Kristófer Melsted framlengir

Kristófer Melsted hefur framlegt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Kristófer er uppalinn Gróttumaður en hann á að baki 95 leiki fyrir Gróttu. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Gróttu árið 2016 og hefur síðustu ár verið einn lykilmanna liðsins en hann lék 20 leiki á síðasta tímabili í Lengjudeildinni og skoraði í þeim tvö mörk. Samningurinn er Gróttu sérstakt fagnaðarefni þar sem Kristófer er mikil fyrirmynd ungra íþróttamanna hjá félaginu, innan sem utan vallar.

Emelía til Kristianstad

Í síðasta mánuði var tilkynnt að hin 15 ára gamla Emelía Óskarsdóttir hefði gert 3 ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstads DFF, sem tekur gildi í mars næstkomandi á 16 ára afmæli Emelíu. Þetta eru frábær tíðindi og mikil viðurkenning fyrir Emelíu en Kristianstad hefur á síðustu árum verið eitt allra best lið Svíþjóðar. Síðustu tvær leiktíðir hefur Kristianstads endað í 3. sæti sænsku deildarinnar og mun því í annað sinn leika í Meistaradeild Evrópu á komandi keppnistímabili. 

Emelía hóf knattspyrnuferil sinn í 8. flokki Gróttu og lék upp yngri flokkana með Gróttu og Gróttu/KR. Hún kom inn í meistaraflokkslið Gróttu í Lengjudeildinni sumarið 2020, þá aðeins 14 ára gömul, og skoraði 1 mark í 13 leikjum. Síðasta sumar fluttist hún til Danmerkur og spilaði með unglingaliðum BSF þar sem frammistaða hennar vakti athygli Kristianstad og fleiri stórliða. Emelía hefur leikið 5 leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað eitt mark. 

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad en hún sagði í viðtali í sænskum fjölmiðlum að Emelía væri mjög spennandi framherji og hún fagnaði því að hafa fengið hana til liðs við félagið. Amanda Andradóttir gekk nýverið til liðs við Kristianstad en á síðustu leiktíð léku Sveindís Jane Jónsdóttir og Sif Atladóttir með liðinu. 

Emelía kvaðst vera spennt fyrir komandi tímum: „Þetta er rosalega spennandi tækifæri og ég er mjög spennt að takast á við þetta verkefni í Svíþjóð.“

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Emelíu og fjölskyldu hennar til hamingju með þennan áfanga og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hennar í Svíþjóð.

Hallgerður til Gróttu og Elín Helga framlengir

Hallgerður Kristjánsdóttir skrifaði undir samning við knattspyrnudeild Gróttu nú á dögunum. Hallgerður, sem er tvítug, leikur sem varnarmaður og er uppalin hjá Val. Síðustu tvö ár hefur Hallgerður spilað með Tindastól; í Lengjudeildinni árið 2020 og svo í Pepsi Max deildinni síðasta sumar. Hallgerður á einnig að baki tvo leiki með U16 ára landsliði Íslands. Hallgerður er mikill liðsstyrkur fyrir Gróttuliðið sem undirbýr sig nú af krafti fyrir baráttuna í 2. deild kvenna í sumar. Knattspyrnudeild Gróttu fagnar komu Hallgerðar og býður hana velkomna í félagið!

Elín Helga Guðmundsdóttir framlengdi einnig samning sinn við Gróttu nú á dögunum en hún er uppalin í Gróttu. Elín Helga er 16 ára varnarmaður sem lék tvo leiki með Gróttu í Lengjudeildinni síðasta sumar og einn í Mjólkurbikarnum, ásamt því að spila bæði með 2. og 3. flokki kvenna þar sem hún var lykilleikmaður. Knattspyrnudeild fagnar því að Elín Helga hafi framlengt samning sinn við félagið, enda efnilegur leikmaður þar á ferð sem verður spennandi að fylgjast með á komandi tímabili.

Fyrsti A-landsleikur Hákons

Hákon Rafn Valdimarsson lék sinn fyrsta A-landsleik í gær þegar hann kom inn á í hálfleik í vináttulandsleik gegn Úganda. Staðan var 1-1 þegar Hákoni var skipt inn á og urðu það lokatölur leiksins.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með þetta skref á ferlinum en hann er fyrsti Gróttumaðurinn til að spila A-landsleik 💙👏🏼

Kjartan Kári framlengir hjá Gróttu

Hinn 18 ára gamli Kjartan Kári Halldórsson framlengdi nú á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út árið 2023. Hinn ungi og efnilegi Kjartan Kári á að baki 26 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu og hefur skorað í þeim 9 mörk. Hann hóf feril sinn með meistaraflokki árið 2020 í Pepsi Max deildinni með Gróttu en síðasta sumar lék hann 19 leiki í Lengjudeildinni og einn í bikar þar sem hann lét ljós sitt skína. Kjartan á einnig að baki 12 landsleiki, með U16 ára og U19 ára landsliðum Íslands. Gaman er að segja frá því að á komandi tímabili mun Kjartan spila í nýju númeri, en hin víðfræga sjöa sem Pétur Theódór Árnason hefur spilað í síðustu ár fer nú til Kjartans Kára.
Samningurinn við Kjartan Kára er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn þess og hlökkum við til að fylgjast með Kjartani á komandi tímabili.

