Takk fyrir frábæra samveru á Basil Gimlet kvöldi Gróttu!

Við viljum þakka öllum kærlega sem styrktu íþróttafélagið og mættu á Basil Gimlet kvöld Gróttu síðustu helgi. Svona kvöld er mikilvægur þáttur í því að styrkja deildirnar okkar og skapa líflegt félagsstarf innan félagsins.

Það er ómetanlegt að sjá hversu margir mættu, skemmtu sér og lögðu sitt af mörkum til að gera kvöldið ógleymanlegt. Við erum þakklát fyrir stuðninginn og hlökkum til að sjá ykkur á næstu viðburðum!

ÁFRAM GRÓTTA!

Starfsmaður óskast

ÍÞRÓTTAFÉLAGIÐ GRÓTTA AUGLÝSIR EFTIR STARFSMANNI Í HLUTASTARF Í VALLARHÚS FÉLAGSINS

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Starfsmaður aðstoðar nemendur grunn- og leikskóla og iðkendur Íþróttafélagsins
  • Dagleg þrif í vallarhúsi,
  • Önnur tilfallandi verkefni í samvinnu við vallarstjóra

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Starfsmaður aðstoðar nemendur grunn- og leikskóla og iðkendur Íþróttafélagsins
  • Dagleg þrif í vallarhúsi,
  • Önnur tilfallandi verkefni í samvinnu við vallarstjóra

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Áhugi á að vinna með börnum
  • Sveigjanleiki og hæfni í mannlegum samskiptum
  • Frumkvæði, jákvæðni og sjálfstæð vinnubrögð
  • Hæfni til að vinna í hóp
  • Viðkomandi þarf að tala og skilja íslensku

Viðtalstímar framkvæmdastjóra Fimleikadeildar

Skrifstofa framkvæmdastjóra Fimleikadeildar Gróttu er opin milli klukkan 13:00-15:00 á mánudögum og 15:00-17:00 á miðvikudögum. Einnig er hægt er að hafa samband við Guðrúnu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra Fimleikadeildar í gegnum netfangið gudrun@grotta.is og í síma: 561-1137. Símatími skrifstofu fimleikadeildar er á miðvikudögum og föstudögum á milli kl. 10:00-12:00.

Skrifstofa Fimleikadeildar Gróttu er til húsa á annarri hæð í Íþróttahúsi Seltjarnarness við Suðurströnd. Gengið er inn anddyrið í íþróttahúsinu, beygt til vinstri fram hjá skrifstofu húsvarða, þar er farið upp stiga upp á aðra hæð og skrifstofa fimleikadeildar er þar önnur hurð til hægri.

Áfram Grótta!

Basil Gimlet kvöld Gróttu

Laugardaginn 16. nóvember verður haldið Basil Gimlet kvöld Gróttu, þar sem gleði og góð stemning mun ráða för!

Dagskrá kvöldsins:

🥂 Fordrykkur frá kl. 19:00 – 20:00, eða á meðan birgðir endast, í boði Ölgerðarinnar.

🎤 Friðrik Dór tekur nokkra vel valda slagara!

🎉DJ Haffi Haff heldur uppi trylltri stemningu fram á nótt!

Beerpong, kareoke, Gróttulottó og margt fleira skemmtilegt verður í boði!

🎟️ Miðasala fer fram hér: https://tix.is/event/18508/basil-gimlet-kvold-grottu – takmarkað magn miða í boði!

Allur ágóði rennur til deilda Gróttu – komum saman og styrkjum félagið okkar!

Orri Steinn mætir í heimsókn á Vivaldivöllinn

Orri Steinn Óskarsson mætir á Vivaldivöllinn í dag, miðvikudaginn 9. október, í heimsókn á sinn gamla heimavöll.

Við hvetjum krakkana til að líta við – eflaust hægt að plata Orra í áritun og myndatöku.

Valdimar Ólafsson – Minning

Valdimar Ólafsson, betur þekktur sem Valdi, lést þriðjudaginn 17. september sl. Valdi hóf störf sem vallarstjóri á Vivaldivellinum hjá íþróttafélaginu Gróttu í september 2016 og var frá fyrsta degi einstakur starfsmaður sem gaf allt fyrir félagið sitt.

