Domino´s og Grótta áfram í samstarfi

Handknattleiksdeild Gróttu og Domino´s Pizza hafa endurnýjað samstarfið til næstu þriggja ára. Það var Ásmundur Atlason markaðsstjóri Domino´s Pizza og Arnkell Bergmann Arnkelsson sem skrifuðu undir samninginn í hálfleik á leik Gróttu og HK í Olísdeild karla í gærkvöldi.

Domino´s Pizza þarf vart að kynna fyrir Íslendingum en fyrsta verslunin var stofnuð 1993 á Grensásveginum. Núna eru 22 verslanir um allt land.

Domino´s Pizza veitir Gróttufólki 30% afslátt af öllum sóttum pizzum á matseðli Domino’s þegar pantað er á netinu eða með appi. Kóðinn er: Grótta22 og virkar hann ekki með öðrum tilboðum. Lágmarkspöntun er 1.000 kr fyrir afslátt.

Handknattleiksdeild Gróttu hlakkar mikið til áframhaldandi samstarfs við Domino´s Pizza.

Æfingar 9.flokks að hefjast

Handknattleiksdeild Gróttu er að hefja aftur æfingar fyrir krakka á leikskólaaldri fædda 2018 og 2019. Æfingarnar eru á laugardögum kl. 09:20-10:10 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfari flokksins er Ingi Þór Ólafson ásamt aðstoðarþjálfurum.

Þarna gefst krökkum á leikskólaaldri að kynnast handbolta með reglubundnum æfingum einu sinni í viku. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu. Fyrsta æfing verður 2.september. Við hvetjum alla til prófa.

Skráning fer fram í Sportabler sportabler.com/shop/grotta/handbolti og er verðið fyrir haustönnina 23.400 kr. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á netfangið magnuskarl@grotta.is.

ÆFINGATAFLA VETRARINS TILBÚIN

Æfingar hjá yngri flokkum Gróttu (5. – 8.flokki) hefjast samhliða skólabyrjun eða þriðjudaginn 22.ágúst. Æfingar 3. og 4.flokks hafa verið frá byrjun ágúst. Núna í ágústmánuði hefur Handboltaskóli Gróttu og Afreksskóli Gróttu verið starfræktur. Seinasti dagur námskeiðsins er á morgun, mánudaginn 21.ágúst.

Allar upplýsingar um 9.flokkinn verða tilkynntar í næstu viku. Æfingar 9.flokks hefjast laugardaginn 2.september.
Búið er að ráða alla aðalþjálfara handboltans fyrir tímabilið og mun öflugur hópur þjálfara vera við störf hjá deildinni í vetur.

  • 8. flokkur karla – Magnús Karl Magnússon
  • 8. flokkur kvenna – Arndís María Erlingsdóttir og Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir
  • 7. flokkur karla – Hannes Grimm
  • 7. flokkur kvenna – Ari Pétur Eiríksson
  • 6. flokkur karla Hannes Grimm
  • 6. flokkur kvenna – Ari Pétur Eiríksson
  • 5. flokkur karla – Elvar Orri Hjálmarsson
  • 5. flokkur kvenna – Patrekur Pétursson Sanko
  • 4. flokkur karla – Andri Sigfússon
  • 4. flokkur kvenna – Magnús Karl Magnússon
  • 3. flokkur karla – Andri Sigfússon
  • 3. flokkur kvenna – Einar Örn Jónsson
  • Ungmennalið karla – Davíð Örn Hlöðversson

Allar fyrirspurnir um handboltastarfið er hægt að nálgast hjá Magnúsi Karli Magnússyni yfirþjálfara deildarinnar á netfanginu magnuskarl@grotta.is

Áfram Grótta og Grótta/KR !

Katrín Anna á EM í Rúmeníu

Sumarið var viðburðaríkt hjá Katrínu Önnu Ásmundsdóttur. Í júní fór hún ásamt U19 ára landsliðinu til Færeyja og lék tvo vináttulandsleiki við heimakonur. Fyrri leiknum lauk með sigri 29-26 en síðari leiknum lauk með tapi 25-31. Leikirnir voru mikilvægir í undirbúningi liðsins fyrir EM í Rúmeníu í júlí.

