Jón Ómar í Gróttu

Jón Ómar Gíslason hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Jón Ómar er fæddur árið 2000 og leikur aðallega sem skytta. Hann kemur frá Herði í Ísafirði þar sem hann er uppalinn. Undanfarin þrjú tímabilin hefur hann leikið alla leiki Harðar og verið með markahæstu mönnum. Í fyrra skoraði hann 80 mörk og var næstmarkahæsti leikmaður Ísfirðinga.

Koma Jóns Ómars styrkir raðirnar í Gróttu. Hann er kröftugur leikmaður og mun hjálpa liðinu mikið, bæði í vörn og sókn. „Við erum mjög ánægðir að fá Jón Ómar í Gróttu. Hann mun styrkja okkur mikið enda öflugur leikmaður á báðum endum vallarins“, sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn.

Velkominn í Gróttu, Jón Ómar !

Ólafur Brim í Gróttu

Ólafur Brim Stefánsson er kominn aftur í Gróttu. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Óli er 22 ára gömul skytta og lék með Gróttu tímabilin 2020-2021 og 2021-2022. Seinna tímabilið með Gróttu skoraði hann 92 mörk og var einn besti leikmaður liðsins. Hann staldraði stutt við í Fram á seinasta tímabili en þar lék hann stórt hlutverk í varnarleik liðsins.

„Það eru frábærar fréttir að Óli sé kominn aftur í Gróttu. Óli er öflugur á báðum endum vallarins. Hann er frábær varnarmaður og mun klárlega hjálpa okkur í þeirri baráttu sem framundan er í Olísdeildinni. Við hlökkum mikið að vinna með honum næstu árin“, sagði Róbert Gunnarsson þjálfari meistaraflokks karla þegar undirritunin var klár.

Handboltaskóli Gróttu

Handboltaskóli Gróttu hefur göngu sína í næstu viku. Skólinn markar upphaf handboltatímabilsins og því frábært forskot á sæluna áður en hefðbundnar æfingar hefjast samhliða skólabyrjun.

Skólinn er fyrir krakka f. 2012-2017 en krökkunum verður skipt upp eftir aldri þannig að öll njóti sín sem best. Byrjendur jafnt sem lengra komin eru velkomin. Krakkarnir eru beðnir um að taka með sér nesti.

Skólastjóri skólans er Patrekur Pétursson Sanko en auk hans munu okkar allra bestu þjálfarar þjálfa og leiðbeina krökkunum.

Boðið er upp á gæslu frá kl. 08:00-09:00 og síðan aftur frá kl. 12:00-13:00 að kostnaðarlausu.

Nánari upplýsingar: https://grotta.is/sumar-2023/

Skráning hérna: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Miðasala á Verbúðarballið hafin

Ekki missa af stærsta balli ársins – Verbúðarballinu 2023 – 9. september í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi.

Verbúðarbandið ásamt BUBBA MORTHENS & RÖGGU GÍSLA gera allt vitlaust.

Dagskrá:
21:00 Húsið opnar
Tilboð á barnum og vel valinn plötusnúður hitar upp.
23:00-1:00 Verbúðarbandið ásamt BUBBA MORTHENS & RÖGGU GÍSLA

Miðasala fer fram Tix.is tix.is/is/event/15690/verbu-arball-2023

Verð: 6.990.- kr frá og með 1. Júlí.

ATH 20 ára aldurstakmark er á ballið

Magnús Karl ráðinn yfirþjálfari

Magnús Karl Magnússon hefur verið ráðinn yfirþjálfari Handknattleiksdeildar Gróttu til næstu tveggja ára. Hann tekur við því öfluga starfi sem Maksim Akbachev hefur sinnt undanfarin ár við að leiða uppbyggingu handboltans í Gróttu í samvinnu við stjórn, verkefnastjóra og þjálfara deildarinnar.

Magnús Karl er uppalinn Eyjamaður og spilaði handbolta með ÍBV. Hann hefur sinnt handknattleiksþjálfun hjá yngri flokkum ÍBV og Vals sem og styrktarþjálfun.
Magnús Karl er íþróttafræðingur að mennt og með MSc. í íþróttasálfræði. Þá heldur hann úti heimasíðunni andlegurstyrkur.is og hjálpar íþróttafólki að vinna að markmiðum sínum.

Það er mikil tilhlökkun hjá stjórn Barna-og unglingaráðs Gróttu fyrir komandi tímabilum með Magnús Karl við stjórnina enda á ferðinni metnaðarfullur og kraftmikill þjálfari.

