Ólafur Brim Stefánsson er kominn aftur í Gróttu. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Óli er 22 ára gömul skytta og lék með Gróttu tímabilin 2020-2021 og 2021-2022. Seinna tímabilið með Gróttu skoraði hann 92 mörk og var einn besti leikmaður liðsins. Hann staldraði stutt við í Fram á seinasta tímabili en þar lék hann stórt hlutverk í varnarleik liðsins.
„Það eru frábærar fréttir að Óli sé kominn aftur í Gróttu. Óli er öflugur á báðum endum vallarins. Hann er frábær varnarmaður og mun klárlega hjálpa okkur í þeirri baráttu sem framundan er í Olísdeildinni. Við hlökkum mikið að vinna með honum næstu árin“, sagði Róbert Gunnarsson þjálfari meistaraflokks karla þegar undirritunin var klár.
Handboltaskóli Gróttu hefur göngu sína í næstu viku. Skólinn markar upphaf handboltatímabilsins og því frábært forskot á sæluna áður en hefðbundnar æfingar hefjast samhliða skólabyrjun.
Skólinn er fyrir krakka f. 2012-2017 en krökkunum verður skipt upp eftir aldri þannig að öll njóti sín sem best. Byrjendur jafnt sem lengra komin eru velkomin. Krakkarnir eru beðnir um að taka með sér nesti.
Skólastjóri skólans er Patrekur Pétursson Sanko en auk hans munu okkar allra bestu þjálfarar þjálfa og leiðbeina krökkunum.
Boðið er upp á gæslu frá kl. 08:00-09:00 og síðan aftur frá kl. 12:00-13:00 að kostnaðarlausu.
Líkt og undanfarin ár verður handboltaskóli Gróttu á sínum stað. Skólinn er haldinn dagana 31. júlí. – 18. ágúst en hægt er að skrá sig á einstakar vikur. Handboltaskólinn er fyrir krakka f. 2012 – 2017 og verður vel tekið á móti öllum byrjendum.
Magnús Karl Magnússon hefur verið ráðinn yfirþjálfari Handknattleiksdeildar Gróttu til næstu tveggja ára. Hann tekur við því öfluga starfi sem Maksim Akbachev hefur sinnt undanfarin ár við að leiða uppbyggingu handboltans í Gróttu í samvinnu við stjórn, verkefnastjóra og þjálfara deildarinnar.
Magnús Karl er uppalinn Eyjamaður og spilaði handbolta með ÍBV. Hann hefur sinnt handknattleiksþjálfun hjá yngri flokkum ÍBV og Vals sem og styrktarþjálfun. Magnús Karl er íþróttafræðingur að mennt og með MSc. í íþróttasálfræði. Þá heldur hann úti heimasíðunni andlegurstyrkur.is og hjálpar íþróttafólki að vinna að markmiðum sínum.
Það er mikil tilhlökkun hjá stjórn Barna-og unglingaráðs Gróttu fyrir komandi tímabilum með Magnús Karl við stjórnina enda á ferðinni metnaðarfullur og kraftmikill þjálfari.
Við óskum Magnúsi Karli til hamingju með nýja hlutverkið og bjóðum hann hjartanlega velkominn í Gróttu
Á miðvikudaginn fór fram lokahóf Handknattleiksdeildar Gróttu þar sem meistaraflokkar félagsins, þjálfarar, sjálfboðaliðar og starfsfólk kom saman og gerði upp tímabilið. Lokahófið var haldið í Hátíðarsal Gróttu.
Veittar voru viðurkenningar til þeirra sem sköruðu fram úr í vetur.
100 leikir fyrir Gróttu Anna Katrín Stefánsdóttir (103 leikir) Ágúst Emil Grétarsson (109 leikir) Katrín Helga Sigurbergsdóttir (116 leikir) Rut Bernódusdóttir (105 leikir) Þorgeir Bjarki Davíðsson (102 leikir)
Við óskum þessum verðlaunahöfum til hamingju og hlökkum til að sjá þá og liðin okkar aftur í haust í Olísdeildinni, Grill 66-deildinni og 2.deild karla.
Ída Margrét, Katrín Anna og Katrín Helga
Sigurður Finnbogi og Ari Pétur
Einar Baldvin, Birgir Steinn og Hannes Grimm
Lúðvík Thoberg, Þorgeir Bjarki, Birgir Steinn, Andri Þór, Ísak Arnar og Ágúst Emil
Markvörðurinn Soffía Steingrímsdóttir hefur samið við Gróttu til næstu þriggja ára. Soffíu þekkir allt Gróttufólk enda uppalin í félaginu og leikið með Gróttu til fjölda ára. Seinasta haust skipti Soffía yfir í Fram en kom til baka á láni seinni hluta tímabilsins og stóð sig frábærlega.