U19 ára landsliðið var í erfiðum riðli á EM. Liðið beið lægri hlut gegn Rúmeníu, Þýskalandi og Portúgal í riðlakeppninni en var grátlega nálægt sigri í leiknum gegn Þjóðverjum. Í keppninni um 13. – 24.sætið byrjaði liðið á ósigri gegn Hollandi en vann síðan alla leikina sem komu í kjölfarið; gegn Króatíu, Norður Makedóníu og Serbíu og 13.sætið staðreynd. Katrín Anna átti frábært mót og skoraði 32 mörk. Hún var einnig valin maður leiksins í leiknum gegn Króatíu.

Með þessum úrslitum tryggði íslenska liðið sér keppnisrétt á HM á næsta ári en mótið fer fram í Norður Makedóníu.

Til hamingju Katrín Anna og til hamingju U19 kvenna og þjálfarar !

Myndir: EHF og HSÍ

Aukadagur í Handboltaskóla Gróttu

Vegna fjölda fyrirspurna þá höfum við bætt við einum degi til viðbótar í Handboltaskóla Gróttu. Þessi aukadagur er mánudagurinn 21.ágúst.

Eins og hefur verið undanfarnar vikur, þá er skólinn frá kl. 09:00-12:00 en boðið er upp á endurgjaldslausa gæslu frá kl. 08:00-09:00 og aftur kl. 12:00-13:00. Krakkarnir þurfa að taka með sér nesti.

Verðið er 2000 kr og fer skráningin fram í Sportabler. Eins og áður er Patrekur Pétursson Sanko skólastjóri og er með einvala lið þjálfara með sér til að leiðbeina og þjálfa.

Skráning: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Þakkir frá Antoine og Katrínu Önnu

Í júlí fór fram sala á ýmsum varningi til styrktar landsliðsfólkinu okkar Antoine Óskari og Katrínu Önnu en þau fóru út í sumar með unglingalandsliðum Íslands. Antoine fór á Opna Evrópumótið í Svíþjóð og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Slóveníu. Katrín Anna fór og lék vináttulandsleiki í Færeyjum og fór á EM í Rúmenínu.

Þessar ferðir kosta krakkana meira en 300.000 kr sem þau þurfa að standa straum af sjálf. Til að aðstoða þau setti Handknattleiksdeild Gróttu af stað fjáröflun til styrktar þeim.

Þó að sölunni sé lokið er enn þá hægt að styrkja þeim með því að leggja inn á fjáröflunareikning þeirra hjá Gróttu. Margt smátt gerir eitt stórt !

512-14-400209

kt. 700371-0779

Antoine Óskar og Katrín Anna vilja þakka öllum þeim sem styrktu þau, kærlega fyrir. Takk !

Frábær vika á Partille Cup

4. og 5. flokkur karla og kvenna í handboltanum í Gróttu fór á stærsta og flottasta handboltamót í heimi, Partille Cup dagana 2. til 9. júlí síðastliðinn. Á mótinu léku rúmlega 20 þúsund keppendur frá öllum heimshornum. Gróttuhópurinn taldi 75 manns og tefldum við fram sjö liðum. Liðin léku í riðlakeppni fyrstu keppnisdagana þar sem Gróttuliðin mættu fimm andstæðingum. Á föstudeginum og laugardeginum léku liðin síðan í útsláttarkeppninni þar sem liðin komust mislangt. Nær öll Gróttuliðin komust í A-úrslitin sem þýddi að þau léku gegn erfiðum andstæðingum á föstudeginum og laugardeginum. Bestum árangri náði bæði strákaliðin í 13 ára aldursflokknum sem fóru alla leið í 16 liða úrslit A-úrslitanna. Öll liðin okkar stóðu sig vel innan sem utanvallar. Okkar krakkar fengu mikið hrós fyrir umgengni og framkomu.

