Arnfríður Auður valin í U15 ára landsliðið

Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir er í hóp U15 ára landsliðsins sem Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið til að æfa saman 15.-17. nóvember.
Knattspyrnudeild Gróttu er hreykið að eiga fulltrúa í þessum hópi, en hin 13 ára gamla Aufí er gríðarlega efnileg knattspyrnukona! 

Halldór Kristján ráðinn aðstoðarþjálfari Chris hjá meistaraflokki karla 

Halldór Kristján Baldursson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla við hlið Chris Brazell, sem var ráðinn aðalþjálfari liðsins á dögunum. Halldór Kristján er 27 ára gamall, með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og vel kunnugur staðháttum á Vivaldivellinum. Hann er uppalinn í Breiðabliki en á 82 leiki að baki fyrir Gróttu allt frá árinu 2016. Gróttufólk gleymir því seint þegar Halldór Kristján leiddi Gróttuliðið inn á Kópavogsvöllinn sumarið 2020, með fyrirliðabandið um arminn, þegar liðið lék sinn fyrsta leik í sögu félagsins í efstu deild. 

Síðustu ár hefur Halldór, ásamt því að vera leikmaður, verið viðriðinn þjálfun hjá félaginu en hann þjálfaði m.a. 4. flokk karla árið 2020 og hefur síðustu tvö ár þjálfað Kríu, venslalið Gróttu, sem leikur í 4. deild karla. Undir stjórn Halldórs hefur Kría komist í úrslitakeppni 4. deildar tvö sumur í röð. Halldór Kristján tekur nú slaginn með meistaraflokki karla í öðru hlutverki en áður og er knattspyrnudeild Gróttu gríðarlega spennt fyrir komandi tímum, með ungt en afar efnilegt þjálfarateymi við stjórnvölinn.

Níu leikmenn mfl. kvk. skrifa undir til tveggja ára

Okkur er sönn ánægja að segja frá því að þær Bjargey Sigurborg Ólafsson, Edda Steingrímsdóttir, Jórunn María Þorsteinsdóttir, Nína Kolbrún Gylfadóttir, María Lovísa Jónasdóttir, Margrét Rán Rúnarsdóttir, Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir, Tinna Bjarkar Jónsdóttir og Patricia Dúa Thompson Landmark hafa skrifað undir samning við knattspyrnudeild Gróttu til næstu tveggja ára. Þær eru allar mikilvægir hlekkir í Gróttuliðinu og við hlökkum til að takast á við verkefnin sem framundan eru með þeim 🤝

Arnfríður Auður í Hæfileikamótun KSÍ

Arnfríður Auður Arnarsdóttir er í hóp leikmanna sem hafa verið valdir til að taka þátt á æfingum í Hæfileikamótun stúlkna dagana 27.-29. október 2021.

Æfingarnar fara fram í Skessunni í Kaplakrika í Hafnarfirði og hafa hafa 64 stúlkur frá félögum víðs vegar af landinu verið boðaðar til æfinga.

Grótta er hreykið af því að eiga fulltrúa í þeim hóp og óskar Aufí góðs gengis á æfingunum! 

Pétur Rögnvaldsson tekur við meistaraflokki kvenna

Það er ánægjulegt að segja frá því að knattspyrnudeild Gróttu hefur gengið frá samningi við Pétur Rögnvaldsson sem aðalþjálfara meistaraflokks kvenna til næstu tveggja ára.

Hinn 28 ára gamla Pétur þarf ekki að kynna fyrir Gróttufólki en hann hefur þjálfað hjá knattspyrnudeildinni frá árinu 2015. Pétur var ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í janúar 2019 og um haustið 2020 varð hann aðalþjálfari ásamt Magnúsi Erni. Pétur er með UEFA-B þjálfaragráðu og BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að hafa Pétur áfram með meistaraflokk kvenna 👏🏼

Chris Brazell tekur við meistaraflokki karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa gengið frá samningi við Chris Brazell sem aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu þriggja ára. 

Hinn 29 ára gamli Chris hóf störf hjá knattspyrnudeildinni fyrir tveimur árum og hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka síðan, ásamt því að hafa starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla síðasta árið, í góðu samstarfi við Ágúst Þór Gylfason. Chris er með UEFA-A þjálfaragráðu og BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá University of Lincoln. Chris starfaði í fjögur ár í akademíu enska úrvaldsdeildarliðsins Norwich City þar sem hann var m.a. aðalþjálfari U14 ára liðs félagsins og vann með leikmönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Chris hefur auk þess verið í starfsnámi hjá þýsku liðunum Borussia Dortmund og FC Köln. 

Knattspyrnudeild Gróttu telur ráðningu þessa unga þjálfara í anda þess sem Grótta stendur fyrir, þ.e. að gefa ungu hæfileikafólki tækifæri, bæði leikmönnum og þjálfurum. Það sé hluti af því sem gerir Gróttu lifandi og skemmtilegt félag, alltaf opið fyrir ferskum straumum, nýjum hæfileikum og gefur fólki frelsi til að þroskast við stórar áskoranir. Deildin fagnar því að hafa Chris áfram í lykilhlutverki hjá félaginu í því uppbyggingastarfi sem deildin hefur staðið fyrir undanfarin ár.