Hákon fer til Svíþjóðar í sumar

Hákon fer til Svíþjóðar í sumar 🇸🇪

Knattspyrnudeild Gróttu hefur náð samkomulagi við IF Elfsborg um að Hákon Rafn Valdimarsson markvörður gangi til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið í félagaskiptaglugganum í sumar, að uppfylltum nánari skilmálum samningsins.

Hákon er 19 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið aðalmarkvörður Gróttu undanfarin þrjú tímabil. Hákon spilaði sinn fyrsta leik fyrir Gróttu árið 2017 en hann á að baki 61 leik fyrir félagið og hefur leikið í þremur efstu deildum með liðinu. Auk þess hefur Hákon leikið með U-19 ára landsliðinu sem og U-18 ára og var einnig í lokahópi U21-árs landsliðsins sem tók þátt á EM í mars síðastliðnum.

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með samninginn og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans í Svíþjóð á komandi misserum.

Eva, María og Nína skrifa undir

María Lovísa Jónasdóttir og Eva Karen Sigurdórsdóttir hafa framlengt samninga sína við Gróttu og þá hefur Nína Kolbrún Gylfadóttir einnig skrifað undir nýjan samning. 

María Lovísa er Gróttufólki að góðu kunn en hún er uppalin á Nesinu og spilaði sína fyrstu leiki með meistaraflokki árið 2019. Hún kom svo við sögu í öllum leikjum Gróttu í fyrra og hefur nú skorað 11 mörk í 31 meistaraflokksleik.

Eva Karen gekk til liðs við Gróttu í ágúst í fyrra, þá nýbúin með endurhæfingu eftir krossbandsslit. Eva lék fjóra leiki með 2. flokki í fyrra sem fagnaði sigri í B-deild Íslandsmótsins. Á árinu 2021 hefur Eva svo stimplað sig inn í meistaraflokk og verður í eldlínunni með Gróttu fram í ágúst þegar hún flytur til Texas til að stunda nám og spila fótbolta í Lamar háskóla. 

Nína Kolbrún er uppalin hjá Val en hún hefur ekki leikið fótbolta á Íslandi frá árinu 2017, meðal annars vegna erfiðra meiðsla. Nína hefur komið feikilega sterk inn í Gróttuliðið á síðustu vikum og mánuðum og er það því mikið gleðiefni að hún sé ákveðin í að spila í bláu næstu tímabilin.

Pétur Rögnvaldsson, annar þjálfara Gróttu fagnar því að stelpurnar hafi skrifað undir:
„Það eru frábær tíðindi fyrir Gróttu að búið sé að semja við Maríu, Evu og Nínu. Allar hafa þær staðið sig vel á síðustu mánuðum og eru mikilvægir hlekkir í Gróttuliðinu. Við hlökkum mikið til að vinna með þeim áfram næstu árin.“

María og Nína ásamt Kára Garðarssyni, framkvæmdastjóra Gróttu

Eva ásamt Pétri Rögnvaldssyni, þjálfara Gróttu

Meistaraflokkur kvenna áfram í Mjólkurbikarnum

Grótta lék við Fram í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins í kvöld og vann öruggan 4-0 sigur. Diljá Mjöll Aronsdóttir kom Gróttukonum snemma yfir með marki úr vítaspyrnu. María Lovísa Jónasdóttir jók forystu Gróttu á 34’ mínútu og Bjargey Sigurborg Ólafsson bætti svo við þriðja markinu á 55’ mínútu. Í blálokin skoraði síðan Diljá Mjöll Aronsdóttir sitt annað mark beint úr aukaspyrnu!
Stelpurnar eru því komnar áfram í aðra umferð Mjólkurbikarsins og spila við Aftureldingu eða Hauka sunnudaginn 16. maí.

Hákon fer til Svíþjóðar í sumar

Knattspyrnudeild Gróttu hefur náð samkomulagi við IF Elfsborg um að Hákon Rafn Valdimarsson markvörður gangi til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið í félagaskiptaglugganum í sumar, að uppfylltum nánari skilmálum samningsins.

Hákon er 19 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið aðalmarkvörður Gróttu undanfarin þrjú tímabil. Hákon spilaði sinn fyrsta leik fyrir Gróttu árið 2017 en hann á að baki 61 leik fyrir félagið og hefur leikið í þremur efstu deildum með liðinu. Auk þess hefur Hákon leikið með U-19 ára landsliðinu sem og U-18 ára og var einnig í lokahópi U21-árs landsliðsins sem tók þátt á EM í mars síðastliðnum.

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Hákoni innilega til hamingju með samninginn og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans í Svíþjóð á komandi misserum.

Eydís, Elín, Lilja og Lilja skrifa undir

Þrír ungir leikmenn fæddar árið 2005 hafa skrifað undir tveggja ára samninga við Gróttu, þær Elín Helga Guðmundsdóttir, Lilja Lív Margrétardóttir og Lilja Davíðsdóttir Scheving.

Lilja Lív steig sín fyrstu skref með meistaraflokki fyrir rúmu ári. Hún spilaði mikið á undirbúningstímabilinu og lék svo 8 leiki í deild og bikar. Lilja hefur síðustu mánuði æft reglulega með U16 ára landsliði Íslands.

Lilja Scheving spilaði tvo leiki með meistaraflokki í fyrra en kom svo af krafti inn í Gróttuliðið á þessu undirbúningstímabili. Hún æfði á dögunum með U16 landsliðinu en lenti í því óláni að fá höfuðhögg í lok febrúar sem hefur haldið henni frá keppni síðustu vikur. 

