6. flokkur kvenna á Steinullarmóti Tindastóls

6. flokkur kvenna skellti sér á Sauðárkrók síðustu helgi og lék þar á Steinullarmóti Tindastóls. Grótta fór með 5 lið á mótið og stóðu stelpurnar sig ótrúlega vel. Miklar framfarir sáust í spilamennsku hjá Gróttustelpunum og var leikgleðin aldrei langt undan. Veðrið var frábært á Króknum og stemningin með eindæmum góð 🙌🏼
Næst á dagskrá hjá stelpunum er Símamótið sem fer fram næstu helgi í Kópavogi!

Elfa og Emma í Gróttu


Hin 19 ára gamla Elfa Mjöll Jónsdóttir skrifaði í vikunni undir samning við Gróttu en hún kemur til félagsins frá Völsungi. Þrátt fyrir ungan aldur á Elfa 64 leiki að baki með Húsvíkingum en hún er kraftmikill hægri kantmaður. Elfa kom inná í 3-2 sigri Gróttu á Augnablik á föstudaginn og stóð sig vel. 

Þá hefur Emma Steinsen snúið aftur í Gróttu á láni frá Val en hún var fyrri hluta sumars í herbúðum Fylkis. Emma lék 17 leiki með Gróttu í fyrra og þekkir því til á Nesinu. Emma kom einnig inná sem varamaður í leiknum á föstudaginn en hún getur leikið allar stöður í öftustu línu. 

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara Gróttu fagnar Elfu og Emmu á Nesið. 
„Það er frábært að Elfa hafi valið að koma til okkar í Gróttu. Það sterkt fyrir félagið að tryggja sér jafn öflugan leikmann út tímabilið 2023 og við hlökkum mikið til að vinna með henni á næstu misserum. Þá erum við glöð að fá Emmu aftur í félagið. Hún er skemmtilegur karakter og öflugur varnarmaður sem mun hjálpa liðinu mikið. Við þökkum Völsungi og Val fyrir góð samskipti í tengslum við félagaskiptin.“

Davíð Hlöðvers áfram aðstoðarþjálfari

Það er með gleði í hjarta að geta tilkynnt Davíð Örn Hlöðversson áfram sem aðstoðarþjálfara kvennaliðs Gróttu. Davíð Örn þarf varla að kynna fyrir Gróttufólki en hann hefur þjálfað nær alla flokka Gróttu undanfarin 20 ár. Að auk er hann silfurmerkjahafi félagsins og hefur leikið 144 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu.

Continue reading