Við óskum Magnúsi Karli til hamingju með nýja hlutverkið og bjóðum hann hjartanlega velkominn í Gróttu

Grótta leitar að verkefnastjóra

Íþróttafélagið Grótta óskar eftir því að ráða öflugan verkefnastjóra á skrifstofu
aðalstjórnar félagsins í 100% starf. Um er að ræða fjölbreytt, krefjandi og lifandi starf.
Gert er ráð fyrir að ráðið sé í starfið frá 1. ágúst.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Hefur umsjón með viðburðum félagsins og hefur aðkomu að mótahaldi
  • Leiðir umbótavinnu við gerð verkferla
  • Leiðir samstarf innan sem utan félags
  • Ritstjórn miðla, samræming kynningarefnis og innleiðing skýjalausna
  • Almenn þjónusta við félagsmenn og samskipti við hagsmunaaðila

Kröfur um hæfni (þekking, færni, eiginleikar):

  • Háskólagráða sem nýtist í starfi
  • Góð samstarfs- og samskiptahæfni
  • Frumkvæði, sjálfstæði, skipulagshæfni og ögun í vinnubrögðum
  • Góð tölvufærni og hæfni til að tjá sig í ræðu og riti
  • Hreint sakavottorð

Umsóknarfrestur er til og með 31. maí 2023.
Sótt er um starfið á umsóknarvef Alfreðs: Íþróttafélagið Grótta (alfred.is)
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á grotta@grotta.is

Lokahóf Handknattleiksdeildar

Á miðvikudaginn fór fram lokahóf Handknattleiksdeildar Gróttu þar sem meistaraflokkar félagsins, þjálfarar, sjálfboðaliðar og starfsfólk kom saman og gerði upp tímabilið. Lokahófið var haldið í Hátíðarsal Gróttu.

Veittar voru viðurkenningar til þeirra sem sköruðu fram úr í vetur.

Meistaraflokkur kvenna

Mikilvægasti leikmaður – Katrín Helga Sigurbergsdóttir
Efnilegasti leikmaður – Katrín Anna Ásmundsdóttir
Besti leikmaður – Ída Margrét Stefánsdóttir

Ungmennalið karla

Mikilvægasti leikmaður – Sigurður Finnbogi Sæmundsson
Besti leikmaður – Ari Pétur Eiríksson

Meistaraflokkur karla

Mikilvægasti leikmaður – Einar Baldvin Baldvinsson
Stríðsmaðurinn – Hannes Grimm
Besti leikmaður – Birgir Steinn Jónsson

Þeir leikmenn sem höfuð náð leikjaáföngum fengu verðlaun en það voru:

50 leikir fyrir Gróttu
Andri Þór Helgason (68 leikir)
Birgir Steinn Jónsson (65 leikir)
Ísak Arnar Kolbeins (54 leikir)
Lilja Hrund Stefánsdóttir (59 leikir)
Lúðvík Thorberg Arnkelsson (62 leikir)

100 leikir fyrir Gróttu
Anna Katrín Stefánsdóttir (103 leikir)
Ágúst Emil Grétarsson (109 leikir)
Katrín Helga Sigurbergsdóttir (116 leikir)
Rut Bernódusdóttir (105 leikir)
Þorgeir Bjarki Davíðsson (102 leikir)

Við óskum þessum verðlaunahöfum til hamingju og hlökkum til að sjá þá og liðin okkar aftur í haust í Olísdeildinni, Grill 66-deildinni og 2.deild karla.

Ída Margrét, Katrín Anna og Katrín Helga

Sigurður Finnbogi og Ari Pétur

Einar Baldvin, Birgir Steinn og Hannes Grimm

Lúðvík Thoberg, Þorgeir Bjarki, Birgir Steinn, Andri Þór, Ísak Arnar og Ágúst Emil

Lilja Hrund, Rut, Katrín helga og Anna Katrín

Soffía semur við Gróttu

Markvörðurinn Soffía Steingrímsdóttir hefur samið við Gróttu til næstu þriggja ára. Soffíu þekkir allt Gróttufólk enda uppalin í félaginu og leikið með Gróttu til fjölda ára. Seinasta haust skipti Soffía yfir í Fram en kom til baka á láni seinni hluta tímabilsins og stóð sig frábærlega.

Soffía er fædd árið 2000 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún leikið 123 leiki fyrir Gróttu.

„Það eru frábærar fréttir að Soffía verði hjá okkur næstu þrjú árin enda frábær markvörður með mikla reynslu. Soffía er auk þess mikill karakter sem við bindum miklar vonir við að verði í lykilhlutverki við atlöguna að Olísdeildarsæti á næsta tímabili“, sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson þegar samningar voru í höfn.