Elín Helga var líkt og Lilja og Lilja lykilkona í 3. flokki Gróttu/KR sem komst í úrslitaleik Íslandsmótsins síðasta haust. Elín hefur komið af krafti inn í æfingahóp Gróttu í vetur og komið við sögu í flestum leikjum það sem af er þessu undirbúningstímabili.

Við sama tilefni skrifaði Eydís Lilja Eysteinsdóttir undir sinn fyrsta samning við Gróttu. Eydís var lykilleikmaður í Gróttuliðinu árin 2017 og 2018 en spilaði ekkert árið 2019 vegna barneigna. Eydís vann sig hægt og bítandi inn í Gróttuliðið í fyrra og skoraði þegar upp var staðið 4 mörk í 13 leikjum. Í vetur hefur Eydís verið í stuði í framlínu Gróttu og skorað sex mörk í fyrstu sjö leikjum undirbúningstímabilsins. Eydís, sem er uppalin í Stjörnunni, er 28 ára gömul og er elsti leikmaður Gróttuliðsins!

Óliver Dagur og Valtýr Már framlengja við Gróttu

Óliver Dagur Thorlacius og Valtýr Már Michaelsson hafa framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára. Valtýr og Óliver eru báðir uppaldir í Vesturbænum og stigu sín fyrstu skref með KR í Pepsi Max deildinni áður en þeir komu yfir í Gróttu árið 2018 þar sem þeir hafa verið síðan. Óliver Dagur er 22 ára miðjumaður sem hefur spilað 65 leiki fyrir Gróttu og skorað í þeim 20 mörk. Valtýr Már er 22 ára miðjumaður sem á að baki 39 leiki með Gróttu og hefur skorað í þeim 6 mörk.

Samningarnir við Óliver og Valtýr eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.

Karen Guðmundsdóttir í Gróttu

Hin 18 ára gamla Karen Guðmundsdóttir er gengin til liðs við Gróttu á láni frá Val. Karen, sem er sókndjarfur miðjumaður, á að baki tvo meistaraflokksleiki fyrir Val en hún glímdi við erfið meiðsli allt síðasta ár. Árið 2019 lék Karen þrjá leiki með U16 ára landsliðinu og varð m.a. bikarmeistari í 2. flokki ásamt Eddu Björg og Signýju sem leika með Gróttu í dag. 

Pétur Rögnvaldsson, annar þjálfara Gróttu, fagnar komu Karenar á Nesið: „Það eru frábær tíðindi fyrir Gróttu að Karen sé gengin til liðs við félagið. Karen er fjölhæfur miðjumaður sem kemur með aukin gæði og kraft inní hópinn okkar. Hún mun án efa styrkja liðið og hjálpa okkur í komandi átökum í Lengjudeildinni.

Karen kvaðst spennt fyrir tímabilinu með Gróttu: „Mér líst mjög vel á Gróttu. Hér er góð umgjörð og liðið hefur gert spennandi hluti síðustu ár. Ég hlakka til að komast aftur á fullt eftir erfið meiðsli og ég er viss um að það sé spennandi tímabil framundan í Gróttu.“

Kjartan Kári í æfingahóp U19 ára landsliðsins

Gróttumaðurinn Kjartan Kári Halldórsson er í æfingahóp U19 ára landsliðsins. Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U19 karla, hefur valið 23 leikmenn frá 12 félögum til æfinga 25.-28. mars, en æfingarnar fara fram í Skessunni í Hafnarfirði.
Til hamingju Kjartan! 🇮🇸

Hákon á leiðinni á EM með U21 ára landsliðinu

Hákon Rafn Valdimarsson, markmaður Gróttu, er í hóp U21 árs landsliðsins fyrir EM 2021. Mótið er tvískipt, en riðlakeppnin fer fram núna í mars og 8-liða úrslit, undanúrslit og úrslit í sumar. Ísland er í riðli með Rússlandi, Danmörku og Frakklandi og leikur alla leiki sína í Györ í Ungverjalandi. Leikirnir þrír verða í beinni útsendingu á RÚV. Strákarnir hefja leik gegn Rússlandi 25. mars, mæta Dönum 28. mars og enda svo riðlakeppnina á leik gegn Frökkum 31. mars.
Til hamingju Hákon! 🇮🇸

Maggie Smither í Gróttu

Hin 23 ára gamla Maggie Smither mun verja mark Gróttu í sumar. Maggie hefur á ferli sínum leikið með South Dakota State í bandaríska háskólaboltanum og með tveimur liðum í WPSL sumardeildinni.

Maggie, sem kemur til landsins í lok mars, kveðst spennt fyrir því að spila fótbolta á Íslandi: 
„Ég er mjög þakklát fyrir tækifærið að spila með Gróttu í sumar. Það verður spennandi fyrir mig að spila í nýju landi og ég er viss um ég geti bætt mig sem leikmaður hjá félaginu. Ég hlakka til að vinna með Magnúsi og Pétri sem virka mjög vel á mig sem þjálfarar.“

Magnús Örn Helgason, annar þjálfara Gróttu, fagnar komu Maggie Smither og hlakkar til að fá hana inn í hópinn: 
„Þetta eru frábær tíðindi fyrir Gróttu. Við lögðum mikið í að finna sterkan markvörð í staðinn fyrir Tinnu (Brá Magnúsdóttur) og held við séum heppin að fá Maggie í okkar lið. Hún er öflugur leikmaður og hennar fyrrum þjálfarar í Bandaríkjunum bera henni vel söguna. Við vonum að Gróttufólk og aðrir Seltirningar taki vel á móti Maggie og hjálpi henni að aðlagast nýju umhverfi“ 

Við bjóðum Maggie hjartanlega velkomna í Gróttu og hlökkum til að sjá hana spila strax í apríl.