Lokahóf Handknattleiksdeildar

Á miðvikudaginn fór fram lokahóf Handknattleiksdeildar Gróttu þar sem meistaraflokkar félagsins, þjálfarar, sjálfboðaliðar og starfsfólk kom saman og gerði upp tímabilið. Lokahófið var haldið í Hátíðarsal Gróttu.

Veittar voru viðurkenningar til þeirra sem sköruðu fram úr í vetur.

Meistaraflokkur kvenna

Mikilvægasti leikmaður – Katrín Helga Sigurbergsdóttir
Efnilegasti leikmaður – Katrín Anna Ásmundsdóttir
Besti leikmaður – Ída Margrét Stefánsdóttir

Ungmennalið karla

Mikilvægasti leikmaður – Sigurður Finnbogi Sæmundsson
Besti leikmaður – Ari Pétur Eiríksson

Meistaraflokkur karla

Mikilvægasti leikmaður – Einar Baldvin Baldvinsson
Stríðsmaðurinn – Hannes Grimm
Besti leikmaður – Birgir Steinn Jónsson

Þeir leikmenn sem höfuð náð leikjaáföngum fengu verðlaun en það voru:

50 leikir fyrir Gróttu
Andri Þór Helgason (68 leikir)
Birgir Steinn Jónsson (65 leikir)
Ísak Arnar Kolbeins (54 leikir)
Lilja Hrund Stefánsdóttir (59 leikir)
Lúðvík Thorberg Arnkelsson (62 leikir)

100 leikir fyrir Gróttu
Anna Katrín Stefánsdóttir (103 leikir)
Ágúst Emil Grétarsson (109 leikir)
Katrín Helga Sigurbergsdóttir (116 leikir)
Rut Bernódusdóttir (105 leikir)
Þorgeir Bjarki Davíðsson (102 leikir)

Við óskum þessum verðlaunahöfum til hamingju og hlökkum til að sjá þá og liðin okkar aftur í haust í Olísdeildinni, Grill 66-deildinni og 2.deild karla.

Ída Margrét, Katrín Anna og Katrín Helga

Sigurður Finnbogi og Ari Pétur

Einar Baldvin, Birgir Steinn og Hannes Grimm

Lúðvík Thoberg, Þorgeir Bjarki, Birgir Steinn, Andri Þór, Ísak Arnar og Ágúst Emil

Lilja Hrund, Rut, Katrín helga og Anna Katrín

Soffía semur við Gróttu

Markvörðurinn Soffía Steingrímsdóttir hefur samið við Gróttu til næstu þriggja ára. Soffíu þekkir allt Gróttufólk enda uppalin í félaginu og leikið með Gróttu til fjölda ára. Seinasta haust skipti Soffía yfir í Fram en kom til baka á láni seinni hluta tímabilsins og stóð sig frábærlega.

Soffía er fædd árið 2000 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún leikið 123 leiki fyrir Gróttu.

„Það eru frábærar fréttir að Soffía verði hjá okkur næstu þrjú árin enda frábær markvörður með mikla reynslu. Soffía er auk þess mikill karakter sem við bindum miklar vonir við að verði í lykilhlutverki við atlöguna að Olísdeildarsæti á næsta tímabili“, sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson þegar samningar voru í höfn.

Aðalfundur Gróttu 2023

Aðalfundir deilda og ráða Íþróttafélagsins Gróttu fóru fram 27. apríl og fóru þeir fram í hátíðarsal félagsins.  Fundurinn hófst á tónlistaratriði Jón Guðmundsson frá tónlistarskóla Seltjarnanesbæjar kynnti inn 3 stúlkur sem einnig eru iðkendur í félaginu. Þetta eru þær Arney María Arnarsdóttir sem spilaði á þverflautu, Sólveig Þórhallsdóttir einnig á þverflautu og Eyrún Þórhallsdóttir á saxófón.

Ólafur Örn Svansson hélt um fundarstjórnina en fundurinn hófst með skýrslu Þrastar Guðmundssonar, formanns aðalstjórnar og í kjölfarið komu formenn og gjaldkerar deilda og ráða í pontu og fóru yfir starfið á árinu og rekstrarniðurstöður. 

