafir þú áhuga á að gerast sjálfboðaliði þá hvetjum við þig til að hafa samband við okkur með því að senda póst á grotta@grotta.is 

Ekki hika við að hafa samband.  Þér verður tekið fagnandi!

Kjartan Kári til Haugasund

Kjartan Kári Halldórsson og knattspyrnudeild Gróttu hafa gert samkomulag við norska úrvalsdeildarfélagið FK Haugesund um að Kjartan gangi til liðs við félagið. Haugesund endaði í 10. sæti norsku deildarinnar á liðnu tímabili en félagið hefur leikið í úrvalsdeildinni, Eliteserien, frá árinu 2010 og best náð þriðja sæti. 

Kjartan Kári, sem er 19 ára gamall, er fæddur og uppalinn Seltirningur og hefur leikið með Gróttu frá 5 ára aldri. Eftir að hafa farið í gegnum allt yngri flokka starf félagsins spilaði Kjartan sína fyrstu keppnisleiki með meistaraflokki sumarið 2020, þegar Grótta lék í úrvalsdeild, en var svo lykilleikmaður í liðinu ári síðar. Í sumar sprakk Kjartan út í Gróttuliðinu og varð markakóngur Lengjudeildarinnar með 17 mörk ásamt því að vera kosinn efnilegasti leikmaðurinn. 

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kjartan spilað 48 leiki í deild og bikar fyrir meistaraflokk Gróttu og skorað í þeim 29 mörk. Hann á einnig að baki 13 leiki fyrir yngri landslið Íslands og æfði á dögunum í fyrsta sinn með U21 árs landsliðinu. 

Grótta óskar Kjartani Kára og fjölskyldu hans innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans í Noregi

Grótta er fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Íþróttafélagið Grótta fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á fundi aðalstjórnar í vallarhúsi Gróttu miðvikudaginn 2. nóvember síðastliðinn.

Það var Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sem afhenti viðurkenningarnar til fulltrúa aðalstjórnar og allra deilda félagsins, þ.e. knattspyrnu-, handknattleiks- og fimleikadeildar. Félagið hlaut fyrst viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ árið 2005.

Á hópmyndinni eru frá vinstri, Andri Stefánsson, Guðjón Rúnarsson formaður fimleikadeildar, Arnkell Bergmann Arnkelsson formaður handknattleiksdeildar, Þröstur Þór Guðmundsson formaður Íþróttafélagsins Gróttu, Þorsteinn Ingason formaður knattspyrnudeildar og Gunnlaugur Jónsson íþróttastjóri félagsins.
Eyjólfur Garðarsson tók myndir við þetta tilefni.

„Við hjá Íþróttafélaginu Gróttu erum stolt og þakklát fyrir að fá viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélag. Það er afar mikilvægt fyrir félagið að ná þessu markmiði enda keppist Grótta við að vera til fyrirmyndar á öllum sviðum“, sagði Þröstur Þór formaður félagsins af þessu tilefni.

Kjartan Kári valinn í hóp U21 ára landsliðsins

Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari U21 karla, hefur valið hóp sem tekur þátt í æfingum dagana 3. og 4. nóvember. Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er í hópnum. Æfingarnar fara fram á Víkingsvelli og eru liður í undirbúningi liðsins fyrir vináttuleik gegn Skotlandi 17. nóvember ytra. Á æfingunum verða aðeins leikmenn sem leika á Íslandi, en lokahópur fyrir leikinn gegn Skotlandi verður tilkynntur síðar. Til hamingju Kjartan!

Orri Steinn yngsti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeildinni

Orri Steinn Óskarsson varð í gær yngsti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeild Evrópu!
Orri Steinn er leikmaður FC Kaupmannahafnar og hefur fengið tækifæri með aðalliðinu undanfarið eftir að hafa brillerað með U17 og U19 ára liðum liðsins síðan hann samdi við FCK árið 2020. Orri hefur komið inná í fjórum leikjum í deild og var í byrjunarliði í danska bikarnum um daginn. Orri kom inn af varamannabekknum í Meistaradeildinni í gær en mótherjar FCK voru Sevilla sem höfðu betur gegn danska liðinu. Orri er fæddur árið 2004 og var 18 ára og 57 daga gamall þegar hann spilaði í gær. Orri bætti met Skagamannsins Arnórs Sigurðssonar, en Arnór var 19 ára og 127 daga gamall þegar hann lék fyrir CSKA Moskvu gegn Viktoria Plzen árið 2018.
Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykin af frammistöðu Orra Steins og óskar honum innilega til hamingju og áframhaldandi velgengni.

Arnfríður Auður valin í æfingahóp fyrir úrtaksæfingar U16 kvenna í október

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið æfingahóp til að taka þátt í úrtaksæfingum dagana 24. – 26. október. Æft verður í Miðgarði, Garðabæ. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, er í þessum hóp en Aufí er einungis 14 ára gömul. Til æfinga að þessu sinni eru valdir 32 leikmenn frá 16 félögum. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykið af því að eiga fulltrúa í þessum hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum!

Herrakvöld Gróttu er 29. okt

Herrakvöld Gróttu verður haldið í hátíðarsalnum laugardagskvöldið 29 október. 

Geggjuð dagskrá er að taka á sig mynd, veislustjóri verður Gunnar á Völlum, Freyr Eyjólfsson verður með gamanmál og Þór Sigurgeirsson verður ræðumaður kvöldsins. 

Boðið verður upp á kótilettur og nóg af þeim. 

Miðasala er hafin á https://tix.is/is/event/14181/herrakvold-grottu/

Sara Björk í Póllandi með U15

Gróttukonan Sara Björk Arnarsdóttir tók nýverið þátt í UEFA development mótinu í Póllandi með U15 ára landsliðinu. Liðið lék þrjá leiki og fór með sigur í tveimur þeirra. Fyrsti leikurinn var gegn Tyrkjum og var Sara Björk í byrjunarliði Íslands sem fór með 5-2 sigur. Næsti leikur var gegn Póllandi en liðið tapaði 3-6 og kom Sara inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Í þriðja leik Íslands var Sara aftur í byrjunarliði og vann Ísland góðan 2-0 sigur gegn Litháen. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af því að eiga fulltrúa í U15 ára landsliðinu og óskar Söru innilega til hamingju með árangurinn!

Gróttukonur upp í Lengjudeildina!

Gróttukonur tryggðu sér í september sæti í Lengjudeildinni næsta sumar. Grótta endaði í 2. sæti 2. deildar kvenna með 34 stig og bestu markatölu deildarinnar! Þessum árangri var fagnað vel á Vivaldivellinum þegar lokaleikur stelpnanna fór fram föstudaginn 23. september. Til hamingju með árangurinn stelpur, þjálfarar og allir sem að liðinu koma! 

CRAFT VEFVERSLUN

Nú er samstarfið okkar við hið sænska fatamerki Craft komin í fullan gang. Fimleika- og handboltadeild hafa lokið mátunardögum en það er ekki orðið klárt hvernig búningamálum verður háttað hjá knattspyrnudeild. 

Ný vefverslun fyrri Craft hefur verið opnuð craftverslun.is og þar er að finna svæði tengt okkar vörum.