Þar sem aðalfundir Íþróttafélagsins Gróttu hafa þegar verið haldnir, verða ársreikningar lagðir fram til samþykktar á fundi aðalstjórnar og deilda.
Fundurinn fer fram kl. 18:00 miðvikudaginn 25. september í hátíðarsal Gróttu.
Við hjá Íþróttafélaginu Gróttu erum ánægð að tilkynna ráðningu á nýjum vallarstjóra og yfirhúsverði.
Hlynur ráðinn vallarstjóri
Hlynur hefur verið ráðinn nýr vallarstjóri Gróttu og tekur við starfinu af Valda okkar. Hlynur kemur til okkar með mikla reynslu, en hann starfaði hjá Íþróttafélaginu Val um árabil í sambærilegu starfi. Við erum spennt fyrir því að fá Hlyn til liðs við okkur og vitum að hann á eftir að sinna starfinu af fagmennsku.
Jóhanna Selma verður yfirhúsvörður
Það gleður okkur einnig að tilkynna að Jóhanna Selma hefur verið ráðin yfirhúsvörður Gróttu. Yfirhúsvörður er ný staða hjá félaginu og meginn tilgangur starfsins er að skerpa alla yfirsýn yfir mannvirki félagsins, samhæfa vinnulag og bæta eftirfylgni með gæðum á viðhaldi og þrifum mannvirkjanna. Margir þekkja hana Jóhönnu, en hún hefur unnið sem húsvörður hjá félaginu í meira en 8 ár. Jóhanna hefur ávallt verið ómetanlegur starfskraftur og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við hana í nýju hlutverki.
Við óskum Hlyni og Jóhönnu Selmu innilega til hamingju með nýju stöðurnar og bjóðum þau velkomin í þeirra nýju verkefni hjá Gróttu!
Viðtal við Grím Inga Jakobsson leikmann meistaraflokks
Miðjumaðurinn knái Grímur Ingi Jakobsson framlengdi á dögunum samning sinn við knattspyrnudeild Gróttu út keppnistímabilið 2027. Grímur sneri aftur á Vivaldivöllinn í ársbyjun 2023 eftir tveggja ára dvöl hjá KR og KV. Fyrstu skrefin í fótboltanum voru stigin hjá Val en eftir að Grímur flutti á Seltjarnarnes ásamt fjölskyldu sinni árið 2014 lá leiðin fljótlega í Gróttu. Grímur lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Gróttu aðeins 14 ára gamall og er þrátt fyrir ungan aldur búinn að spila 89 keppnisleiki í meistaraflokki! Þar að auki hefur Grímur spilað 14 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Við settumst niður með Grími nú fyrir helgina og fórum um víðan völl:
Við byrjum á máli málanna – Gróttuliðið er í bullandi fallbaráttu þegar fimm leikir eru eftir. Hefur þetta bras komið ykkur strákunum í liðinu á óvart eða áttu menn von á erfiðu sumri?
Já það kemur okkur strákunum á óvart að við séum í þessari stöðu sem við erum í. Við vitum hvað við getum og þetta var auðvitað ekki planið fyrir tímabilið. En eins og fótboltinn er skemmtilegur þá getur hann líka verið erfiður og við verðum bara að virða þessa stöðu sem við erum í. Það er enginn sem getur breytt þessu nema við og það ætlum við sannarlega að gera.
Getur Grótta haldið sér í deildinni?
Já við trúum því sem lið að það sé allt hægt í fótbolta. Við allir sem einn þurfum að leggja allt í sölurnar í þessa síðustu leiki og bakka hvorn annan upp allann tímann. Þá trúum við að við getum búið til einhverja fallega sögu. Við hættum ekki fyrr en lokaflautið gellur.
Þá að þér sjálfum. Ertu ánægður með eigin spilamennsku eftir að þú snerir aftur í Gróttu snemma á síðasta ári? Er eitthvað sem þú vilt bæta þig í á komandi árum
Ég hef fengið frábæra þjálfun hjá Gróttu síðan ég kom. Ég sem leikmaður veit hvað ég get í fótbolta, ég er mikilvægur fyrir liðið og liðsfélgar mínir trúa á mig. Auðvitað hafa komið kaflar þar sem ég hefði viljað spila betur, en að sama skapi er ég ennþá að læra sem leikmaður. Auðvitað er rúm fyrir bætingar hjá mér, maður getur alltaf gert meira og betur. Ég veit að ég er í þannig umhverfi hjá Gróttu að ég get bætt mig sem leikmann og einstakling.
Fyrir utan að spila með meistaraflokki er Grímur aðstoðarþjálfari hjá 3. flokki karla og stýrði knattspyrnuskóla Gróttu í sumar. Við spyrjum hvernig Grímur finni sig í þjálfarahlutverkinu? Sömuleiðis væri gaman að vita hverjir séu styrkleikar Gróttu sem félags og hvað þurfi að vera til staðar hjá félaginu til að ná árangri næstu árin?
