Án allra sjálfboðaliðanna væri starf félagsins lítilfjörlegt. Fjölmargir koma að daglegu starfi Gróttu allan ársins hring og erum við þeim gríðarlega þakklát fyrir þeirra ómetanlegu störf í þágu félagsins okkar.
Í byrjun ársins veittu deildir félagsins viðurkenningar fyrir sjálfboðaliða ársins 2022 og þeir eru Arnkell Bergmann Arnkelsson hjá handknattleiksdeild, Eyjólfur Garðarsson hjá fimleikadeild og Halla Bachmann Ólafsdóttir hjá knattspyrnudeild
Takk kærlega allir okkar sjálboðarliðar

Sjálfboðaliði handknattleiksdeildar Gróttu 2022 er Arnkell Bergmann Arnkelsson. Hann ásamt Ása heitnum og Viggó Kristjánssyni í Þýskalandi tóku við stjórn Handknattleiksdeildar í desember 2021. Þeir þrír sáu um öll mál fram að fráfalli Ása. Arnkell stóð þá einn á vaktinni á landinu en núna hefur bæst við stjórnina.

Sjálfboðaliði ársins 2022 fimleikadeild Gróttu er Eyjólfur Garðarsson ljósmyndari. Eyjólfur hefur verið boðinn og búinn að mæta og mynda starfið hjá deildinni oft með litlum fyrirvara. Fimleikadeild þakkar Eyjólfi fyrir óeigingjarnt starf í þágu heildarinnar.

Sjálfboðaliði ársins 2022 hjá knattspyrnudeild er Halla Bachmann Ólafsdóttir. Halla hefur reynst knattspyrnudeild drjúg um áralangt skeið. Á árinu sem var að líða tók Halla fyrst og fremst þátt í undirbúningi og framkvæmd leikja meistaraflokks kvenna, sem hún gerði af miklum myndarbrag eins og henni er von og vísa. Stjórnaði hún sölustúlkum í sjoppunni og gætti þess að kaffi og kakó væru á könnunum. Þá bakaði Halla að sjálfsögðu umtalsvert magn af vöfflum og reiddi fram með rjóma og sultu. Kunnu áhorfendur vel að meta viðurgjörninginn, raunar svo að það var umtalað í stúkunni.