2. flokkur karla upp um deild 

Það var frábær stemning á Vivaldivellinum í kvöld og fjöldi fólks í stúkunni þegar 2. flokkur karla tryggði sér sæti í B-deild Íslandsmótsins. Andstæðingar Gróttu var lið KR2 sem tefldi fram nokkrum sterkum leikmönnum í leiknum, þar sem jafnræði var með liðunum fyrsta hálftímann. 

Grótta skoraði tvö mörk rétt fyrir leikhlé og í byrjun seinni hálfleiks gerðu strákarnir út um leikinn og komust í 4-0. Kjartan Kári Halldórsson var með tvö mörk, Benjamin Friesen með eitt og eitt markanna var sjálfsmark. Halldór Orri Jónsson skoraði rétt fyrir leikslok og tryggði Gróttu 5-0 sigur og mikil gleði braust út í leikslok. Í sumar hefur liðsheildin í 2. flokknum verið sterk og leikmenn A- og B-liðsins staðið vel við bakið hvor á öðrum. Tímabilið er ekki alveg búið því á laugardaginn leika strákarnir við Selfoss í úrslitaleik um sigur í C-deild. 

Við óskum strákunum og þjálfurum þeirra, Arnari Þór Axelssyni og Dom Ankers, innilega til hamingju með árangurinn.

Eyjólfur Garðarsson ljósmyndari var á sínum stað á vellinum og hér er að finna stórglæsilegt albúm frá leiknum.

https://photos.google.com/share/AF1QipNCZtGMb6M7SoEpUP9jGOPEoNhYmdYpwji37A5jzlS8Iun6X0UlBUvnQmsuUeYw9g?key=SHNsVUxndVI0R0FUUlkxZ25SMmdNaUhIVW9CaGVR

Mikið fjör á æfingum 9.flokks

Tæplega 30 krakkar mæta að staðaldri á æfingar 9.flokks á laugardögum í Íþróttahúsi Gróttu. Arndís María Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir hafa veg og vanda að skipulagningu og æfingum krakkanna en þær eru margreyndar úr þjálfun hjá félaginu og tvær af leikjahæstu leikmönnum Gróttu frá upphafi.

Innihald æfinganna eru leikir með og án bolta auk fjölbreyttra handboltaæfinga sem reyna á samhæfingu, jafnvægi, styrk og hittni. Segja má að mikil einbeiting og mikið stuð sé hjá þessum flotta hópi á laugardögum.

Skráning í flokkinn fer fram í Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/grotta/handbolti

Áfram Grótta !

2. flokkur Gróttu spilar úrslitaleik í kvöld

Í kvöld spilar 2. flokkur karla hjá Gróttu umspilsleik við lið KR2 um sæti í B-deild. Gróttumenn hafa spilað vel í sumar og ætla sér að enda leiktíðina með stæl. Margir leikmenn liðsins hafa æft fótbolta hjá Gróttu frá 5-6 ára aldri og þeir elstu, fæddir 2003, geta nú lokið yngri flokka ferlinum með eftirminnilegum hætti.

Leikurinn fer fram á Vivaldivellinum kl. 18:00. Það verður góð stemning á vellinum en Gróttuborgararnir víðfrægu verða til sölu og búist er við góðum hópi áhorfenda á þennan spennandi nágrannaslag.