Íþróttafélagið Grótta hefur opnað fyrir umsóknir í sumarstörf 2024. Auglýst eru til umsóknar eftirfarandi sumarstörf:
Íþróttafélagið vill ráða einstaklinga 20 ára og eldri (fædd 2004 og eldri) í störf:
Verkefnastjóra sumarnámskeiða
Flokkstjóra leikjanámskeiða Gróttu
Íþróttafélagið Grótta vill ráða ungt fólk 18 ára og eldri (fædd 2006 og eldri) í störf:
Leiðbeinendur á sumarnámskeiðum.
Leiðbeinendur í fimleika- og leikjaskóla Gróttu.
Leiðbeinendur í handbolta- og afreksskóla Gróttu.
Leiðbeinendur í knattspyrnuskóla Gróttu.
Umsækjendur skulu sækja um ofangreind störf á heimasíðu alfred.is Nánari upplýsingar og lýsingar á störfunum má finna á grotta.is/sumarstorf-hja-grottu Umsóknarfrestur er til og með 18. mars 2024.
Þar sem Gitta hefur látið af störfum eftir rúm 20 ár hjá Íþróttafélaginu Gróttu verður haldið kveðjuhóf til að þakka henni fyrir samstarfið. Kveðjuhófið verður haldið fimmtudaginn 22. febrúar í hátíðarsal Gróttu. Um er að ræða opið hús á milli 17:00-19:00 og öllum er velkomið að mæta! Það verða léttar veitingar í boði.
Kjör íþróttamanns Seltjarnarness 2023 í karla- og kvennaflokki fór fram fimmtudaginn 8. febrúar í 30. skipti við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu.
Íþróttamenn Seltjarnarness 2023 eru Auður Anna Þorbjarnardóttir fimleikakona og Ingi Þór Ólafson golfari.
Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttamenn úr hópi bæjarbúa. Sex tilnefningar bárust nefndinni þetta árið. Jafnframt voru veitt verðlaun til landsliðsfólks, ungs og efnilegs íþróttafólks auk þess sem Íslands- og bikarmeistarar voru sérstaklega verðlaunaðir og tveir íþróttamenn fengu úthlutað úr afreksmannasjóði ÍTS.
Auður Anna Þorbjarnardóttir, fimleikakona
Auður Anna er nýorðin 14 ára og einn allra efnilegasti iðkandi fimleikadeildar Gróttu. Hún var í bikarliði Gróttu í frjálsum æfingum vorið 2023, keppti fyrir Gróttu á Íslandsmóti í áhaldafimleikum í unglingaflokki í maí og varð í 4. sæti í fjölþraut. Auður Anna komst í úrslit á stökki, slá og gólfi og fékk silfur á stökki. Þá sigraði hún á stökki í unglingaflokki í GK móti Fimleikasambands Íslands og varð í 3. sæti á stökki í unglingaflokki á haustmóti FSÍ.
Auður Anna var valin í úrvalshóp Fimleikasambands Íslands og keppti með unglingalandsliði Íslands á Norðurlandamóti unglinga í Finnlandi sem og á EYOF (European Youth Olympic Festival) í Slóveníu á árinu. Á Norðurlandamótinu varð Auður Anna í 13. sæti í fjölþraut, stigahæst íslensku keppendanna. Hún komst í úrslit á stökki þar sem að hún vann silfurverðlaun. Þá keppti Auður með Gróttu á alþjóðlegu móti Gymsport í Porto á árinu þar sem hún varð í 10. sæti í fjölþraut og komst í úrslit á stökki og gólfi. Hún fékk bronsverðlaun fyrir stökk á mótinu og varð í 6. sæti á gólfi.
Ingi Þór Ólafson, golfari
Ingi Þór er afrekskylfingur sem keppir í golfi fyrir hönd Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Hann leikur á mótaröð þeirra bestu og endaði í 8. sæti á stigalista mótaraðarinnar 2023. Hápuktur sumarsins var 4. sæti í Íslandsmótinu í höggleik en einnig var hann í öðru sæti í Hvaleyrarbikarnum. Ingi Þór lék í karlasveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar sem sigruðu Íslandsmót golfklúbba 2023 og má segja að Ingi Þór hafi verið einn af lykilmönnum sveitar GM. Í kjölfarið var hann valinn í lið þriggja kylfinga úr GM til að leika á Evrópumóti golfklúbba í Portúgal.