Mér finnst mjög gaman að þjálfa og er stoltur að vera partur af því frábæra þjálfarateymi sem Grótta er með. Ég hef lært mikið af mínum samþjálfurum sem eru mjög hæfileikaríkir og viljugir til að hjálpa öllum að verða góðir leikmenn. Við eigum mikið af ungu efnilegu Gróttufólki sem er dýrmætt að halda vel utan um og mikilvægt er að öllum líði vel. Grótta er eins og ein stór familía, hérna eru allir vinir. Helstu gildi Gróttu eru trú vilji og hugrekki og ef þessi gildi eru til staðar hjá öllum ásamt samheldni þá trúi ég að það geti leitt Gróttu á fleiri spennandi brautir.
Við þökkum Grími kærlega fyrir spjallið en spyrjum að lokum hvort hann hafi einhver skilaboð til Gróttufólks.
Skilaboðin mín eru einföld: Verum stolt af því að halda með Gróttu. Ég held að ég tali fyrir hönd beggja meistaraflokka að við þurfum ykkar stuðning restina af tímabilinu. Við strákarnir í okkar bárattu og einnig kvennaliðið sem er á blússandi siglingu um að komast í deild þeirra bestu. Við þurfum á ykkur að halda Gróttufólk bæði smá sem stór að mæta á völlinn þið eruð 12 maðurinn okkar.
Fimleikadeild Gróttu hefur ráðið Guðrúnu Jónu Stefánsdóttur sem framkvæmdastjóra Fimleikadeildar en hún hóf störf þann 1. ágúst síðastliðinn. Guðrún hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í fimleikum. Sjálf æfði Guðrún fimleika í 15 ár og hefur þjálfað fimleika til fjölda ára, og eins á hún þrjú börn sem æfa hjá Fimleikadeild Gróttu. Guðrún hlaut tilnefninguna sjálfboðaliði ársins hjá Fimleikadeild Gróttu árið 2023 fyrir ómetanlegt framlag hennar til deildarinnar. Guðrún er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun og starfaði nú síðast sem sérfræðingur í mannauðsmálum hjá PLAY. Fimleikadeild Gróttu óskar Guðrúnu hjartanlega velkomna til félagsins og hlakkar til komandi samstarfs.
Hansína Þóra Gunnarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Gróttu hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa. Hansína hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Fimleikadeildar frá því haustið 2023 og starfað sem þjálfari hjá félaginu í um 6 ár. Stjórn Fimleikadeildar Gróttu þakkar Hansínu kærlega fyrir frábært samstarf og óeigingjarnt starf síðustu misseri og óskar henni alls hins besta á nýjum vettvangi innan íþróttahreyfingar á Íslandi þar sem kraftar hennar munu sannarlega nýtast vel.
Fimleikadeild Gróttu hefur ráðið fjóra erlenda þjálfara til starfa hjá deildinni og hefja þeir allir störf í águst mánuði. Þjálfararnir er ungir og efnilegilegir og eru spennt fyrir því að koma að þjálfa í Gróttu. Grótta bíður þjálfarana velkomna til starfa hjá félaginu.
Elsa Garcia er 33 ára og er fyrrum landsliðskona Mexico í áhaldafimleikum. Elsa var í landsliði Mexico frá árinu 2000-2023 og fór meðal annars á ólympíuleika og á nokkur heimsmeistaramót. Elsa hefur unnið til 35 verðlauna á alþjóðlegum mótum. Hún ein af bestu fimleikakonum Mexico í áhaldafimleikum frá upphafi.
David Dexter er 27 ára frá Bandaríkjunum. Ungur og efnilegur þjálfari sem að hefur þjálfað fimleika í rúm 8 ár. Hann þjálfar nú hópa allt frá byrjendum upp í afreksþjálfun í Bandaríkjunum. David hefur verið að stunda háskólanám síðustu ár og er með Bachelor’s of Health Science ásamt því að þjálfa fimleika.
Josiel 23 ára er einnig frá Bandaríkjunum og hefur þjálfað fimleika í yfir 6 ár og er mjög metnaðarfullur og áhugasamur þjálfari. Josiel hefur þjálfað börn frá leikskólaaldri uppí keppnishópa á eftri stigum fimleikastigans. Josiel útskrifast úr háskola nú í vor sem tölvunarfræðingur. Hann hefur sótt mikið að þjálfaranámskeiðum síðustu ár og hefur metnað fyrir því að menta sig meira í fimleikaþjálfun.
Csaba er 40 ára og er frá Ungverjalandi. Csaba hefur síðustu ár verið að þjálfa fimleika og vinna í Noregi frá því árið 2016. Csaba hefur þjálfað stelpur og stráka á öllum aldri. Einng hefur hann verið aðstoðarþjálfari í hópfimleikum.
Aðalfundir deilda Íþróttafélagsins Gróttu fóru fram miðvikudaginn 29. maí og fóru þeir fram í hátíðarsal félagsins.
Ólafur Örn Svansson hélt um fundarstjórnina en fundurinn hófst með skýrslu Þrastar Þórs Guðmundssonar, formanns aðalstjórnar og í kjölfarið komu formenn deilda í pontu og fóru yfir starfið á árinu.
