Velheppnaður fyrsti dagur jólanámskeiðsins

Í morgun hófst Jólanámskeið Gróttu en rúmlega 60 krakkar mættu í höfðu gagn og gaman af. Það voru þjálfarar yngri flokkstarfsins sem þjálfuðu krakkana í morgun ásamt gestum frá meistaraflokki karla.

Þar að auki kom leynigestur en það var enginn annar en Gróttumaðurinn Hákon Rafn Valdimarsson. Hann er landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta en var einnig mjög svo efnilegur leikstjórnandi og skytta í handbolta fyrir nokkrum árum síðan. Hann hefur heldur betur getað kennt krökkunum helstu trixin. Þó að hann hafi verið leikstjórnandi og skytta í handbolta þá brá hann sér í markið í vítakeppni í lok æfingarinnar og varði vel. Við þökkum Hákoni fyrir heimsóknina.

Næsti dagur námskeiðsins er á morgun, föstudag. Hægt er að skrá sig á staka daga en líka heilar vikur. Skráningin fer fram í Sportabler: https://www.abler.io/shop/grotta/handbolti

Áfram Grótta !

Tommi til AZ Alkmaar

Tómas Johannessen hefur gengið til liðs við hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar og gerir við það þriggja ára samning. Tommi er 16 ára gamall og lék þrátt fyrir ungan aldur lykilhlutverk með meistaraflokki karla í sumar. Hann er uppalinn Seltirningur og Gróttumaður en lék um skeið með Val.

Heimasíða AZ greinir frá skiptunum: http://www.az.nl/nl/nieuws/johannessen-tekent-bij-az…

Þar segir Paul Brandenburg yfirmaður akademíu AZ: „Tómas er framsækinn, teknískur og skapandi miðjumaður. Með þessa eiginleika að vopni getur hann lagt sitt að mörkum fyrir AZ í framtíðinni.”

Tómas er spenntur fyrir komandi tímum: ,,Ég er spenntur fyrir þessu næsta skrefi í mínum ferli. AZ er mjög góður klúbbur sem hentar mínum leikstíl. Ég var á reynslu hjá þeim í nóvember og fékk geggjaðar móttökur frá öllum í klúbbnum. Ég er búin að eiga frábær ár hjá Gróttu frá því ég var 4 ára og síðustu 2 ár með meistaraflokknum hafa reynst mér mjög vel. Lærði mikið þar af þjálfara og öllum leikmönnunum liðsins. Vil því bara segja takk fyrir mig Grótta”

Knattspyrnudeild Gróttu óskar Tómasi og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þetta stóra skref og hlakkar til að fylgjast með ævintýrum hans á næstu misserum.