Ingi Þór fór í tvö úrtökumót fyrir Nordic mótaröðina í haust og lék frábært golf og tryggði sér fullan þátttökurétt á mótaröðinni fyrir keppnistímabilið 2024. Einnig var Ingi Þór valinn í landsliðshóp GSÍ fyrir 2024.
Þau sem hlutu tilnefningar til Íþróttamanns Seltjarnarness 2023
Frá vinstri: Ingi Þór Ólafson golf, Lovísa Davíðsdóttir Scheving knattspyrna, Rut Bernódusdóttir handknattleikur og Auður Anna Þorbjarnardóttir. Á myndina vantar Hannes Grimm handknattleikur og Grím Inga Jakobsson knattspyrna.
Afreksmannastyrkur
Aðalsteinn Karl Björnsson júdó og Ingi Þór Ólafson golf.
Landsliðsfólk
Frá vinstri: Rebekka Sif Brynjarsdóttir U-15 knattspyrna, Arnfríður Auður Arnarsdóttir U-15 knattspyrna, Katrín Anna Ásmundsdóttir U19 handknattleikur, Antonie Óskar Pantano U-17 handknattleikur, Sara Björk Arnarsdóttir U-15 knattspyrna, Auður Anna Þorbjarnardóttir U-landslið fimleikar. Á myndina vantar Andra Fannar Elísson U-19 handknattleikur og Tómas Johannessen U-17 knattspyrna.
Ungt og efnilegt íþróttafólk
Í stafrófsröð:
Arnfríður Auður Arnarsdóttir, knattspyrna
Birgir Davíðsson Scheving, knattspyrna
Edda Sigurðardóttir, handknattleikur
Elísabet Þóra Ólafsdóttir, golf
Freyja Geirsdóttir, hópfimleikar
Jón Agnar Magnússon, golf
Jón Bjarni Pálsson, handknattleikur
Katrín Arna Andradóttir, handknattleikur
Nína Karen Jóhannsdóttir, áhaldafimleikar
Rakel Lóa Brynjarsdóttir, knattspyrna
Tómas Johannessen, knattspyrna
Þröstur Blær Guðmundsson, handknattleikur
Bikarmeistarar í 2. þrepi fimleikastigans
Í stafrófsröð:
Ása Agnarsdóttir
Áslaug Glúmsdóttir
Harpa Hrönn Egilsdóttir
Nína Karen Jóhannsdóttir
Á myndina vantar Eldey Erlu Hauksdóttur sem einnig varð Íslandsmeistari í 2. þrepi.
Til hamingju allir með frábæran árangur á árinu 2023.
Í kvöld fer fram risaleikur hjá stelpunum okkar þegar Stjarnan kemur í heimsókn í Hertz-höllina í 8 liða úrslitum Powerade-bikarsins. Fjölmennum, styðjum okkar lið og tryggjum liðinu í undanúrslit. Leikurinn hefst kl. 20:00.
Fyrir það stuðningsfólk sem kemst ekki á leikinn, þá er hann sýndur í beinni útsendingu á RÚV 2.
Við minnum á rjúkandi heitar Domino´s pizzur fyrir leik og í hálfleik.
Kjör íþróttafólks Gróttu fór fram við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 1. febrúar síðastliðinn. Athöfnin fór fram í hátíðarsal Gróttu þar sem fagnað var íþróttaárinu 2023.
Íþróttafólk Gróttu 2023 eru þau Einar Baldvin Baldvinsson handknattleiksmaður og Freyja Hannesdóttir, fimleikakona. Einnig var kjörið íþróttafólk æskunnar en í ár eru það knattspyrnufólkið Tómas Johannessen og Arnfríður Auður Arnarsdóttir sem hlutu þá viðurkenningu. Andri Sigfússon handknattleiksþjálfari er þjálfari ársins.
Valið á sjálfboðaliðum ársins er þáttur í því að þakka þeim sem leggja til af sínum tíma og orku í félagið á hverju ári. Sjálfboðaliðar ársins 2023 eru Guðrún Jóna Stefánsdóttir hjá fimleikadeild, Eyjólfur Garðarsson hjá handknattleiksdeild og Þórir Hallgrímsson hjá knattspyrnudeild.
