Garðar 80 ára í dag

„Ungum verzlunarmanni hjá Jes Zimsen í Hafnastræti datt í hug fyrir tæpu ári, að það væri ekki fráleitt að stofna knattspyrnufélag í hans bæjarhverfi. Félagið var stofnað 10. febrúar 1966 (innskot: formleg stofnun félagsins var 24. apríl 1967)  og vitanlega fékk það nafnið Knattspyrnufélagið Grótta, því félagið er staðsett á Seltjarnarnesi.  Garðar Guðmundsson, en svo heitir þessi ungi maður, var í sumar einn með 126 stráka á æfingum. Hann var jafnframt formaður félagsins, ritari og gjaldkeri. Hann var allt í öllu og rak Knattspyrnufélagið eins og einkafyrirtæki sem dafnaði í hans höndum dag frá degi.”

Þannig byrjar frétt úr dagblaðinu Vísi 13. janúar 1967 um fyrstu skref Íþróttafélagsins Gróttu undir stjórn Garðars. Í dag 19. maí 2022 fagnar Garðar stórum áfanga er hann fagnar 80 ára afmæli sínu.

Á laugardaginn verður haldið fótboltamót á Vivaldivellinum til heiðurs Garðari sem við hvetjum Gróttufólk til að fjölmenna á, en mótið verður á Vivaldivellinum á milli 10:15 og 14:00. Garðar hefur þjálfað Old Boys í Gróttu í alls 38 ár – byrjaði árið 1984 og geri aðrir betur.

Íþróttafélagið Gróttu óskar Garðari innilega til hamingju með stórafmælið og þakkar honum fyrir hans framlag í þágu félagsins.

Meistaraflokkur karla byrjar Lengjudeildina vel

Meistaraflokkur karla hóf keppni í Lengjudeild karla laugardaginn 7. maí þegar drengirnir tóku á móti Vestra á Vivaldivellinum. Heimamenn uppskáru vel og fór leikurinn 5-0 fyrir Gróttu. Mörk Gróttu skoruðu Luke Rae (2), Kristófer Orri, Kjartan Kári og Sigurður Hrannar. Eftir geggjaða byrjun á sumrinu átti Grótta fimm fulltrúa í liði umferðarinnar, fjóra leikmenn og Chris Brazell þjálfara Gróttu. Luke Rae var valinn besti leikmaður umferðarinnar og þá voru markvörðurinn Jón Ívan Rivine, fyrirliðinn Arnar Þór Helgason og Kjartan Kári Halldórsson einnig í liðinu. Grótta átti flesta fulltrúa í liði umferðarinnar eftir stórsigurinn. Þá var Chris Brazell þjálfari Gróttu valinn þjálfari umferðarinnar. Næsti heimaleikur hjá drengjunum er fimmtudaginn 19. maí kl. 19:15 á móti HK! Sjáumst á Vivaldi!

6. flokkur karla og kvenna og 7. flokkur kvenna á TM móti Stjörnunnar

6. flokkur karla skellti sér á TM Stjörnunnar á sumardaginn fyrsta og helgina eftir á fylgdu 6. og 7. flokkur kvenna fast á eftir og tóku þátt í mótinu. Grótta fór með 14 lið á mótið í heild sinni, sex frá 6. flokki karla, fimm frá 6. flokki kvenna og þrjú frá 7. flokki kvenna. Krakkarnir skemmtu sér mjög vel á fyrsta stórmóti sumarsins og stóðu sig með prýði eins og við var að búast!

Skráning á sumarnámskeið

Sumarstarfið verður með hefðbundu sniði og verður gott framboð af spennandi afþreyingu fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6 -18 ára á Seltjarnarnesi, líkt og undanfarin ár. Skráning opnar þriðjudaginn 3. maí kl. 12:00.

Halda áfram að lesa

Aðalfundir Gróttu – Þröstur nýr formaður

Aðalfundir deilda og ráða Íþróttafélagsins Gróttu fóru fram í gærkvöldi, þriðjudaginn 26. apríl og fóru þeir fram í hátíðarsal félagsins. 

Guðmundur Sigurbergsson formaður UMSK hélt um fundarstjórnina en fundurinn hófst með skýrslu Braga Björnssonar, formanns aðalstjórnar og í kjölfarið komu formenn og gjaldkerar deilda og ráða í pontu og fóru yfir starfið á árinu og rekstrarniðurstöður. 