Fyrir utan keppnina sjálfa var dagskráin þétt setin. Krakkarnir fóru í vatnsrennibrautargarðinn Skara Sommarland, sáu íslenska U17 ára landsliðið ná 5.sætinu á opna Evrópumótinu sem var haldið samhliða Partille Cup. Krakkarnir fóru í Liseberg, glæsilegan skemmtigarð í miðbæ Gautaborgar, þeir kíktu í verslunarleiðangur, nutu lífsins við Kåsjön vatnið í Partille, horfðu á ótal handboltaleiki og margt fleira. Segja má að vikan hafi verið viðburðarík og skilur eftir ótal minningar hjá Gróttukrökkunum.

Draumaferð til Þýskalands

3.flokkur karla fór í sannkallaða draumaferð til Þýskalands um miðjan júnímánuð. Strákarnir dvöldu fyrstu dagana í Leipzig þar sem þeir æfðu og léku þrjá æfingaleiki við heimamenn. Fyrstu tveir leikirnir voru við jafnaldra strákanna frá Leipzig en seinasti leikurinn var gegn úrvalsliði Saxlands-héraðs. Leikirnir gengu frábærlega. Okkar strákar léku gríðarlega vel og unnu alla þrjá leikina örugglega. Seinasta daginn í Leipzig bauð atvinnu- og landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson strákunum heim til sín í grill og spjall. Strákarnir nutu heimsóknarinnar vel og þökkum við Gróttumanninum kærlega fyrir heimboðið.

Seinustu þrír dagar ferðarinnar voru í Köln þar sem Final 4 í meistaradeildinni fór fram í glæsilegri Lanxess-íþróttahöllinni. Þar sáu strákarnir hverja stórstjörnuna á fætur annarri og að lokum Magdeburg með Gísla Þorgeir Kristjánsson í fararbroddi verða Evrópumeistara eftir frábæra leiki.

Ferðin mun án efa skilja eftir ótal minningar enda vel heppnuð ferð hjá strákunum.

Lúðvík áfram í Gróttu

Lúðvík Thorberg Arnkelsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Hann er fæddur árið 1997 og kom til félagsins fyrir þremur árum síðan. Hann getur bæði leikið sem skytta og leikstjórnandi. Lúðvík glímdi við meiðsli í fyrra og gat ekki beitt sér af fullum krafti allt leiktímabilið. Þrátt fyrir það skoraði hann 51 mark fyrir Gróttu.

Það eru mikil gleðitíðindi að Lúðvík verði áfram í Gróttu enda virkilega öflugur leikmaður. Hann hefur gott auga fyrir spili og hefur stýrt leik Gróttuliðsins afskaplega vel á undanförnum árum. „Lúðvík er mjög góður handboltaleikmaður sem við lögðum kapp á að tryggja áfram í Gróttu. Það er von okkar að hann muni stíga enn frekar upp í vetur enda hefur hann alla burði í það. Við erum himinlifandi“, sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttuliðsins.

Mynd: Eyjólfur Garðarsson

Narayama semur við Gróttu

Handknattleiksdeild Gróttu hefur samið við Japanann Shuhei Narayama um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Narayama er 27 ára gamall og kemur frá félaginu Wakunaga Leolic í Japan. Hann er 196 cm á hæð og er markvörður.

Grótta hefur verið með Japana í sínum herbúðum undanfarin þrjú tímabilin. Félagið var með örvhenta hornamanninn Saturo Goto á láni 2020-2021 og seinustu tvö tímabilin var Akimasa Abe í félaginu. Þeir báðir komu einmitt frá sama félagi, Wakunaga Leolic. Það er ánægjulegt að gott samstarf Gróttu og Wakunaga haldi áfram.

„Við bindum vonir við að Narayama muni styrkja leikmannahópinn okkar í vetur og smellipassi inn í æfingakúltúrinn okkar. Forvarar hans frá Japan höfðu góð áhrif á Gróttuliðið og við vonum að sama verði uppi á teningnum með Narayama“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu þegar markvörðurinn hávaxni kom á sína fyrstu æfingu í gær.

Það er gaman að segja frá því að Narayama á einmitt 27 ára afmæli í dag. Til hamingju með afmælið og velkominn í Gróttu, Shuhei Narayma !

Á myndinni má sjá Davíð Örn Hlöðversson aðstoðarþjálfari Gróttuliðsins ásamt Shuhei Narayama.