120 drengir á Gifflarmóti Gróttu

Um 120 drengir í 7. flokki mættu á Vivaldivöllinn í gær og spiluðu á Gifflarmóti Gróttu. Á mótinu spiluðu Grótta, Valur og KR gegn hvor öðrum í köldu en fallegu veðri. Eyjólfur Garðarsson mætti á völlinn og náði þessum skemmtilegu myndum af stemningunni 📸

3. flokkur kvenna í 2. sæti Íslandsmótsins

3. flokkur kvenna spilaði æsispennandi úrslitaleik í gærkvöldi á Vivaldivellinum sem endaði í framlengingu og vítaspyrnukeppni. FH komst yfir á 34’ mínútu og staðan 0-1 í hálfleik þrátt fyrir að heimakonur hefðu oft verið hættulegar í sókninni. FH komst síðan í 2-0 í seinni hálfleik en Ísabella Sara Tryggvadóttir minnkaði muninn fyrir Gróttu/KR rétt eftir annað mark FH. Grótta/KR fékk síðan víti á 79’ mínútu sem Emelía Óskarsdóttir skoraði örugglega úr og jafnaði metin. Það var þá ljóst að það yrði að framlengja. FH komst yfir í framlengingunni en Díana Mist Heiðarsdóttir jafnaði fyrir Gróttu/KR. Að framlengingunni lokinni var farið í vítaspyrnukeppni þar sem þær Emelía Óskarsdóttir, Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lilja Lív Margrétardóttir, Rakel Lóa Brynjarsdóttir og Tinna María Tryggvadóttir skoruðu fyrir Gróttu/KR. Vítaspyrnukeppnin endaði 5-6 fyrir FH og Grótta/KR tók því silfrið að sinni. Stelpurnar mega þó vera gríðarlega stoltar af frammistöðu sinni í mótinu og leiknum í gærkvöldi. Það var fjölmennt á Vivaldivellinum og mikil stemning – liðið stóð svo sannarlega fyrir sínu. Til hamingju með 2. sætið stelpur 💙🖤

Grótta nældi sér í stig á Meistaravöllum

Grótta nældi sér í stig á Meistaravöllum í dag í fyrsta deildarleik Gróttu og KR 🙌🏼
Liðin buðu upp á alvöru nágrannaslag í fallegu en köldu veðri í Vesturbænum. Staðan var 0-0 í hálfleik en Karl Friðleifur Gunnarsson kom Gróttu yfir á ’54 mínútu eftir stoðsendingu frá Kristófer Orra Péturssyni. KR tókst að jafna metin á ’70 mínútu og niðurstaðan 1-1 jafntefli.
Næsti leikur hjá strákunum er gegn KA á Vivaldivellinum kl. 16:15 á sunnudaginn. Næstu leikir eru gríðarlega mikilvægir og þar þurfa strákarnir okkar stuðning í stúkunni! Sjáumst á vellinum 👊🏼
Mynd: Eyjólfur Garðarsson 📸

3. flokkur kvenna í úrslitum Íslandsmótsins

3. flokkur kvenna eru komnar í úrslit Íslandsmótsins!!! 💥👏🏼

3. flokkur kvenna Gróttu/KR spilaði gegn Þór/KA/Hömrunum í dag í Boganum í undanúrslitum Íslandsmótsins. Lilja Lív Margrétardóttir kom Gróttu/KR yfir snemma í leiknum og Emelía Óskarsdóttir jók forystuna á 29’ mínútu. Heimakonum tókst þó að jafna undir lok fyrri hálfleiks og staðan 2-2 í hálfleik. Grótta/KR gaf heldur betur í í seinni hálfleik og Emelía Óskarsdóttir bætti við tveimur mörkum og skoraði þar með þrennu í Boganum í dag. Mörk Gróttu/KR voru geggjuð og þau má sjá í instagram story.
Frábær sigur hjá stelpunum í dag sem leiðir þær í úrslitaleikinn sem fer fram á sunnudaginn kl. 12:00 en keppinautar þeirra verða FH.

Rut og Emelía valdar í Hæfileikamót N1 og KSÍ

Þær Rut Heiðarsdóttir og Emelía Óskarsdóttir, 14 ára Gróttustúlkur, hafa verið valdar til að taka þátt í Hæfileikamóti N1 og KSÍ sem fer fram í Kórnum dagana 26.-27. september. Við óskum stelpunum góðs gengis og til hamingju með valið! 👏🏼

Hákon valinn í U21 fyrir undankeppni EM

Hákon Rafn Valdimarsson var á dögunum valinn í hóp U21 karla landsliðsins sem mætir Svíþjóð í undankeppni EM þann 4. september á Víkingsvelli. Hákon er fæddur árið 2001 en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður í meistaraflokki síðustu tvö ár. Gríðarlega efnilegur leikmaður sem er vert að fylgjast með.
Til hamingju Hákon! 🇮🇸

Vetraræfingatafla knattspyrnudeildar

Vetraræfingataflan tekur gildi fyrir 5.-8. flokk karla og kvenna þriðjudaginn 25. ágúst.