Þröstur var að klára sitt fyrsta ár sem formaður en aðrir aðalstjórnarmeðlimir gáfu öll kost á sér til endurkjörs og er stjórnin því óbreytt. 

Gísli Örn Garðarsson hætti í stjórn fimleikadeildar og Fanney Magnúsdóttur kemur inn í hans stað. Gylfi Magnússon hætti í stjórn handknattleiksdeildar og Páll Gíslason í stjórn unglingaráðs handknattleiksdeildar. 

Þá hættu þeir Alexander Jensen og Rögnvaldur Dofri Pétursson í stjórn knattspyrnudeildar en það var fækkað í stjórninni sem er núna skipuð þeim Þorsteinn Ingasyni formanni, Hörpu Frímansdóttur, Kristínu Huld Þorvaldsdóttur, Stefáni Bjarnasyni, Helga Héðinssyni og Hildi Ólafsdóttir. 

Gefin var út glæsileg árskýrsla fyrir síðasta ár:
https://grotta.is/wp-content/uploads/2023/05/A%CC%81rssky%CC%81rsla-Gro%CC%81ttu-2022-web.pdf

Eyjólfur Garðarsson ljósmyndari félagsins mætti svæðið og tók frábærar myndir sem lýsa vel heppnuðum aðalfundi. 

Daðey og Tinna í Gróttu

Handknattleiksdeild Gróttu hefur gert samninga við Daðeyju Ástu Hálfdánsdóttur og Tinnu Valgerði Gísladóttur um að þær leiki með félaginu næstu tvö árin.

Tinna Valgerður kemur aftur á Nesið eftir tveggja ára dvöl í Fram. Tinna er fædd árið 2000 og er uppalin í Gróttu. Hún er örvhent og leikur sem skytta og hornamaður. Tinna skoraði 38 mörk með Olísdeildarliði Fram síðastliðinn vetur.

Daðey Ásta kemur einnig úr Fram þar sem hún er uppalin. Daðey Ásta er fædd árið 2002 og er fjölhæfur leikmaður. Auk þess er hún afbragðs varnarmaður. Daðey lék bæði með Olísdeildarliði Fram síðastliðinn vetur þar sem hún gerði 8 mörk en einnig umgmennaliði Fram í Grill 66-deildinni þar sem hún skoraði 46 mörk.

Það er mikill hvalreki fyrir Gróttu að þessir leikmenn komi til félagsins. „Ég er himinlifandi með að Tinna komi til baka til félagsins og að Daðey söðli um og skipti yfir í Gróttu. Báðir leikmennirnir styrkja Gróttuliðið mikið og eru miklir karakterar. Þær smellpassa í liðið og það verður gaman að sjá þær í Gróttubúningnum í haust“, sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson við undirritun samninganna.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Aðalfundur Gróttu 27. apríl

Aðalfundir aðalstjórnar og deilda Íþróttafélagsins Gróttu fara fram fimmtudaginn 27. apríl 2023. Aðalfundirnir hefjast kl. 17:30 og er gert ráð fyrir að þeim sé lokið kl. 18:30. Eftir að aðalfundum lýkur verður öllum fundargestum boðið upp á léttar veitingar.

Fyrirspurnum og framboðum til stjórna skal skilað á netfangið grotta@grotta.is

Maksim heldur á vit nýrra ævintýra

Maksim Akbachev, yfirþjálfari barna- og unglingastarfs Gróttu í handknattleik, hefur fengið stórt tækifæri sem þjálfari í Bahrain. Þar mun hann vinna að þróun og þjálfun á landsliðsmönnum þeirra ásamt því að þjálfa unglingalandslið þeirra fyrir heimsmeistaramótið í sumar. Maks heldur utan um páskana.

Maks hefur stýrt þremur flokkum á þessu keppnistímabili sem allir hafa nú fengið nýja öfluga þjálfara.

