Daníel framlengir við Gróttu

Daníel Örn Griffin hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Daníel hefur verið í Gróttu undanfarin tvö ár en hann lenti í því óláni í lok seinasta tímabils að slíta krossband í hné og hefur því verið í endurhæfingu allt þetta tímabil. Hann er byrjaður að æfa með liðinu en stefnt er að því að hann byrji að spila með Gróttu í haust.

Daníel Örn Griffin er örvhentur og spilar sem hægri skytta. Hann er jafnvígur á báðum endum vallarins, kröftugur sóknarmaður og öflugur varnarmaður. Tímabilið 2020-2021 skoraði hann 73 mörk í 19 leikjum í Olísdeildinni.

„Það eru mikil gleðitíðindi að Daníel verði áfram hjá okkur í Gróttu enda frábær leikmaður sem gaman verður að sjá aftur á parketinu eftir árs fjarveru. Daníel tók miklum framförum á seinasta tímabili og ég er sannfærður að hann verði lykilleikmaður liðsins á næsta tímabili“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins við undirritun samningsins.

Páskaskóli Gróttu

Handknattleiksdeild Gróttu verður með námskeið í dymbilvikunni þar sem áhersla verður lögð á undirstöðuatriði og leiki hjá yngri hópnum en flóknari atriði hjá eldri hópnum. Allir eru velkomnir, hvort sem viðkomandi hefur æft áður eða eru byrjendur.

Hvenær?
11., 12. og 13.apríl

Klukkan hvað?
Yngri hópur (f. 2013-2015) kl. 10:30-12:00
Eldri hópur (f. 2010-2012) kl. 12:15-13:45

Hvar?
Stóri og litli salur í Íþróttahúsi Gróttu

Hverjir þjálfa?
Leikmenn meistaraflokka Gróttu

Kostnaður?
6000 kr

Skráning:
https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Við hvetjum alla til að nota páskafríið vel, verða betri í handbolta og skemmta sér á sama tíma !

Þorgeir Bjarki aftur heim

Þorgeir Bjarki Davíðsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu og gengur til liðs við félagið að þessu leiktímabili loknu. Þorgeir þekkja flestir Seltirningar en hann er uppalinn Gróttumaður og lék með öllum yngri flokkum félagsins og síðan meistaraflokki. Hann lék með öllum yngri landsliðum Íslands.

Þorgeir er örvhentur leikmaður og spilar aðallega í hægra horninu en getur einnig leikið sem skytta. Hann hefur leikið 79 leiki fyrir Gróttu og skorað í þeim 138 mörk. Þorgeir er 25 ára gamall og hefur undanfarin ár leikið með Fram, HK og Val.

„Það eru gríðarlega góðar fréttir að Þorgeir sé kominn í Gróttu. Hann er mikill karakter og mun styrkja liðið mikið“, sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari liðsins við undirritun samningsins.

„Ég er mjög spenntur að snúa aftur í Gróttu eftir 6 ára fjarveru. Ég hef mikla trú á hópnum og þjálfarateyminu og markmiðum þeirra. Það hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig að koma heim til uppeldisfélagsins og gera mitt besta til að styrkja hópinn fyrir næstu leiktíð“, sagði Þorgeir Bjarki á sama tíma.

Þorgeir, velkominn aftur á Nesið !

Lúðvík áfram í Gróttu

Lúðvík Thorberg Arnkelsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Gróttu. Lúðvík er 24 ára gamall og leikur aðallega sem leikstjórnandi og skytta. Hann hefur skorað 29 mörk í Olísdeildinni í vetur og sent 24 stoðsendingar.

Lúðvík hefur undanfarin tvö árin leikið með Gróttu en hann er uppalinn í Safamýrinni.

„Það eru virkilega góð tíðindi að Lúðvík verði áfram í herbúðum okkar enda hefur hann leikið fantavel með liðinu í vetur, bæði sóknar- og varnarlega. Það er von okkar að hann muni halda áfram að þróa leik sinn enn frekar enda býr mikið í Lúlla“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttuliðsins þegar samningar voru í höfn.