Þröstur Þór Guðmundsson var að klára sitt síðasta ár sem formaður og Karítas Kjartansdóttir hefur tekið við af honum. Kristinn Þorvaldsson og Ragnar Rafnsson voru í fyrra kosnir til tveggja ára en Svala Sigurðardóttir og Anna Bjög Erlingsdóttir hlutu endurkjör í stjórn aðalstjórnar.
Guðjón Rúnarsson hlaut endurkjör sem formaður fimleikadeildarinnar. Jóhanna Sigmundsdóttir og Fanney Magnúsdóttir hlutu einnig endurkjör í stjórn fimleikadeildar. Annars voru breytingar á stjórn fimleikadeildar þannig að Anna Dóra Ófeigsdóttir og Sölvi Sturluson hættu og eftirfarandi komu í þeirra stað: Bylgja Ýr Tryggvadóttir, Birna Friðgeirsdóttir, Harpa Hlíf Bárðardóttir, Tinna Molphy, Tinna Rut Traustadóttir og Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir. María Björg Magnúsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hættu sem varamenn og í stað þeirra koma Guðni Steinarsson og Margrét Hauksdóttir.
Ingvi Arnar Sigurjónsson bættist við í stjórn knattspyrnudeildar en að öðru leiti voru ekki gerðar fleiri breytingar og stjórnin því núna skipuð þeim Þorsteinn Ingasyni formanni, Hörpu Frímansdóttur, Ingva Arnari Sigurjónssyni, Kristínu Huld Þorvaldsdóttur, Stefáni Bjarnasyni, Helga Héðinssyni og Hildi Ólafsdóttir.
Ólafur Finnbogason heldur áfram sem formaður handknattleiksdeildarinnar og meðstjórnendur eru Andri Guðmundsson, Arnkell Bergmann Arnkelsson, Erla Gísladóttir, Harpa Guðfinnsdóttir, Kristbjörg Heiður Olsen og Viggó Kristjánsson.
Hulda Björk Halldórsdóttir hlaut endurkjör sem formaður barna- og unglingaráðs handknattleiksdeildar og með henni áfram eru Arndís María Erlingsdóttir, Eva Björk Hlöðversdóttir, Sunna Stefánsdóttir og Stefán Ólafur Stefánsson. Guðrún Dóra Bjarnadóttir hættir og í hennar stað kemur Arnar Þorkelsson.
Eyjólfur Garðarsson ljósmyndari félagsins mætti svæðið og tók frábærar myndir.
Í sumar verða bæði fjölbreytt íþróttanámskeið í boði ásamt sumarnámskeiðum. Námskeiðin fara fram í júní, júlí og ágúst. Allar frekari upplýsingar um námskeiðin má finna hér: Sumar 2024 – Íþróttafélagið Grótta (grotta.is). Innritun og greiðsla fer fram í gegnum abler.io/shop/grotta.
Þann 1. júní til 30. júní næstkomandi fer fram forskráning í fimleikadeild Gróttu fyrir veturinn 2024-25. Athugið að ekki er forskráning í stubbafimi en skráningin í stubbafimi opnar 1. júlí.
Greitt er 15.000 kr skráningargjald með kreditkorti við skráningu. Skráningargjaldið er óafturkræft en dregst frá æfingagjöldum næsta vetrar. Komi upp sú staða að fimleikadeildin þurfi að neita umsækjendum um pláss er möguleiki á að óska eftir að fá skráningargjaldið endurgreitt.
Athugið að biðlistinn fellur nú úr gildi og allir sem vilja komast að næsta vetur þurfa að forskrá sig. Eftir að forskráningu lýkur verður hægt að skrá á biðlista.
Skráning fer fram hér: https://www.abler.io/shop/grotta/fimleikar
Nú styttist heldur betur í kvennakvöld Gróttu sem verður haldið í hátíðarsal félagsins miðvikudaginn 8. maí næstkomandi. Miðasala er hafin inn á: Tix.is – Konukvöld Gróttu
🥂 Fordrykkur frá kl. 18:00.
💃 Anna Þorbjörg Jónsdóttir Nesbúi og partýpinni verður veislustjóri og mun halda utan um dagskrána.
👌 Ljúffengt smáréttahlaðborð frá Matarkompaní.
🛍 Glæsilegt happdrætti!
💃Birna Rún Eiríksdóttir leikkona og grínisti verður með uppistand.
🎤“Gróttupabbinn” talar
🎸Jón Sigurðsson aka 500 kallinn mætir með gítarinn tekur nokkra góða slagara.
⭐️DJ Annanymous heldur uppi stuðinu fram á nótt.
Kvennakvöldið er fjáröflun fyrir meistaraflokka knattspyrnu- og handknattleiksdeildar Gróttu. Miðasala er inn á: Tix.is – Konukvöld Gróttu
Nánari upplýsingar um vinninga og annað verður birt á Facebook viðburði: Kvennakvöld Gróttu 2024 | Facebook
Fyrir hópa er hægt að bóka borð í gegnum tölvupóst grotta@grotta.is. Þú vilt ekki missa af þessari veislu, hlökkum til að sjá þig! 🥂🥳