Lilja Lív og Lilja Scheving á úrtaksæfingum U17 ára landsliðsins

 Gróttukonurnar Lilja Lív Margrétardóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving eru í hóp U17 ára landsliðsins sem æfir saman dagana 10.-12. janúar. Knattspyrnudeild Gróttu er stolt af því að eiga glæsilega fulltrúa félagsins í þessum hóp. 
Næsta verkefni U17 kvenna eru milliriðlar undankeppni EM 2022. Ísland er þar í riðli með Írlandi, Finnlandi og Slóvakíu og verður leikið á Írlandi 23.-29. mars. 

Fimm leikmenn skrifa undir

Það er mikið gleðiefni að segja frá því að þær Signý Ylfa Sigurðardóttir, Edda Björg Eiríksdóttir, Lilja Davíðsdóttir Scheving, Lovísa Davíðsdóttir Scheving og Lilja Lív Margrétardóttir hafa endurnýjuað samninga sína við Gróttu.
Samningarnir við stúlkurnar eru mikið fagnaðarefni fyrir félagið og stuðningsmenn Gróttu, enda er um að ræða efnilegar og öflugar knattspyrnukonur sem verða Gróttuliðinu mikilvægar á komandi tímabili.

Pétur Rögnvaldsson, þjálfari Gróttu, fagnar tíðindunum og segir þau gott veganesti inn í nýtt ár:
„Það býr mikið í öllum þessum stelpum. Allar áttu þær góða spretti síðasta sumar en komandi tímabil getur verið tækifæri fyrir þær til að springa út og verða lykilleikmenn í Gróttuliðinu. Það eru eflaust mörg lið sem stefna á toppbaráttu næsta sumar, en það er frábært fyrir Gróttu að hafa á síðustu þremur mánuðum endursamið við svona stóran hluta liðsins síðustu tvö ár. Það gefur okkur bjartsýni og orku inn í nýtt ár.“

Luke Rae til Gróttu

Framherjinn Luke Rae er genginn til liðs við Gróttu og hefur skrifað undir samning við félagið til 2023 🤝

Luke er tvítugur Englendingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár á Íslandi. Eftir að hafa byrjað aðeins 16 ára gamall að spila í neðri deildum á Englandi gekk hann til liðs við Tindastól og skoraði 16 mörk í 20 leikjum í 3. deild sumarið 2020. Á liðnu tímabili spilaði hann svo með Vestra í Lengjudeildinni og tók þátt í bikarævintýri Ísfirðinga sem komust alla leið í undanúrslit, en hann á að baki 26 leiki fyrir Vestra í sumar þar sem hann skoraði 3 mörk.

Luke er duglegur og eldfljótur leikmaður sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum. Hann er spenntur fyrir komandi áskorunum með Gróttu:
„Ég er mjög glaður með að hafa skrifað undir hjá Gróttu. Mér finnst vera mikill metnaður hjá félaginu – æfingarnar eru góðar og ég held að leikstíll liðsins henti mér vel. Öll vinna í kringum liðið er mjög fagleg og ég trúi því að hér geti ég bætt mig sem leikmaður. Strákarnir hafa tekið vel á móti mér og ég er spenntur að komast betur inn í hópinn sem stendur þétt sama og er hungraður í að ná árangri.”

Hilmar Þór Helgason á láni til Gróttu

Hinn 16 ára Hilmar Þór hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu en hann kemur frá Breiðablik. Hilmar er uppalinn Gróttumaður en skipti yfir í Breiðablik árið 2019 og hefur spilað þar síðan. Hilmar er gríðarlega efnilegur markmaður sem á að baki einn leik fyrir U-17 ára landsliðið.

Hilmar er spenntur fyrir verkefninu í Gróttu og segist vera ánægður að vera mættur aftur á Vivaldivöllinn.

„Þetta ferli að koma hingað er búið að vera langt. Ég er mjög glaður að vera kominn aftur og er spenntur að vera partur af þessu liði. Strákarnir, staffið og þjálfararnir eru búnir að taka vel á móti mér og ég hlakka til að vinna með þeim. Ég er mikill og stoltur Gróttumaður og mun gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná langt.“

Það er mikið gleðiefni að fá Hilmar aftur í Gróttu 👏🏼

Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson framlengja hjá Gróttu

Þeir Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára.

Arnar Þór er 25 ára gamall miðvörður, sem hefur verið lykilmaður í vörn Gróttuliðsins síðastliðin ár ásamt því að vera afar ógnandi í vítateig andstæðinganna. Arnar Þór á að baki 101 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 12 mörk, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2016.

Júlí er 25 ára gamall miðvörður sem spilaði sína fyrstu leiki með Gróttu sumarið 2018 og hefur spilað með liðinu síðan. Júlí á 47 leiki að baki fyrir félagið og hefur skorað í þeim 2 mörk en hann var ásamt Arnari lykilleikmaður í varnarlínu Gróttu síðastliðið sumar.

Samningarnir við Arnar Þór og Júlí eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.