Hannes Grimm framlengir

Línumaðurinn Hannes Grimm hefur framlengt samning sinn við Gróttu til ársins 2024. Hannes hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið með Gróttu til fjölda ára og á 114 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.


Það eru frábær tíðindi að Hannes verði áfram í herbúðum félagsins enda lykilleikmaður liðsins bæði sóknarlega og varnarlega.

Þeir eru vandfundnir meiri Gróttumenn en Hannes Grimm. Hann hefur undanfarin fimm ár þjálfað yngri flokka félagsins við góðan orðstír.

„Það er mikill hugur í félaginu til næstu ára og Hannes mikilvægt í pússl í þeirri vegferð“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari liðsins við undirskrift samningsins.

8 leikmenn í Hæfileikamótun HSÍ

Um helgina fóru fram æfingar í Hæfileikamótun HSÍ. Æfingarnar fóru fram í Kaplakrika í Hafnarfirði og var innihaldið taktík, markmiðssetning og spil undir stjórn yfirþjálfara Hæfileikamótunarinnar, Jóns Gunnlaugs Viggóssonar.

Flottir fulltrúar frá okkur tóku þátt:

Strákar:

Arnar Magnús Andrason
Helgi Skírnir Magnússon
Kári Kristjánsson
Kolbeinn Thors

Stelpur:
Arna Katrín Viggósdóttir
Auður Freyja Árnadottir
Kristín Fríða Scheving Thorsteinsson
Sara Kristjánsdóttir

Því miður þurftu Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Heba Davíðsdóttir að boða forföll.

Hæfileikamótun HSÍ er fyrsta skrefið inn í landsliðsumhverfi HSÍ og því frábært tækifæri fyrir okkar leikmenn að taka þátt. Þeir stóðu sig vel og vonandi verða þau öll í næsta úrtaki.

Fjáröflun Handknattleiksdeildar Gróttu

Fjáröflun Handknattleiksdeildar Gróttu

Starf Handknattleiksdeildar Gróttu er viðamikið. Allt frá þjálfun byrjendanna á leikskólalaldri í 9.flokki og upp í þriggja meistaraflokka á afreksstigi, þar sem umgjörð og þjálfun er í hæsta gæðaflokki. Til að standa undir starfinu þarf að fjárafla. Handknattleiksdeild Gróttu í samstarfi við Kjötkompaní-ið og John Lindsey hf. býður upp á frábærar vörur fyrir öll heimili og alla einstaklinga. Við hvetjum sem flesta til að styðja okkur með kaupum á þessum góðu vörum.

Andrex WC pappír – 36 rúllur5000 kr

Satino eldhúspappír – 32 rúllur5000 kr Hamborgarar – 10 stk 115 gr4400 kr

Lambafile í kryddjurtasmjöri – 1 kg8000 kr/kg

Nauta framfile í black garlic – 1 kg9000 kr/kg

Nautahakk 1 kg, pakkað í 2×500 gr pakkningar2500 kr

Hægt verður að panta vörurnar til 4.mars. Afhending verður vikuna 14. – 18.mars. Hægt er að panta vörurnar í gegnum þessa vefslóð: https://forms.gle/SFRVCusipEe6dcFZ7

Takk fyrir stuðninginn !

Fimm í U15 ára landsliðinu

Á föstudaginn var valið í U15 ára landslið kvenna. Þar eigum við fimm frábæra fulltrúa; þær Arndísi Áslaugu Grímsdóttur, Dóru Elísabetu Gylfadóttur, Elísabetu Ásu Einarsdóttur, Helgu Sif Bragadóttur og Margréti Láru Jónasdóttur.

Landsliðsæfingarnar fara fram dagana 4. – 6.mars undir stjórn landsliðsþjálfaranna Díönu Guðjónsdóttur og Jóns Brynjars Björnssonar.

Við óskum okkar stelpum til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis.

Katrín Anna valin í U18

Rétt í þessu var valið í U18 ára landslið kvenna. Okkar stelpa, Katrín Anna Ásmundsdóttir var valin í hópinn og æfir hann dagana 2. – 6.mars.

Þjálfarar U18 ára landsliðsins eru þeir Ágúst Þór Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson.

Við óskum Katrínu Önnu hjartanlega til hamingju með valið og óskum henni góðs gengis.