2-4. flokkur æfir áfram í sínum flokkum þangað til mótin klárast, en eldra árið í 5. flokki færist upp 25. ágúst og æfir með 4. flokki. Æfingatímar hjá 2.-4. flokki gætu breyst vegna leikja, en iðkendur og foreldrar eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum frá þjálfurum.

Vetrarfrí flokkanna verður 22. október-2. nóvember.

Þjálfarar flokkanna verða tilkynntir á næstu dögum.

Nánari upplýsingar veita Chris (chris@grotta.is) og Jórunn María (jorunnmaria@grotta.is).

Sigur og jafntefli hjá meistaraflokkunum

Nú eru Íslandsmótin hjá meistaraflokkum landsins farin aftur af stað eftir tveggja vikna hlé vegna Covid-19 takmarkana. Strákarnir héldu til Garðabæjar síðasta föstudag til að spila við Stjörnuna. Stjörnumenn komust yfir á ’26 mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Grótta jafnaði síðan metin á ’75 mínútu þegar Karl Friðleifur Gunnarsson kom boltanum í netið eftir sendingu frá Kristófer Orra Péturssyni. Lokatölur 1-1 eftir hörku leik!

Stelpurnar lögðu leið sína í Grafarvog í gærkvöldi og léku við Fjölni á tómum Extravellinum. Grótta komst snemma yfir en Signý Ylfa Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark Gróttu á 5’ mínútu. Grótta innsiglaði síðan sigurinn á 90’ mínútu þegar Guðfinna Kristín Björnsdóttir kom boltanum í netið eftir hornspyrnu. Grótta situr áfram í 3. sæti eftir sigurinn með 17 stig, tveimur stigum á eftir Tindastól sem eru í 2. sæti og þremur stigum á eftir Keflavík sem sitja á toppnum.


Næsti leikur hjá drengjunum er föstudaginn 21. ágúst þegar Blikar koma í heimsókn á Vivaldivöllinn og næsti leikur hjá Gróttukonum er á laugardaginn á Vivaldivellinum kl. 13:00 gegn ÍA. Við minnum á að áfram er áhorfendalaust á leikjunum.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson.

Þrír flokkar frá Gróttu á Rey Cup

3. og 4. flokkur kvenna ásamt 4. flokki karla fóru á Rey Cup 22.-26. júlí. 3.flokkur kvenna var með tvö lið á mótinu. Þeim gekk vel alla dagana og það var frábær stemning í hópnum. Allar stelpurnar spiluðu vel þrátt fyrir marga leiki og erfiðar aðstæður. Það var ekki bara spilað fótbolta heldur skellti hópurinn sér einnig saman í Fjölskyldu og Húsdýragarðinn. Lið 1 endaði í 3.sæti á mótinu og lið 2 í 4.sæti.
4.flokkur kvenna fór með 1 lið á mótið. Stelpurnar spiluðu frábæran sóknarbolta á mótinu og sköpuðust mörg glæsileg mörk uppúr uppspili stelpnanna. Úrslitin voru aukaatriði og skemmtu allar stelpurnar sér frábærlega alla dagana þar sem leikgleði og hamingja var við völdin!

4. flokkur karla fór með 2 lið á Rey Cup og stóðu sig með stakri prýði. Skemmtu drengirnir sér mjög vel og spiluðu skemmtilegan fótbolta þrátt fyrir skrautlegar vallaraðstæður inn á milli. Mörg glæsileg mörk voru skoruð og mátt sjá að drengirnir höfðu mjög gaman af mótinu. 

Meðfylgjandi mynd er af liði 1 hjá 3. flokki kvenna Gróttu/KR og er tekin af Margréti Kristínu Jónsdóttur. 

Knattspyrnuskólanum lokið

Þá er enn öðru farsælu sumri hjá knattspyrnuskóla Gróttu lokið, en hann var starfrækur frá 10. júní til 31. júlí. Góð mæting var á öll fjögur námskeiðin en tæplega 380 börn voru skráð á námskeiðin. Til viðbótar því voru um 100 börn sem sóttu sumarnámskeið fyrir 4. og 5. flokk. Iðkendur í skólanum eru bæði krakkar sem hafa æft lengi og einnig krakkar sem eru að prófa fótbolta í fyrsta skipti, og lögð er áhersla á að kenna fótbolta í gegnum skemmtilega leiki og æfingar. Námskeiðin voru 4 talsins, í tvær vikur í senn, og í lok hvers námskeiðs var krökkunum blandað saman og skipt í landslið og keppt í HM. Að keppni lokinni var síðan pulsupartí og allir fóru glaðir inn í helgina. Áhugasamir og fjörugir krakkar, efnilegir unglingar og gott veður var virkilega góð blanda sem varð til þess að námskeiðin gengu gríðarlega vel. Hér má sjá myndir frá starfinu í sumar, en einnig eru fleiri myndir og myndbönd á instagram.com/grottasport

Starfsmenn knattspyrnuskólans þakka fyrir sumarið og hlakka til að sjá sem flesta aftur næsta sumar!