Þrír í U16 ára landsliðinu

Helgina 5. – 7.nóvember æfir U16 ára landslið karla undir stjórn Heimis Arnar Árnasonar og Hrannars Guðmundssonar þjálfara liðsins.

Við eigum þrjá fulltrúa í þeim hópi, þá Alex Kára Þórhallsson, Antoine Óskar Pantano og Hannes Pétur Hauksson.

Við óskum strákunum til hamingju með valið og góðs gengis á æfingunum.

Kjartan Kári og Arnþór Páll æfa með Bodö/Glimt

Kjartan Kári Halldórsson og Arnþór Páll Hafsteinsson hafa síðustu daga æft með Noregsmeisturum Bodö/Glimt. Þeir hafa æft með unglingaliðum félagsins en fengu í dag tækifæri til að æfa með aðalliðinu, daginn eftir frækinn 6-1 sigur Bodö/Glimt á Roma í Evrópudeildinni.

Gera má ráð fyrir að reynslan verði frábær fyrir Gróttumennina ungu en ferðin er þáttur í afreksstefnu Gróttu sem meðal annars felur í sér samvinnu með erlendum félögum.

Chris Brazell þjálfari meistaraflokks karla er ánægður fyrir hönd strákanna:
„Grótta er lítið félag sem þarf að fara ótroðnar slóðir til að halda í við, og gera betur en önnur félög. Mikið fjármagn er ekki aðalatriðið í þróun ungra leikmanna og því stefnir Grótta að því að búa ungum leikmönnum sem eru að hefja sinn meistaraflokksferil besta umhverfi á landinu. Umræddir leikmenn (strákar og stelpur) geta verið uppaldir í Gróttu, lánsmenn frá öðrum félögum eða leikmenn sem við komum auga á (e. scouting) og fáum til liðs við okkur. Við viljum hjálpa ungum leikmönnum að bæta sig innan okkar raða og hjálpa þeim þannig að taka næstu skrefin á sínum knattspyrnuferli.

Hluti af þessari nálgun hjá Gróttu er að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að fara í heimsóknir til atvinnumannafélaga og upplifa æfingar og umhverfi eins og það gerist best. Ég tel það alls ekki síðra en að fara á „trial“ þar sem pressan er mikil og skemmir oft upplifunina. Heimsóknir eins og Arnþór og Kjartan eru í núna bæta miklu við reynslubankann og geta hjálpað leikmönnum síðar meir að aðlagast og líða vel komist þeir út í atvinnumennsku.

Grótta fagnar samstarfinu við Bodö/Glimt. Reynslan er frábær fyrir strákana og við hlökkum til að eiga gott samband við félagið og starfsfólk þess