Rúmlega 70 Gróttustelpur á Símamótinu

Rúmlega 70 Gróttustelpur spiluðu á Símamótinu helgina 8.-10. júlí, stærsta fótboltamóti landsins, sem er haldið ár hvert í Kópavogi. Grótta fór með 11 lið á mótið, fjögur úr 7. flokki, fimm úr 6. flokki og tvö úr 5. flokki. Leikið var á vallarsvæðum Breiðabliks föstudag, laugardag og sunnudag en mótið hófst með skrúðgöngu á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöld. Símamótið verður að teljast hápunktur ársins hjá knattspyrnustúlkum um allt land, þar sem fótbolti er spilaður í þrjá daga og ógleymanlegar minningar skapaðar. Gróttustelpur mættu ákveðnar til leiks, sýndu dugnað og baráttuvilja og spiluðu fallegan fótbolta. Gróttuliðin hétu öll eftir leikmönnum meistaraflokks kvenna líkt og í fyrra og skapaði það góða stemningu. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum kíktu leikmenn meistaraflokks kvenna á sín lið um helgina sem vakti mikla lukku meðal stelpnanna.
Eitt Gróttulið fór heim með bikar og eitt með silfurmedalíu, en öll liðin stóðu sig ótrúlega vel. Grótta Edda Steingríms í 6. flokki sigldi sigri heim í úrslitaleik gegn Víking. Leikurinn fór 4-3 og var gríðarlega spennandi en sigurmarkið var skorað á síðustu mínútunni. Grótta Tinna Bjarkar í 6. flokki komst einnig í úrslit en tapaði naumlega 3-2 gegn Stjörnunni í úrslitaleik og þurftu stelpurnar að sætta sig við silfrið eftir ótrúlegan baráttuleik. Grótta Lilja Lív í 6. flokki komst alla leið í undanúrslit í hæsta styrkleikaflokki 6. flokks á mótinu en laut lægra haldi fyrir Val í undanúrslitum, 3-2, eftir hörkuleik. Grótta Lilja Lív mega þó vera stoltar af því að hafa verið meðal top fjögurra liða af 160 liðum í 6. flokki á mótinu, en Grótta er svo sannarlega hreykið af þeim árangri. Grótta Margrét Rán í 5. flokki komst einnig í undanúrslit og nældi sér í 3. sætið eftir góðan sigur gegn FH.
Gróttustúlkur höfðu beðið lengi í eftirvæntingu eftir Símamótinu og það má segja að það hafi heldur betur staðið undir væntingum. Stelpurnar skemmtu sér vel og eru eflaust farnar að telja niður í næsta Símamót! 

3. flokkur kvenna komnar í undanúrslit bikarsins

3. flokkur kvenna eru komnar áfram í undanúrslit bikarsins!!💪🏼🏆
Grótta/KR vann öruggan sigur á Fjölni í 8-liða úrslitum bikarsins í gær á KR-velli en leikurinn fór 5-1 fyrir heimastúlkum. Mörk Gróttu/KR skoruðu Katla Guðmundsdóttir (3), Helga Sif Bragadóttir og Rakel Grétarsdóttir ⚽️
Vel gert stelpur! 👊🏼

Tinna fyrst í meistaraflokki kvenna til að spila 100 leiki

Tinna Bjarkar Jónsdóttir, fyrirliði Gróttu, náði þeim merka áfanga þann 18. júní sl. að spila sinn 100. leik fyrir Gróttu en hún er fyrsti leikmaður meistaraflokks kvenna sem nær þeim áfanga!
Fyrir leik Gróttu og Álftanes í gær var Tinnu veittur blómvöndur frá knattspyrnudeildinni í tilefni dagsins. Leikurinn endaði þó í svekkjandi 1-1 jafntefli en María Lovísa Jónasdóttir skoraði eina mark Gróttu.
Knattspyrnudeild Gróttu óskar Tinnu innilega til hamingju með þennan glæsilega áfanga!