Soffía er fædd árið 2000 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún leikið 123 leiki fyrir Gróttu.
„Það eru frábærar fréttir að Soffía verði hjá okkur næstu þrjú árin enda frábær markvörður með mikla reynslu. Soffía er auk þess mikill karakter sem við bindum miklar vonir við að verði í lykilhlutverki við atlöguna að Olísdeildarsæti á næsta tímabili“, sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson þegar samningar voru í höfn.
Handknattleiksdeild Gróttu hefur gert samninga við Daðeyju Ástu Hálfdánsdóttur og Tinnu Valgerði Gísladóttur um að þær leiki með félaginu næstu tvö árin.
Tinna Valgerður kemur aftur á Nesið eftir tveggja ára dvöl í Fram. Tinna er fædd árið 2000 og er uppalin í Gróttu. Hún er örvhent og leikur sem skytta og hornamaður. Tinna skoraði 38 mörk með Olísdeildarliði Fram síðastliðinn vetur.
Daðey Ásta kemur einnig úr Fram þar sem hún er uppalin. Daðey Ásta er fædd árið 2002 og er fjölhæfur leikmaður. Auk þess er hún afbragðs varnarmaður. Daðey lék bæði með Olísdeildarliði Fram síðastliðinn vetur þar sem hún gerði 8 mörk en einnig umgmennaliði Fram í Grill 66-deildinni þar sem hún skoraði 46 mörk.
Það er mikill hvalreki fyrir Gróttu að þessir leikmenn komi til félagsins. „Ég er himinlifandi með að Tinna komi til baka til félagsins og að Daðey söðli um og skipti yfir í Gróttu. Báðir leikmennirnir styrkja Gróttuliðið mikið og eru miklir karakterar. Þær smellpassa í liðið og það verður gaman að sjá þær í Gróttubúningnum í haust“, sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson við undirritun samninganna.
Ída Margrét Stefánsdóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Ída Margrét hefur verið á láni hjá okkur frá Val í vetur en skiptir nú varanlega yfir til Gróttu.
Ída er 21 árs gömul og leikur sem vinstri skytta. Hún hefur komið eins og stormsveipur inn í Gróttuliðið og leikur lykilhlutverk með liðinu á báðum endum vallarins. Ída hefur skorað 89 mörk fyrir félagið í vetur.
„Það eru mikil gleðitíðindi að Ída semji við okkur til þriggja ára. Hún er gríðarlega öflug skytta. Það eru miklar vonir bundnar við að hún eigi eftir dafna enn frekar sem leikmaður á næstu misserum og hjálpa liðinu að tryggja sig meðal bestu liða landsins“, sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson þjálfari liðsins við undirritunina.
Á næstu dögum má búast við frekari fréttum af leikmannamálum liðsins.
Í dymbilvikunni fyrir páska mun Handknattleiksdeild Gróttu standa fyrir páskanámskeiði í handbolta. Æfingarnar fara fram 3. – 5.apríl og verða frá kl. 09:00-12:00. Æfingunum verður skipt upp eftir eldri og er krakkarnir beðnir um að koma með nesti.
Þjálfarar á námskeiðinu er þjálfarar Gróttu og leikmenn meistaraflokkanna.
Grótta var með tvö lið í úrslitum Powerade-bikars HSÍ helgina 17. – 19.mars. 6.flokkur karla yngri lék gegn Haukum og 5.flokkur kvenna eldri lék gegn Val.
6.flokkur karla yngri Eftir virkilega flottan leik voru það Haukar sem unnu með minnsta mögulega mun, 9-10 í úrslitaleik bikarsins hjá 6.flokki karla yngri. Strákarnir okkar stóðu sig vel og geta heldur betur verið sáttir með sinn leik þó að andstæðingurinn hafi verið sterkari í dag.
5.flokkur kvenna eldri Stelpurnar í 5. flokki kvenna eldri tóku þátt í úrslitleik í Powerade-bikarnum gegn sterku Valsliði í gær. Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum og var aðeins tveggja marka munur í hálfleik. Gróttustelpur náðu ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik og vann Valur með sjö marka mun, 13-20. Stelpurnar stóðu sig frábærlega og var þetta gríðarlega skemmtileg upplifun og reynsla fyrir þær.
Sannarlega frábærir krakkar sem eru í yngri flokkum Gróttu.