“Ég hef ákveðið að fjúga á vit ævintýranna eftir 3 frábær ár hjá Gróttu. Ákvörðunin var alls ekki auðveld því hér hefur mér liðið mjög vel við þjálfun og í hlutverki yfirþjálfara. Ég vil þakka öllum iðkendum, þjálfurum, foreldrum og öðrum innilega fyrir samstarfið og fyrir mig – ég hlakka til að fylgjast áfram með ykkur!”

Grótta þakkar Maks frábært samstarf

Maks hefur starfað við þjálfun hjá Gróttu síðan 2020 og undanfarin tvö ár sem yfirþjálfari við góðan orðstír. Þekking hans á íþróttinni er með eindæmum mikil og hæfileiki hans til að miðla henni til iðkenda á öllum aldri framúrskarandi. Maks er mikill liðsmaður og það hefur verið virkilega gaman að vinna með honum undanfarin ár. Stemningin í handboltanum og húsinu hefur verið mjög góð undir hans stjórn og við þökkum honum af öllu hjarta fyrir frábært samstarf, drifkraft og liðsanda – dyr Gróttu standa honum alltaf opnar!

Staða yfirþjálfara barna- og unglingadeildar Gróttu í handknattleik er nú laus og er leitin að eftirmanni Maks hafin.

Barna- og unglingaráð handknattleiksdeildar Gróttu.

Ída semur við Gróttu

Ída Margrét Stefánsdóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Ída Margrét hefur verið á láni hjá okkur frá Val í vetur en skiptir nú varanlega yfir til Gróttu.

Ída er 21 árs gömul og leikur sem vinstri skytta. Hún hefur komið eins og stormsveipur inn í Gróttuliðið og leikur lykilhlutverk með liðinu á báðum endum vallarins. Ída hefur skorað 89 mörk fyrir félagið í vetur.

„Það eru mikil gleðitíðindi að Ída semji við okkur til þriggja ára. Hún er gríðarlega öflug skytta. Það eru miklar vonir bundnar við að hún eigi eftir dafna enn frekar sem leikmaður á næstu misserum og hjálpa liðinu að tryggja sig meðal bestu liða landsins“, sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson þjálfari liðsins við undirritunina.

Á næstu dögum má búast við frekari fréttum af leikmannamálum liðsins.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Páskanámskeið Gróttu

Í dymbilvikunni fyrir páska mun Handknattleiksdeild Gróttu standa fyrir páskanámskeiði í handbolta. Æfingarnar fara fram 3. – 5.apríl og verða frá kl. 09:00-12:00. Æfingunum verður skipt upp eftir eldri og er krakkarnir beðnir um að koma með nesti.

Þjálfarar á námskeiðinu er þjálfarar Gróttu og leikmenn meistaraflokkanna.

Skráning fer fram í Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Hægt er að skrá sig alla dagana eða einn og einn dag.

Tvö lið frá Gróttu í bikarúrslitum

Grótta var með tvö lið í úrslitum Powerade-bikars HSÍ helgina 17. – 19.mars. 6.flokkur karla yngri lék gegn Haukum og 5.flokkur kvenna eldri lék gegn Val.

6.flokkur karla yngri
Eftir virkilega flottan leik voru það Haukar sem unnu með minnsta mögulega mun, 9-10 í úrslitaleik bikarsins hjá 6.flokki karla yngri. Strákarnir okkar stóðu sig vel og geta heldur betur verið sáttir með sinn leik þó að andstæðingurinn hafi verið sterkari í dag.

5.flokkur kvenna eldri
Stelpurnar í 5. flokki kvenna eldri tóku þátt í úrslitleik í Powerade-bikarnum gegn sterku Valsliði í gær. Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum og var aðeins tveggja marka munur í hálfleik. Gróttustelpur náðu ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik og vann Valur með sjö marka mun, 13-20. Stelpurnar stóðu sig frábærlega og var þetta gríðarlega skemmtileg upplifun og reynsla fyrir þær.

Sannarlega frábærir krakkar sem eru í yngri flokkum Gróttu.