Veitt var viðurkenning til þeirra sem kepptu fyrir hönd Íslands í fyrsta skipti á árinu. Að þessu sinni voru það Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Rebekka Sif Brynjarsdóttir sem spiluðu sína fyrstu landsleiki á árinu.
Í ár voru 20 aðilum veitt heiðursmerki Gróttu fyrir vel unnin störf fyrir félagið.
Þau sem hlutu bronsmerki voru eftirfarandi: Anna Dóra Ófeigsdóttir, Arnar Þór Axelsson, Bogi Elvar Grétarsson, Hansína Þóra Gunnarsdóttir, Hannes Grimm, Hildur Ólafsdóttir, Hrafnhildur Thoroddsen, Jóhanna Selma Sigurðardóttir, Sólveig Herbertsdóttir, Þórir Hallgrímsson, Ægir Steinarsson og Valgerður Thoroddsen.
Þau sem hlutu silfurmerki voru eftirfarandi: Ólöf Línberg Kristjánsdóttir, Nanna Guðmundsdóttir, Íris Björk Símonardóttir og Valdimar Ólafsson.
Þau sem hlutu gullmerki voru eftirfarandi: Arndís María Erlingsdóttir, Davíð Örn Hlöðversson, Gabriella Belányi og Kristín Þórðardóttir.
Heiðursfélagi Gróttu er æðsti heiður sem félagið veitir. Í ár var Kristín Finnbogadóttir gerð að heiðursfélaga.
Knattspyrnudeild GRÓTTU óskar eftir að taka íbúð á leigu fyrri leikmann/leikmenn meistaraflokks kvenna. Íbúðin þarf helst að vera með 2 herbergjum, má vera með eða án húsgagna. Leigutímabil er ca 1. mars – 30. september 2024.
Ákveðið hefur verið að fella niður fyrirhugað Þorrablót ann 27. janúar næstkomandi. Kostnaður við halda Þorrablót í Íþróttahúsinu hefur aukist verulega á milli ára og fyrirséð að nægileg þáttaka sé ekki til staðar svo blótið geti staðið undir sér.
Andri Sigfússon hefur tekið við sem yfirþjálfari handknattleiksdeildar Gróttu. Hann tekur við af Magnúsi Karli Magnússyni. Andri er uppalinn Gróttumaður, æfði með félaginu frá unga aldri og hóf svo þjálfun árið 2002. Það má með sanni segja að Andri sé einn af reyndustu og öflugustu þjálfurum Gróttu og því mikill fengur að fá hann sem yfirþjálfara. Ásamt því að sinna yfirþjálfarastarfinu og þjálfun nokkurra flokka hjá Gróttu, er Andri þjálfari U-liðs Gróttu og U-16 landsliðs karla. Andri er afar metnaðarfullur og kraftmikill þjálfari og það er mikil tilhlökkun hjá stjórn barna-og unglingaráðs Gróttu fyrir komandi samstarfi.
„Ég hlakka mikið til að hefja störf og halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið í vetur og undanfarin ár. Grótta hefur á að skipa virkilega öflugum hópi þjálfara sem hefur unnið frábært starf með okkar fjölmörgu iðkendum. Vonandi náum við í sameiningu að bæta okkar starf enn þá meira,“ sagði Andri þegar samningar voru í höfn.
Barna-og unglingaráð handknattleiksdeildar Gróttu og Magnús Karl Magnússon hafa komist að samkomulagi um að Magnús láti af störfum fyrir félagið. Magnús ætlar að einbeita sér að starfi sínu sem íþróttasálfræðingur.
Magnús hóf störf í júní og hefur frá þeim tíma þjálfað 8. flokk karla og 4. flokk kvenna og verið aðstoðarþjálfari 6. flokks kvenna.
Magnús hefur komið inn með góðar áherslur í barna-og unglingastarf handknattleiksdeildarinnar og bætt ofan á það metnaðarfulla og faglega uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið undanfarin ár.
Við þökkum Magnúsi fyrir samstarfið og óskum honum velfarnaðar í hans næstu verkefnum.