Arnar Þór og Kristófer Orri komnir í 100 leikja klúbbinn

Gróttumenn tóku á móti HK í þriðju umferð Lengjudeildar karla þann 19. maí sl. Áður en leikurinn var flautaður á veitti Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, þeim Arnari Þór Helgasyni og Kristófer Orra Péturssyni blómvendi í tilefni þess að þeir hafa spilað 100 leiki fyrir Gróttu. Arnar Þór var að spila sinn 106. leik fyrir Gróttu og Kristófer Orri þann 100. Gróttumenn sóttu sér þrjú stig í kvöld eftir hörkuleik við HK. Staðan var 0-0 í hálfleik en Grótta var mun beinskeyttara liðið í síðari hálfleik og uppskar eftir því. Leikurinn fór 2-0 fyrir heimamönnum en mörk Gróttu skoruðu Sigurbergur Áki Jörundsson og Kjartan Kári Halldórsson.

Knattspyrnudeild Gróttu fagnar því að Addi og Kristófer hafi náð þessum merka áfanga og hafa haldið góðri tryggð við klúbbinn. Megi þeir spila sem lengst!

Grótta fer vel af stað í 2. deild kvenna

Meistaraflokkur kvenna fer vel af stað í 2. deildinni en þær hófu leik á föstudagskvöld. Grótta tók á móti ÍH í fyrsta leik Íslandsmótsins á Vivaldivellinum föstudaginn 20. maí. Heimakonur unnu öruggan sigur en leikurinn fór 9-1 fyrir Gróttu! Mörk Gróttu skoruðu María Lovísa Jónsdóttir (2), Tinna Bjarkar Jónsdóttir (2), Bjargey Sigurborg Ólafsson (2), Lilja Lív Margrétardóttir, Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving.
Næsti leikur hjá stelpunum er á fimmtudaginn á Vopnafirði gegn Einherja.

Meistaraflokkur karla byrjar Lengjudeildina vel

Meistaraflokkur karla hóf keppni í Lengjudeild karla laugardaginn 7. maí þegar drengirnir tóku á móti Vestra á Vivaldivellinum. Heimamenn uppskáru vel og fór leikurinn 5-0 fyrir Gróttu. Mörk Gróttu skoruðu Luke Rae (2), Kristófer Orri, Kjartan Kári og Sigurður Hrannar. Eftir geggjaða byrjun á sumrinu átti Grótta fimm fulltrúa í liði umferðarinnar, fjóra leikmenn og Chris Brazell þjálfara Gróttu. Luke Rae var valinn besti leikmaður umferðarinnar og þá voru markvörðurinn Jón Ívan Rivine, fyrirliðinn Arnar Þór Helgason og Kjartan Kári Halldórsson einnig í liðinu. Grótta átti flesta fulltrúa í liði umferðarinnar eftir stórsigurinn. Þá var Chris Brazell þjálfari Gróttu valinn þjálfari umferðarinnar. Næsti heimaleikur hjá drengjunum er fimmtudaginn 19. maí kl. 19:15 á móti HK! Sjáumst á Vivaldi!

6. flokkur karla og kvenna og 7. flokkur kvenna á TM móti Stjörnunnar

6. flokkur karla skellti sér á TM Stjörnunnar á sumardaginn fyrsta og helgina eftir á fylgdu 6. og 7. flokkur kvenna fast á eftir og tóku þátt í mótinu. Grótta fór með 14 lið á mótið í heild sinni, sex frá 6. flokki karla, fimm frá 6. flokki kvenna og þrjú frá 7. flokki kvenna. Krakkarnir skemmtu sér mjög vel á fyrsta stórmóti sumarsins og stóðu sig með prýði eins og við var að búast!

Grótta komnir áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins

Meistaraflokkur karla unnu stórsigur gegn 4-deildarliði KM á Vivaldivellinum í gærkvöldi!

Áhorfendur kvöldsins voru ekki sviknir í gærkvöldi þegar Grótta gerði sér lítið fyrir og vann KM 12-0 í annarri umferð Mjólkurbikarsins á Vivaldivellinum!
Mörk Gróttu skoruðu Kjartan Kári Halldórsson, Arnar Þór Helgason (4), Luke Rae, Gunnar Jónas Hauksson, Sigurður Hrannar Þorsteinsson, Benjamin Friesen (3) og Arnar Daníel Aðalsteinsson ⚽️