Halldór Kristján ráðinn aðstoðarþjálfari Chris hjá meistaraflokki karla 

Halldór Kristján Baldursson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla við hlið Chris Brazell, sem var ráðinn aðalþjálfari liðsins á dögunum. Halldór Kristján er 27 ára gamall, með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og vel kunnugur staðháttum á Vivaldivellinum. Hann er uppalinn í Breiðabliki en á 82 leiki að baki fyrir Gróttu allt frá árinu 2016. Gróttufólk gleymir því seint þegar Halldór Kristján leiddi Gróttuliðið inn á Kópavogsvöllinn sumarið 2020, með fyrirliðabandið um arminn, þegar liðið lék sinn fyrsta leik í sögu félagsins í efstu deild. 

Síðustu ár hefur Halldór, ásamt því að vera leikmaður, verið viðriðinn þjálfun hjá félaginu en hann þjálfaði m.a. 4. flokk karla árið 2020 og hefur síðustu tvö ár þjálfað Kríu, venslalið Gróttu, sem leikur í 4. deild karla. Undir stjórn Halldórs hefur Kría komist í úrslitakeppni 4. deildar tvö sumur í röð. Halldór Kristján tekur nú slaginn með meistaraflokki karla í öðru hlutverki en áður og er knattspyrnudeild Gróttu gríðarlega spennt fyrir komandi tímum, með ungt en afar efnilegt þjálfarateymi við stjórnvölinn.

Dom og Paul áfram hjá knattspyrnudeild

Það er gleðiefni að tilkynna að þeir Dom Ankers og Paul Western verða áfram þjálfarar knattspyrnudeildar Gróttu eftir farsælt sumar 👏🏼Englendingarnir Dom og Paul hófu störf í sumar hjá Gróttu og unnu þar með flestum flokkum félagsins ásamt því að bjóða upp á afreksæfingar. Á komandi tímabili mun Dom þjálfa 5. og 2. flokk karla og Paul 3. flokk karla og kvenna. Dom og Paul verða einnig báðir í þjálfarateymum meistaraflokks karla og kvenna.