Valdi var sannur Gróttumaður, uppalinn á Seltjarnarnesi og tengdist félaginu allt frá stofnun þess árið 1966. Á yngri árum stundaði hann bæði fótbolta og handbolta hjá félaginu og prófaði einnig körfubolta einn vetur þegar sú íþrótt var stunduð hjá Gróttu.

Í vallarhúsinu réði Valdi ríkjum og sinnti hann störfum sínum af mikilli samviskusemi og vandvirkni. Valdi var einstaklega vel liðinn af starfsfólki og foreldrum, en sérstaklega af iðkendum félagsins. Hann var ávallt til staðar, hvort sem um var að ræða verkefni stór eða smá. Valdi lagði mikla áherslu á að vallarhúsið væri opið fyrir alla iðkendur félagsins, unga sem aldna, sem og aðra gesti, og þangað væri fólk velkomið. 

Samstarfsmenn Valda munu sakna hans sárt. Minningin um Valda mun lifa áfram hjá félaginu, um góðan dreng sem minnst verður af hlýju og virðingu.

Íþróttafélagið Grótta sendir Steinu, Bjössa og vinum og vandamönnum Valda hugheilar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Eldri borgara ganga Gróttu fer aftur af stað

Íþróttafélagið Grótta í samstarfi við Félag eldri borgara á Seltjarnarnesi býður öllum eldri borgurum upp á Gróttugöngu um Nesið á föstudögum kl. 10:30.

Brottför verður frá íþróttahúsi Gróttu kl. 10:30 og að göngu lokinni býður Grótta upp á kaffi og Björnsbakarí upp á bakkelsi í anddyri íþróttahússins.

Fyrsta gangan er á föstudaginn næsta, 13. september kl. 10:30 og lagt af stað frá anddyri íþróttahússins.

Vinsamlegast látist berast til eldri borgara í kringum ykkur.

Öll eru velkomin!

Ársreikningar lagðir fram til samþykktar

Þar sem aðalfundir Íþróttafélagsins Gróttu hafa þegar verið haldnir, verða ársreikningar lagðir fram til samþykktar á fundi aðalstjórnar og deilda.

Fundurinn fer fram kl. 18:00 miðvikudaginn 25. september í hátíðarsal Gróttu.

Nýr vallarstjóri og yfirhúsvörður Gróttu

Við hjá Íþróttafélaginu Gróttu erum ánægð að tilkynna ráðningu á nýjum vallarstjóra og yfirhúsverði.

Hlynur ráðinn vallarstjóri
Hlynur hefur verið ráðinn nýr vallarstjóri Gróttu og tekur við starfinu af Valda okkar. Hlynur kemur til okkar með mikla reynslu, en hann starfaði hjá Íþróttafélaginu Val um árabil í sambærilegu starfi. Við erum spennt fyrir því að fá Hlyn til liðs við okkur og vitum að hann á eftir að sinna starfinu af fagmennsku.

Jóhanna Selma verður yfirhúsvörður
Það gleður okkur einnig að tilkynna að Jóhanna Selma hefur verið ráðin yfirhúsvörður Gróttu. Yfirhúsvörður er ný staða hjá félaginu og meginn tilgangur starfsins er að skerpa alla yfirsýn yfir mannvirki félagsins, samhæfa vinnulag og bæta eftirfylgni með gæðum á viðhaldi og þrifum mannvirkjanna. Margir þekkja hana Jóhönnu, en hún hefur unnið sem húsvörður hjá félaginu í meira en 8 ár. Jóhanna hefur ávallt verið ómetanlegur starfskraftur og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við hana í nýju hlutverki.

Við óskum Hlyni og Jóhönnu Selmu innilega til hamingju með nýju stöðurnar og bjóðum þau velkomin í þeirra nýju verkefni hjá Gróttu!

