Hilmar Þór Helgason á láni til Gróttu

Hinn 16 ára Hilmar Þór hefur skrifað undir eins árs lánssamning við Gróttu en hann kemur frá Breiðablik. Hilmar er uppalinn Gróttumaður en skipti yfir í Breiðablik árið 2019 og hefur spilað þar síðan. Hilmar er gríðarlega efnilegur markmaður sem á að baki einn leik fyrir U-17 ára landsliðið.

Hilmar er spenntur fyrir verkefninu í Gróttu og segist vera ánægður að vera mættur aftur á Vivaldivöllinn.

„Þetta ferli að koma hingað er búið að vera langt. Ég er mjög glaður að vera kominn aftur og er spenntur að vera partur af þessu liði. Strákarnir, staffið og þjálfararnir eru búnir að taka vel á móti mér og ég hlakka til að vinna með þeim. Ég er mikill og stoltur Gróttumaður og mun gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná langt.“

Það er mikið gleðiefni að fá Hilmar aftur í Gróttu 👏🏼

Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson framlengja hjá Gróttu

Þeir Arnar Þór Helgason og Júlí Karlsson hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu til tveggja ára.

Arnar Þór er 25 ára gamall miðvörður, sem hefur verið lykilmaður í vörn Gróttuliðsins síðastliðin ár ásamt því að vera afar ógnandi í vítateig andstæðinganna. Arnar Þór á að baki 101 leiki fyrir Gróttu og hefur skorað í þeim 12 mörk, en hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk félagsins árið 2016.

Júlí er 25 ára gamall miðvörður sem spilaði sína fyrstu leiki með Gróttu sumarið 2018 og hefur spilað með liðinu síðan. Júlí á 47 leiki að baki fyrir félagið og hefur skorað í þeim 2 mörk en hann var ásamt Arnari lykilleikmaður í varnarlínu Gróttu síðastliðið sumar.

Samningarnir við Arnar Þór og Júlí eru mikið fagnaðarefni fyrir knattspyrnudeild Gróttu og alla stuðningsmenn félagsins.

Katrín Anna með U18 landsliðinu í Serbíu

U-18 ára landslið kvenna lék í Belgrad í Serbíu 22 – 25.nóvember síðastliðinn á umspilsmóti um sæti í A-keppni Evrópumóts kvenna í þessum aldurshópi á næsta ári. Katrín Anna Ásmundsdóttir leikmaður meistara- og 3.flokks var okkar fulltrúi í landsliðinu.

Stelpurnar unnu Slóveníu 24-21 í fyrsta leik og síðan Slóvakíu í öðrum leik 29-26. Því miður tapaðist úrslitaleikurinn við Serba stórt, 31-20. Okkar leikmaður Katrín Anna Ásmundsdóttir stóð sig vel á mótinu.

Katrín Anna hefur verið fastamaður í þessu landsliði undanfarin ár. Gríðarleg reynsla og tækifæri sem Katrín Anna fær í landsliðinu sem vonandi nýtist Gróttu næstu misseri.