Handboltaæfingar 9.flokks

Handknattleiksdeild Gróttu er með æfingar fyrir krakka á leikskólaaldri fædda 2019 og 2020. Æfingarnar eru á laugardögum kl. 09:15-10:00 og fara fram í litla salnum í íþróttahúsinu. Þjálfari er Eva Björk Hlöðversdóttir.

Á æfingunum gefst krökkum á leikskólaaldri að kynnast handbolta með reglubundnum æfingum einu sinni í viku. Lögð verður áhersla á skemmtilega leiki með og án bolta og grunnatriði handbolta kennd með fjölbreyttri hreyfingu. Fyrsta æfing verður 7.september. Við hvetjum alla til prófa. Frítt verður að prófa fyrstu æfingar.

Skráning fer fram í Sportabler, https://www.abler.io/shop/grotta/handbolti og er verðið fyrir haustönnina 25.900 kr. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á netfangið andri@grotta.is.

Samstarfi við KR slitið

Fyrr í dag var okkur í stjórn knattspyrnudeildar Gróttu tilkynnt um að stjórn knattspyrnudeildar KR hefði ákveðið að slíta samstarfi við Gróttu í 2., 3. og 4. flokki kvenna. Ávörðunin tekur gildi frá og með lokum keppnistímabils í Íslandsmóti. Þessi ákvörðun var tilkynnt án nokkurs fyrirvara og kemur okkur á óvart. Að okkar mati hefur samstarfið borið góðan ávöxt hingað til og skapað svigrúm til að veita sem flestum iðkendum verkefni við hæfi.

Knattspyrnudeild Gróttu mun halda sínu striki og starfrækja alla yngri flokka kvenna á komandi tímabili þar sem haldið verður áfram að byggja ofan á það frábæra starf sem unnið hefur verið í kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi. Eins og kunnugt er er meistaraflokkur kvenna í toppbaráttu í Lengjudeildinni annað tímabilið í röð og uppaldar Gróttustelpur hafa skilað sér upp í liðið nær árlega. Og við erum rétt að byrja. Tilkynnt verður um þjálfara og æfingatíma á næstunni. Allt kapp verður lagt á að byggja upp sterka einstaklinga og frambærilegar knattspyrnukonur til framtíðar.

Við þökkum nágrönnum okkar í KR fyrir samstarfið og óskum félaginu velfarnaðar.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Gróttu mun boða foreldra í viðeigandi flokkum á upplýsingafund í næstu viku þar sem farið verður betur yfir næstu skref.

Virðingarfyllst,

Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu