Ágúst Þór Gylfason nýr þjálfari meistaraflokks karla

Það er mikið gleðiefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu að hafa í dag gengið frá samningi við nýtt þjálfarateymi fyrir meistaraflokk karla. Ágúst Þór Gylfason verður aðalþjálfari með Guðmund Steinarsson sér við hlið sem aðstoðarþjálfara. Báðir semja þeir til næstu 3ja ára.

Ágúst Þór Gylfason hefur sannað sig sem þjálfari í hæsta gæðaflokki og hefur verið afar farsæll á sínum þjálfaraferli. Ágúst tók var aðstoðarþjálfari Fjölnis 2010-2012 áður en hann tók við liðinu sem aðalþjálfari árin 2013-2017. Undanfarin 2 ár stýrði Ágúst liði Breiðabliks sem endaði bæði árin í öðru sæti í Pepsi Max deildinni auk þess sem Breiðablik lék til úrslita í Mjólkurbikarnum í fyrra. Ágúst spilaði 195 leiki í efstu deild með Val, KR, Fram og Fjölni ásamt því að spila sem atvinnumaður hjá Brann í Noregi og svissneska liðinu Solothurn. Ágúst lék 6 A-landsleiki og 13 U-21 landsleiki.

Guðmundur Steinarsson hefur verið aðstoðarþjálfari Ágústar hjá Breiðablik undanfarin 2 ár en hann þjálfaði lið Njarðvíkur árin 2014-2016. Guðmundur spilaði 255 leiki í efstu deild með Keflavík og Fram auk þess að spila sem atvinnumaður hjá Brönshöj í Danmörku og Vaduz frá Liechtenstein í efstu deild í Sviss. Guðmundur er bæði leikja- og markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild með 244 leiki og 81 mark. Guðmundur lék 3 A-landsleiki og 13 leiki með yngri landsliðum Íslands.Dagurinn markar nýtt upphaf í starfi meistaraflokks karla. Framundan er spennandi ævintýri fyrir alla sem koma að starfi félagsins og stórt tækifæri til að efla leikmenn meistaraflokks karla, styrkja innviði deildarinnar og lyfta félaginu í heild sinni.