Gróttukonan Sara Björk Arnarsdóttir tók nýverið þátt í UEFA development mótinu í Póllandi með U15 ára landsliðinu. Liðið lék þrjá leiki og fór með sigur í tveimur þeirra. Fyrsti leikurinn var gegn Tyrkjum og var Sara Björk í byrjunarliði Íslands sem fór með 5-2 sigur. Næsti leikur var gegn Póllandi en liðið tapaði 3-6 og kom Sara inn á þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. Í þriðja leik Íslands var Sara aftur í byrjunarliði og vann Ísland góðan 2-0 sigur gegn Litháen. Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega stolt af því að eiga fulltrúa í U15 ára landsliðinu og óskar Söru innilega til hamingju með árangurinn!
2. flokkur karla upp um deild!
Það var frábær stemning á Vivaldivellinum og fjöldi fólks í stúkunni þegar 2. flokkur karla tryggði sér sæti í B-deild Íslandsmótsins í lok september. Andstæðingar Gróttu var lið KR2 sem tefldi fram nokkrum sterkum leikmönnum í leiknum, þar sem jafnræði var með liðunum fyrsta hálftímann. Grótta skoraði tvö mörk rétt fyrir leikhlé og í byrjun seinni hálfleiks gerðu strákarnir út um leikinn og komust í 4-0. Kjartan Kári Halldórsson var með tvö mörk, Benjamin Friesen með eitt og eitt markanna var sjálfsmark. Halldór Orri Jónsson skoraði rétt fyrir leikslok og tryggði Gróttu 5-0 sigur og mikil gleði braust út í leikslok. Í sumar hefur liðsheildin í 2. flokknum verið sterk og leikmenn A- og B-liðsins staðið vel við bakið hvor á öðrum. Við óskum strákunum og þjálfurum þeirra, Arnari Þór Axelssyni og Dominic Ankers, innilega til hamingju með árangurinn!
Gróttukonur upp í Lengjudeildina!
Gróttukonur tryggðu sér í september sæti í Lengjudeildinni næsta sumar. Grótta endaði í 2. sæti 2. deildar kvenna með 34 stig og bestu markatölu deildarinnar! Þessum árangri var fagnað vel á Vivaldivellinum þegar lokaleikur stelpnanna fór fram föstudaginn 23. september. Til hamingju með árangurinn stelpur, þjálfarar og allir sem að liðinu koma!