Hákon valinn markmaður ársins í Svíþjóð 


Hákon Rafn Valdimarsson hefur verið valinn sem besti markvörður tímabilsins í efstu deild sænska boltans! Hákon Rafn var aðalmarkvörður Elfsborg á tímabilinu og fékk liðið aðeins 26 mörk á sig í 30 leikjum, en ekkert lið fékk færri mörk á sig.
Hákon, sem er ekki nema 22 ára gamall, hefur verið að gera frábæra hluti í sænska boltanum síðan hann fór þangað frá Gróttu árið 2021. Hákon á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Ísland og spilaði hann alla deildarleiki Elfsborg á tímabilinu sem var að ljúka að einum undanskildum en þá var hann í leikbanni.
Knattspyrnudeild Gróttu er gríðarlega hreykin af Hákoni og hans frábæru frammistöðu. Hákon er frábær fyrirmynd fyrir unga iðkendur hjá Gróttu sem líta svo sannarlega upp til hans. Hann á þennan titil svo sannarlega skilið og óskum við honum innilega til hamingju með þessa glæsilegu viðurkenningu!

Aufí valin í U18 ára landsliðið

Þórður Þórðarson landsliðsþjálfari U18 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í æfingum og leikjum við Svíþjóð. Hópurinn mun hittast til æfinga helgina 25-26.nóvember og þriðjudaginn 28.nóvember 2023. Gróttukonan Arnfríður Auður Arnarsdóttir, betur þekkt sem Aufí, er í hópnum. Þrátt fyrir ungan aldur lék Aufí lykilhlutverk í liði Gróttu í Lengjudeildinni í sumar en hún er einungis 15 ára gömul. Aufí lék 16 leiki í Lengjudeildinni í sumar og skoraði í þeim sjö mörk.
Gaman er að segja frá því að Aufí er eini leikmaður hópsins sem fædd er 2008, en aðrir leikmenn eru fæddir árið 2007. Knattspyrnudeild Gróttu er hreykin af því að eiga svona flottan fulltrúa í hópnum.
Leikirnir við Svíþjóð munu fara fram á Íslandi 29.nóvember og 1.desember 2023 í Miðgarði Garðabæ. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Aufí innilega til hamingju með valið og góðs gengis í verkefninu framundan!

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Rebekka á leiðinni til Portúgal með U15 ára landsliðinu 

Magnús Örn Helgason, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið hóp sem tekur þátt í UEFA Development Tournament. Gróttukonan Rebekka Sif Brynjarsdóttir hefur verið valin í hópinn. Rebekka er 14 ára gömul og gríðarlega efnileg knattspyrnukona. Hún lék tvo leiki með meistaraflokki Gróttu í Lengjudeildinni í sumar og skoraði í þeim eitt mark. Þá lék hún einnig með 3. flokki kvenna og 4. flokki karla og kvenna í sumar þar sem hún skoraði samtals 30 mörk. Mótið verður haldið í Lissabon í Portúgal dagana 17.-23. nóvember, en liðið æfir í tvígang á Íslandi fyrir brottför. Knattspyrnudeild Gróttu óskar Rebekku innilega til hamingju með valið og góðs gengis á mótinu!