Heilt yfir gekk rekstur félagsins vel á árinu og hefur reksturinn almennt verið í góðu jafnvægi á árinu 2021 þrátt fyrir að covid faraldurinn hafði minnt á sig.

Þröstur Guðmundsson tók við formennsku aðalstjórnar af Braga Björnssonar sem lætur af störfum eftir formennsku í 4 ár.   Aðrar breytingar á aðalstjórn eru að Anna Björg Erlingsdóttir og Svala Sigurðardóttir koma nýjar í stjórn en Bragi og Fanney Rúnarsdóttir fara úr stjórn. 

Stjórn fimleikadeildar og handknattleiksdeildar er óbreytt.
Í stjórn unglingaráðs handknattleiksdeildar var sú breyting að Guðrún Dóra Bjarnadóttir kemur inn í stað Hildar Ýrar Hjálmarsdóttir. 

Stjórn knattspyrndudeildar er sú breyting að Pétur Ívarsson og Margrét Dagbjört Flygenring Pétursdóttir hverfa úr stjórn en inn koma Helgi Héðinsson, Hildur Ólafsdóttir og Stefán Bjarnason. 

Gefin var út glæsileg árskýrsla fyrir síðasta ár:
https://grotta.is/wp-content/uploads/2022/04/A%CC%81rssky%CC%81rsla-Gro%CC%81ttu-2021-ok-web.pdf

Eyjólfur Garðarsson ljósmyndari félagsins mætti svæðið og tók frábærar myndir sem lýsa vel heppnuðum aðalfundi. 

Heimaleikjakort til sölu

Heimaleikjakort knattspyrnudeildar Gróttu eru komin í sölu. Við hvetjum alla stuðningsmenn til að næla sér í kort á kostakjörum. Handhafar heimaleikjakorta njóta forgangs á völlinn. Sala heimaleikjakorta fer fram í vefverslun grotta.is/knattspyrnudeild/heimaleikjakort

Halda áfram að lesa

Grótta komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins

Meistaraflokkur karla unnu stórsigur gegn 4-deildarliði KM á Vivaldivellinum í gærkvöldi!

Áhorfendur kvöldsins voru ekki sviknir í gærkvöldi þegar Grótta gerði sér lítið fyrir og vann KM 12-0 í annarri umferð Mjólkurbikarsins á Vivaldivellinum!
Mörk Gróttu skoruðu Kjartan Kári Halldórsson, Arnar Þór Helgason (4), Luke Rae, Gunnar Jónas Hauksson, Sigurður Hrannar Þorsteinsson, Benjamin Friesen (3) og Arnar Daníel Aðalsteinsson ⚽️

Aðalfundir Gróttu næsta þriðjudag

Aðalfundir aðalstjórnar og deilda Íþróttafélagsins Gróttu fara fram þriðjudaginn næsta (26. apríl)
Aðalfundirnir hefjast kl. 17:30 og er gert ráð fyrir að þeim sé lokið kl. 18:30.

Eftir að aðalfundum lýkur verður öllum fundargestum boðið upp á léttar veitingar.

Eyrún, Rebekka, Sara og Aufí valdar í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttustúlkurnar Eyrún Þórhallsdóttir, Rebekka Sif Brynjarsdóttir, Sara Björk Arnarsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir voru valdar til að taka þátt í Hæfileikamótun N1 og KSÍ þann 5. apríl í síðustu viku. Æfingin fór fram á Vivaldivellinum og voru 25 stúlkur frá Gróttu, KR, Val, Víking R. og Þrótti R. í hópnum sem æfði saman. Vel gert stelpur! 

Arnór, Fannar, Kári og Patrekur í Hæfileikamótun KSÍ

Gróttudrengirnir Arnór Alex Óskarsson, Fannar Hrafn Hjartarson, Kári Kristjánsson og Patrekur Ingi Þorsteinsson hafa verið valdir til að taka þátt í æfingu í Hæfileikamótun N1 og KSÍ á Suðvesturlandi. Tæplega þrjátíu leikmenn frá fimm félögum taka þátt í æfingunum. 

Æfingin fer fram í knatthúsi ÍR í Breiðholti mánudaginn 11.apríl 2022 undir stjórn Lúðvíks Gunnarssonar þjálfara í Hæfileikamótun. 

Gangi ykkur vel strákar!