Æfingagjöld

Kæru foreldrar og forráðamenn

Við minnum á greiðslu æfingagjalda og hvetjum ykkur til að ganga frá skráningu iðkenda í gegnum Abler.

Æfingagjöldin eru forsenda þess að iðkandi gerist löglegur og geti tekið þátt í keppnum á vegum félagsins. Einnig eru þau lífæð félagsins í rekstri deilda.

Fyrirfram þakkir
#okkargrótta

Boltaskóli Gróttu

!!NÝTT!!

Knattspyrnu og handknattleiksdeildir Gróttu ætla að bjóða uppá Boltaskóla fyrir börn fædd 2022 á sunnudögum í vetur kl. 09:15.

Haustönn 21. september til 16.nóvember.

Skemmtilegt námskeið þar sem að við leggjum áherslu á að foreldri/forráðamaður og barn njóti gæðastundar saman í tímanum þar sem unnið er með leik og hreyfingu með bolta og önnur áhöld.

Námskeiðið er sett upp þannig að einn forráðamaður mætir með barninu í tímann og er með barninu í leik og starfi.

Skráning fer fram hér

Hlökkum til að sjá ykkur!

Hansína og Arndís María

Fríða er nýr framkvæmdastjóri Gróttu

Málfríður Sigurhansdóttir nýráðin framkvæmdastjóri félagsins hóf störf síðastliðinn mánudag. Við bjóðum hana velkomna og þökkum jafnframt Jóni Sigurðssyni fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir samstarfið og vel unnin störf fyrir félagið.

Málfríður eða Fríða eins og hún er gjarnan kölluð hefur margra ára og víðtæka reynslu af störfum í íþróttageiranum og bindum við miklar vonir til hennar að leiða félagið í gegnum uppbyggingu, samþættingu og að öll Gróttu hjörtu slá í takt hvernig sem þau tengjast félaginu. Fríða starfaði meðal annars hjá Fjölni í tæp 18 ár og 10 ár þar á undan í stjórnum deilda, er í stjórn UMFÍ, var lengi í stjórn hjá sérsambandi og hefur setið í ótal nefndum og ráðum innan hreyfingarinnar. Fríða ólst upp á Seltjarnarnesi og byrjaði ung að árum að æfa íþróttir hjá Gróttu. Við bjóðum Fríðu hjartanlega velkomna heim í Gróttu!

Samstarfi við KR slitið

Fyrr í dag var okkur í stjórn knattspyrnudeildar Gróttu tilkynnt um að stjórn knattspyrnudeildar KR hefði ákveðið að slíta samstarfi við Gróttu í 2., 3. og 4. flokki kvenna. Ávörðunin tekur gildi frá og með lokum keppnistímabils í Íslandsmóti. Þessi ákvörðun var tilkynnt án nokkurs fyrirvara og kemur okkur á óvart. Að okkar mati hefur samstarfið borið góðan ávöxt hingað til og skapað svigrúm til að veita sem flestum iðkendum verkefni við hæfi.

Knattspyrnudeild Gróttu mun halda sínu striki og starfrækja alla yngri flokka kvenna á komandi tímabili þar sem haldið verður áfram að byggja ofan á það frábæra starf sem unnið hefur verið í kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi. Eins og kunnugt er er meistaraflokkur kvenna í toppbaráttu í Lengjudeildinni annað tímabilið í röð og uppaldar Gróttustelpur hafa skilað sér upp í liðið nær árlega. Og við erum rétt að byrja. Tilkynnt verður um þjálfara og æfingatíma á næstunni. Allt kapp verður lagt á að byggja upp sterka einstaklinga og frambærilegar knattspyrnukonur til framtíðar.

Við þökkum nágrönnum okkar í KR fyrir samstarfið og óskum félaginu velfarnaðar.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Gróttu mun boða foreldra í viðeigandi flokkum á upplýsingafund í næstu viku þar sem farið verður betur yfir næstu skref.

Virðingarfyllst,

Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu

Aufí og Rebekka á leið til Finnlands með U16 ára landsliðinu

Gróttukonurnar Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Rebekka Sif Brynjarsdóttir eru á leið til Finnlands með U16 ára landsliðinu sem tekur þátt í Norðurlandamótinu dagana 1. til 7. júlí næstkomandi. Knattspyrnudeild Gróttu er hreykin af því að eiga svona flotta fulltrúa innan þessa hóps. Aufí og Rebekka eru báðar leikmenn meistaraflokks Gróttu og gríðarlega efnilegar knattspyrnukonur.

Ísland mætir Englandi í fyrsta leik sínum á mótinu mánudaginn 1. júlí kl. 10:00. Úrslit leiksins skera svo úr um það hvaða liði það mætir í leik tvö og þrjú.
Það verður spennandi að fylgjast með þeim í Finnlandi í júlí!

Til hamingju stelpur og gangi ykkur vel!

Leikjadagatal í júní

Sjáumst á vellinum í júní!

Hér má sjá dagskránna í júní og hvetjum við Gróttufólk að vista þessa mynd hjá sér og taka dagana frá. Gulmerktu dagarnir eru kvennaleikir og blámerktu eru karlaleikir ??

ÁFRAM GRÓTTA!