Hættum ekki fyrr en lokaflautið gellur

Viðtal við Grím Inga Jakobsson leikmann meistaraflokks

Miðjumaðurinn knái Grímur Ingi Jakobsson framlengdi á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út keppnistímabilið 2027. Grímur sneri aftur á Vivaldivöllinn í ársbyjun 2023 eftir tveggja ára dvöl hjá KR og KV. Fyrstu skrefin í fótboltanum voru stigin hjá Val en eftir að Grímur flutti á Seltjarnarnes ásamt fjölskyldu sinni árið 2014 lá leiðin fljótlega í Gróttu. Grímur lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Gróttu aðeins 14 ára gamall og er þrátt fyrir ungan aldur búinn að spila 89 keppnisleiki í meistaraflokki! Þar að auki hefur Grímur spilað 14 leiki með yngri landsliðum Íslands. 

Við settumst niður með Grími nú fyrir helgina og fórum um víðan völl: 

Við byrjum á máli málanna – Gróttuliðið er í bullandi fallbaráttu þegar fimm leikir eru eftir. Hefur þetta bras komið ykkur strákunum í liðinu á óvart eða áttu menn von á erfiðu sumri?

Já það kemur okkur strákunum á óvart að við séum í þessari stöðu sem við erum í. Við vitum hvað við getum og þetta var auðvitað ekki planið fyrir tímabilið. En eins og fótboltinn er skemmtilegur þá getur hann líka verið erfiður og við verðum bara að virða þessa stöðu sem við erum í. Það er enginn sem getur breytt þessu nema við og það ætlum við sannarlega að gera. 

Getur Grótta haldið sér í deildinni? 

Já við trúum því sem lið að það sé allt hægt í fótbolta. Við allir sem einn þurfum að leggja allt í sölurnar í þessa síðustu leiki og bakka hvorn annan upp allann tímann. Þá trúum við að við getum búið til einhverja fallega sögu. Við hættum ekki fyrr en lokaflautið gellur. 

Þá að þér sjálfum. Ertu ánægður með eigin spilamennsku eftir að þú snerir aftur í Gróttu snemma á síðasta ári? Er eitthvað sem þú vilt bæta þig í á komandi árum

Ég hef fengið frábæra þjálfun hjá Gróttu síðan ég kom. Ég sem leikmaður veit hvað ég get í fótbolta, ég er mikilvægur fyrir liðið og liðsfélgar mínir trúa á mig. Auðvitað hafa komið kaflar þar sem ég hefði viljað spila betur, en að sama skapi er ég ennþá að læra sem leikmaður. Auðvitað er rúm fyrir bætingar hjá mér, maður getur alltaf gert meira og betur. Ég veit að ég er í þannig umhverfi hjá Gróttu að ég get bætt mig sem leikmann og einstakling.

Fyrir utan að spila með meistaraflokki er Grímur aðstoðarþjálfari hjá 3. flokki karla og stýrði knattspyrnuskóla Gróttu í sumar. Við spyrjum hvernig Grímur finni sig í þjálfarahlutverkinu? Sömuleiðis væri gaman að vita hverjir séu styrkleikar Gróttu sem félags og hvað þurfi að vera til staðar hjá félaginu til að ná árangri næstu árin?

Mér finnst mjög gaman að þjálfa og er stoltur að vera partur af því frábæra þjálfarateymi sem Grótta er með. Ég hef lært mikið af mínum samþjálfurum sem eru mjög hæfileikaríkir og viljugir til að hjálpa öllum að verða góðir leikmenn. Við eigum mikið af ungu efnilegu Gróttufólki sem er dýrmætt að halda vel utan um og mikilvægt er að öllum líði vel. Grótta er eins og ein stór familía, hérna eru allir vinir. Helstu gildi Gróttu eru trú vilji og hugrekki og ef þessi gildi eru til staðar hjá öllum ásamt samheldni þá trúi ég að það geti leitt Gróttu á fleiri spennandi brautir. 

Við þökkum Grími kærlega fyrir spjallið en spyrjum að lokum hvort hann hafi einhver skilaboð til Gróttufólks. 

Skilaboðin mín eru einföld: Verum stolt af því að halda með Gróttu. Ég held að ég tali fyrir hönd beggja meistaraflokka að við þurfum ykkar stuðning restina af tímabilinu. Við strákarnir í okkar bárattu og einnig kvennaliðið sem er á blússandi siglingu um að komast í deild þeirra bestu. Við þurfum á ykkur að halda Gróttufólk bæði smá sem stór að mæta á völlinn þið eruð 12 maðurinn okkar.